Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hallvarður Hallsson í Skjaldarbjarnarvík

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Um bræðurnar í Skjaldarbjarnarvík hér í sókn, þá Jón og Hallvarð, sem lifðu fram á byrjun þessarar aldar hefi ég heyrt hér ýmsar sögur. Hallvarður var karlmenni mikið svo fáir vissu afl hans. Það hafa gamlir menn hér sagt mér að hafi verið vani hans að fara einn á sexæring frá Horni yfir um Húnaflóa og að Höfnum á Skaga; lagði hann þá stundum upp árar á flóanum og svaf með næði, en lét skipið flatreka á meðan. Þar sem hann kom að landi gat hann aleinn sett sexæringinn undan sjó og vildi ekki að aðrir hjálpuðu sér til þess. Það er sagt að hann hafi verið ójafnaðarmaður mikill. Hallvarður dó hér í Skjaldarbjarnarvík og mælti hann svo fyrir að þar skyldi grafa sig í túninu sunnanverðu enda var svo gjört og hefi ég séð þar leiði hans. Svo hafa menn sagt mér hér að þá er hann var dáinn hafi prestur skipað að flytja lík hans til kirkju og hafi bændur ætlað að gjöra svo, en þegar þeir tóku líkið og ætluðu að flytja það sjóveg, því landveg verður ekki komizt með áburðarhesta, þá gjörði svo mikið ofsaveður á móti þeim að þeir urðu að halda til sama lands aftur. Gekk svo þrisvar sinnum og þá hættu þeir við að flytja kallinn.