Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Helgafellsklaustur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Helgafellsklaustur

Klaustrið var flutt frá Flatey og að Helgafelli eins og fyrr var sagt 1184 og var munkaklaustur. Klaustrið og bærinn dregur nafn af fellinu sem þar er hjá og sem landnámsmaðurinn Þórolfur mostraskegg kallaði Helgafell. Bærinn stendur sunnan í fellinu og nær túnið ofan að vatni einu sem kallað er Helgafellsvatn.

Suður frá bænum á Helgafelli er skarð nokkurt í háls einn sem Munkaskarð heitir. Þaðan sér seinast Helgafell þegar frá bænum er riðið í þá áttina. En sú saga er til þess að einu sinni hafi gripdeildarfullir fjandmenn ráðizt á klaustrið og hafi þá munkur einn sem flúði undan þeim, en gat ekki komizt lengra sökum ístru og offitu en í þetta skarð, orðið þar til. En önnur sögn er það að þegar klaustrið var lagt niður á Helgafelli um siðaskiptin hafi munkarnir sem reknir voru úr klaustrinu farið þessa leið burtu, en litið aftur úr skarði þessu heim til staðarins og klaustursins og bannfært hvorttveggja með sungnum sálmum, og því heiti skarðið munkaskarð.

Um Helgafellsvatn er það sögn að ungbarnabein hafi stundum rekið upp úr því. Sagt er að þau bein séu svo undir komin að munkarnir í klaustrinu hafi átt börn við nunnunum[1] og borið þau út í vatnið til þess að ekki bæri á barneignum þeirra. Sæmundur Hólm sem var prestur að Helgafelli frá 1789 - 1819 († 5. apríl 1821) synti einu sinni í vatninu og sagði að þar væri allt krökt af ungbarnabeinum.

  1. Hér er enn ruglað saman munkaklaustri og nunnuklaustri og hvort tveggja látið vera á sama stað.