Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Helgi í Njarðvík

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Ljótunn hét ekkja er bjó í Njarðvík (hennar er getið í Árbókum Espólíns[1]) auðug vel. Hjá henni var fyrirvinna maður sá er Helgi hét. Hann var einn með sexæring og reri honum oft í tvísýnu veðri og sat þangað til hann var hlaðinn; reri honum svo heim í vörina og skildi þar við hann. En altíð er hann kom heim varð hún að hafa tilbúið handa honum á rúmi hans sauðarfall, tuttugu hrognakökur og smjörfjórðung. Lauk hann þessu; enda lá hann úti dægrum saman matarlaus.


  1. Árb. Esp. VIII, 6-7, IX, 95, 143. Ljótunn var Sigurðardóttir, kona Þorkels Jónssonar í Njarðvík, en þau voru foreldrar Jóns Skálholtsrektors (1697-1759).