Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Herjólfur og Vilborg

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Herjólfur og Vilborg

Sagan segir að í fyrndinni hafi maður nokkur að nafni Herjólfur búið í dal þeim á Vestmannaeyjum sem síðan er nefndur Herjólfsdalur. Er dalur sá á þrjá vegu umkringdur háum fjöllum og veit hann móti haflandsuðri vestan til á Heimaeyju, sem svo er kölluð; bær Herjólfs stóð í dalnum vestanverðum undir háu og snarbröttu hamrafjalli. Hann var sá eini af eyjarbúum er hafði gott vatnsból nærri bæ sínum og komu því margir þangað til að beiðast vatns, en hann vildi engum unna vatns nema við verði. Sagt er að Herjólfur hafi átt dóttur eina er Vilborg hét, og var hún að skapferli ólík föður sínum og þótti henni hann harðdrægur er hann seldi nábúum sínum vatnið. Stalst hún því til þess oft á nóttum þegar karl ei af vissi að gefa mönnum vatn.

Einhverju sinni bar svo við að Vilborg sat úti nálægt bænum og var að gjöra sér skó. Kom þá hrafn til hennar og tók annan skóinn og fór burt með hann. Henni þótti fyrir að missa skó sinn, stóð upp og fór á eftir hrafninum, en er hún var komin spölkorn frá bænum féll skriða undra mikil niður úr fjallinu og yfir bæ Herjólfs sem þá var í bænum og varð undir skriðunni. En Vilborg átti hrafninum líf sitt að þakka; en það sem til þessa bar var það að hún margsinnis hafði vikið hröfnum góðu og voru þeir því orðnir henni svo handgengnir. Síðan segir sagan að Vilborg hafi reist bæ þar sem nú heitir á Vilborgarstöðum og mælt svo fyrir að tjörn ein sem nú er suður undan bænum skyldi Vilpa heita og skyldi engum verða meint af vatni úr Vilpu þó það ekki væri sem fallegast útlits. Það er og sögn manna að vestan til í Vilborgarstaðatúni sé Vilborg grafin og er þar enn í dag kallað Borguleiði. Í Herjólfsdal við ofanverða grjóthrúguna sem féll á bæinn er enn tær vatnslind sem aldrei þrýtur þó alstaðar annarstaðar verði vatnsrás er út lítur að séu mannaverk á, og sér í mynni hennar þar sem hún rennur út í tjörnina.

Tjörnin sunnan við Vilborgarstaði nefnist enn Vilpa og er hún almennt vatnsból frá bæjum þeim er næst henni liggja.