Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hjörleifsleiði og Hjörleifshöfði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Hjörleifsleiði og Hjörleifshöfði

Það verður ekki séð af Landnámu með neinni vissu hvar Ingólfur landnámsmaður heygði Hjörleif fóstbróður sinn; þó liggur næst að halda það hafi verið nálægt því er Hjörleifur hafði byggt, því eftir að verkinu var lokið segir sagan að hann hafi gengið upp á höfðann.

Nú hefir Kötlugjá sett allt undir margra faðma þykkvan sand kringum Hjörleifshöfða eins og annarstaðar á Mýrdalssandi og tekið af allar leifar af mannaverkum, en nú er fyrrnefndur höfði hátt fjall (sjá Almanakið[1]). Þar sem höfðinn er hæstur stendur grjótdyngja mikil og upp af henni hlaðin varða af grjóti og hafa menn það fyrir satt að þar undir liggi Hjörleifur, enda eru til munnmæli að búanda hafi dreymt Hjörleif og skyldi hann hafa beðið búanda að flytja sig upp á höfðann þar sem sól kæmi fyrst á og færi síðast af, og þetta er tilfellið með fyrrnefnda grjótdyngju, og skyldi Hjörleifur hafa heitið því að búandi skyldi hafa höpp af verki þessu enda skyldi búandi hafa fengið hvört happ af öðru bæði til sjós og lands.

Menn hafa trúað að nornasköp hafi legið á höfðanum að hvör sem þar býr blómgist vel í 20 ár, en úr því fari jafnan hnignandi, og ekki verður því neitað að svo hefur gengið síðan á átjándu öld. Þegar bóndi er nýkominn í Hjörleifshöfða hefir það sjaldan brugðizt að ef varðan á Hjörleifsleiði hefur verið endurbætt þá hefur komið eitthvört happ á fjörur. Þar á móti vildi það til fyrir bónda einum sem var búinn að vera þar yfir 20 ár að ef steinn var lagður í vörðuna þá átti bóndi það víst að þá missti hann einhvörn stórgrip eða minnsta kosti einhvörja lifandi skepnu.

Benidikt Þórðarson, sá sami er drukknaði á Mýrdalssandi með sýslumanni Öefjörð, kom í höfðann eitthvört sinn í kafaldi og var með öllu óvilltur, en þegar hann kom upp í höfðann og ætlaði til bæjarins villtist hann allt í einu og vissi ekki fyrri til en hann var kominn að Hjörleifsleiði, og ætlaði að taka þaðan stefnu til bæjarins, en hann villtist bráðlega aftur og vissi ekki hvað hann fór fyrr en hann var kominn að leiðinu aftur; og þannig fór þrisvar sinnum. Þá orkti Benidikt vísur þrjár sem nú munu vera tapaðar nema sú fyrsta sem þannig hljóðar:

Er hér haugur uppgjörður,
ýtar hafa í minni,
hér var grafinn Hjörleifur
hraustur í fornöldinni.

En er hann hafði orkt vísurnar komst hann tafarlaust til bæjarins.

  1. Í almanakinu 1861 og lengi síðan var tafla um hæð nokkurra fjalla.