Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hlíðar-Vigga

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hlíðar-Vigga

Í Eyjafirði á átjándu öld var kerling nokkur sem hét Vigdís, ættuð úr Kræklingahlíð og almennt kölluð Hlíðar-Vigga. Hún ól mestan aldur sinn á húsgangsflakki um sveitirnar. Þegar hún kom á bæi og hitti börn úti var það venja hennar að segja við eitthvort þeirra: „Segðu henni móður þinni ég sé komin.“ Þetta gilti hjá henni sama sem að beiðast gistingar. Þegar Stefán Þórarinsson var orðinn amtmaður á Möðruvöllum[1] var hann ötull og stjórnsamur og vildi afmá ýmsar gamlar óvenjur í Norðurlandi og þar á meðal húsgangsflakk fólks sem þá var títt og gekk á bændum eins og logi yfir akur. En þótt hann fljótt og vel gæti lagfært þetta urðu þó sumir gamlir húsgangar sem bágt var lögum yfir að koma. Hlíðar-Vigga var ein og ekki bezt, og flakkaði hún allt að einu þó bannað væri. Ber hana þá eitt sinn að Möðruvöllum; var hún þá ríðandi og reiddi undir sér stóran og troðinn beiningapoka. Amtmaður sér hana á hlaðinu út um stofuglugga sinn hvar hún sat á hestbaki og talaði við einhvern. Hann var maður bráðlyndur og rann honum í skap er hann sá kerlingu með svo stóran beiningapoka, grípur staf sinn og hleypur út og ætlar að skrifta henni fyrir flakkið. Þess er ekki getið hvernig honum hafi sagzt, en kerling brá sér ekki við og sat hún kyr þótt hann skipaði henni af stað. Hann reiðir stafinn til höggs og slær upp á bikkjuna sem hún reið, og þá segir kerling: „Þú manst það ekki núna þegar þú varst strákur á Grund og ég var að gefa þér skeljarnar upp úr vasa mínum.“ Amtmann rankaði við þessu, brá sér inn, sókti krónu og gaf kellingu og bað hana svo fara í friði.

  1. Stefán Þórarinsson (1754-1823) var amtmaður í Norður- og Austuramti frá 1783 til dauðadags. Hann var sonur Þórarins sýslumanns á Grund í Eyjafirði Jónssonar.