Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hrólfur sterki

Úr Wikiheimild

Hrólfur Bjarnason hinn sterki hét maður í Skagafirði. Er ættleggur mikill frá honum kominn og er hann kallaður Hrólfsætt. Auk annara barna átti Hrólfur tvo Bjarna fyrir sonu; var annar kallaður Verri-Bjarni, en annar Betri-Bjarni. Eitt sinn varð Verri-Bjarni eitthvað sakfallinn hjá Dönum og höfðu þeir hann í haldi hjá sér á Bessastöðum vor eitt, en aðrir segja að þeir gjörðu það af glettingum einum saman við Hrólf til að vita hvernig honum brygði við. Þegar Hrólfur kom suður skreiðarferð frétti hann hvar komið var; bjóst hann þó að ná syni sínum og spurði sig fyrir hvar hann væri haldinn. En sem hann kom heim á grandann [milli Brekku og Lambhúsa] trylltist hann og gekk berserksgang og hljóðaði. Braut hann hverja hurð upp og gekk rakleiðis þangað sem Bjarni var og bar hann burt undir hendi sér, en Danir sýndu enga mótvörn. Aðrir segja þeir hafi orðið svo hræddir að þeir hafi sleppt Bjarna lausum og látið hann undireins verða fyrir honum.