Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Hvanndalabræður og Jón stólpi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Hvanndalabræður og Jón stólpi

Margar sögur hafa verið til um hrakninga á sjó á Íslandi, bæði að fornu og nýju, og hefur sumum þeirra verið snúið í ljóð, en sumir hafa gengið í munnmælum og ekki verið kveðið um. En flestar slíkar sögur eru um hrakninga sem menn hafa orðið fyrir nauðugir, svo öðru máli sýnist vera að skipta um þær ferðir sem menn hafa tekizt fúsir á hendur, en komizt fyrir það í nauðir og frelsazt þó úr þeim bæði fyrir tilstilli forsjónarinnar og eigin snjallræði. Þess leiðis eru sögur þær sem gengið hafa af hinum svonefndu Hvanndalabræðrum eftir því sem séra Jón Einarsson hefur frá sagt og Espólín eftir honum.

Sagt er að Kolbeinsey liggi tólf vikur sjávar í norður frá Grímsey, en átján vikur norður af Íslandi (frá Eyjafjarðarmynni) og er hún kölluð „Mevenklint“ í sjóbréfum farmanna. Á dögum Guðbrands biskups bjó sá maður á Hvanndölum sem Tómas hét; hans synir voru þeir svokölluðu Hvanndalabræður. Hét hinn elzti Bjarni, en hinir Jón og Einar. Bjarni hafði átta um tvítugt, en hinir voru fyrir innan tvítugt þegar þessi saga gerðist hér um bil 1580. Allir voru þeir bræður atgervismenn miklir að afli og orku og mestu ofurhugar; þeir voru vanir vosi og sjóferðum og aflamenn miklir og þóttu giftusamir löngum. Af því þeir þóttu beztu sjómenn fyrir norðan á þeim dögum fékk Guðbrandur biskup þá til að leita að Kolbeinsey og gaf þeim til þess mikið fé.

Þeir bræður fóru þrír saman á áttæringi og var Bjarni formaðurinn; hann valdi gott veður til ferðarinnar, og höfðu þeir með sér vistir og aðrar nauðsynjar. Þeir lögðu á stað á nóni í hagstæðum byr og höfðu hálfnað Grímseyjarsund um sólarlag. Kom þá á fyrir þeim austansúld og svæla með dimmviðrisþoku svo varla sá út fyrir keipana, rak þá svo vestur í haf í tvö dægur því enginn kostur var að halda stefnunni norður, svo var veðurofsinn mikill með stórsjó og steypiregni. Sneru þeir þá undan og héldu til lands og náðu lendingu á Hrauni í Fljótum eftir tvo sólarhringa. Þó svona tækist til í þetta sinn lögðu þeir bræður aftur á stað og hrepptu enn austanvind mikinn og dimmviðri. Þegar þeir höfðu siglt tvö dægur sótti þá Jón og Bjarna svo mikill svefn að þeir gátu ekki haldið sér upp. Tóku þeir þá það til ráðs að þeir bundu seglið fast og lögðust fyrir, en Einar var við stjórn, aðeins hálfvakandi. Um þetta leyti létti nokkuð af dimmviðrinu svo að sást til sólar og var hún komin í vestur, en til austurs var að sjá eitthvað hvítt og ætlaði Einar að það mundi vera hafskip. En brátt sá hann að þetta var hæsta bjargið á Kolbeinsey sjálfri og var það alhvítt af bjargfýling sem sæi á fífubing. Vakti þá Einar bræður sína með því að þeir væru komnir undir eyna. Þeir bræður ruku á fætur og tréfelldu, tóku til ára og drógu sig upp í eyjarvarið þó veðrið væri enn mikið, en þeir voru svo röskir menn að þeir reru viku sjávar á eyktinni. Komust þeir svo að skeri nokkru við eyna og sópuðu þar saman fugli með báðum höndum, svo var hann mikill og spakur. Síðan renndu þeir vöðum undir eynni; en ekki urðu þeir fiskvarir að því skapi sem fuglinn var mikill. Lögðu þeir svo að landi í vík einni, köstuðu stjóra og bundu þar við skipið, en sú yfirsjón varð þeim að þeir festu ekki landfestina svo að brimsúgurinn tók hana út fyrir þeim. Af því veðrið var mikið fór skipið þegar að reka undan eynni og urðu þeir að horfa á það þar sem þeir stóðu allslausir uppi í fjörunni. Var það ekki að undra þó þeir kæmust við af ástandi sínu, þar sem ekkert var sýnna en opinn dauðinn fyrir. Bjarni var syndur og lagðist hann tvisvar eftir skipinu; en bæði vegna ofveðurs og brims sem hleypti þá í ætlaði hann varla að ná landi; en skipið rak æ lengra vegna ofveðurs með öllu sem þeir höfðu sér til lífsbjargar, mat og drykk og fatnaði þeirra.

Í þessum hörmungum reikuðu þeir ráðþrota upp frá flæðarmálinu; varð þeim það eitt til úrræða að þeir féllu á kné á klettunum og báðu guð grátandi hjálpar og miskunnar. Síðan ráfuðu þeir upp á eyna og töluðu ekki orð frá munni. Þá gaf guð það að sjó og vind kyrrði svo að það kom fyrst logn og þar næst hægur vindur á útnorðan svo að skipinu sveif aftur að eynni. Óttuðust þeir þá þó djúpt væri að skipið kynni að steyta á skeri þar sem þeir næðu ekki til, en það varð þó ekki. Þeir bræður höfðu haft haldfæri með sér úr skipinu og röktu það niður í stóran hring, bundu stein í endann á því og köstuðu honum út í skipið. Vildi þeim það til lífs og bjargar að steinninn festist undir stafnlokinu á skipinu svo að þeir gátu dregið það að sér og má nærri geta hversu óumræðilegur fögnuður það muni hafa verið fyrir þá. Bjuggu þeir svo betur um skipið eftir en áður og tóku síðan fugl (langvíur) og egg í bezta næði og blíðviðri.

Þeir vaðbáru eyna og var hún 400 faðma á lengd, en á breidd og hæð 60 faðma. Ferns konar grjót var á eynni og hún öll með hólum og gjám, full af grjóti og engin grastó í milli. Alls voru þeir sjö dægur við eyna; höfðu þeir þá náð 800 af fugli, ógrynni af eggjum og nokkru af fiski. Frá Kolbeinsey var landið allt horfið sjónum nema einar þrjár þúfur, en það voru hæstu fjöll á landi. Þegar þeir fóru frá eynni fengu þeir hagstæðan byr, farnaðist allt vel og tóku land á Siglunesi á Maríumessu. Foreldrar þeirra þóttust hafa heimt þá úr helju og urðu alls hugar fegnir komu þeirra. Þessi för Hvanndalabræðra hefur síðan verið að minnum höfð.

Olavíus getur þess í ferðabók sinni að fyrr meir hafi verið farið til Kolbeinseyjar á vorin á áttæringum eftir dún og sel og fugli. Voru selir þar svo spakir að taka mátti með höndum. Jón hét maður, kallaður stólpi og var bóndi í Grímsey; Olavíus segir að hann hafi seinastur farið til Kolbeinseyjar. Viðurnefni sitt fékk hann af því að hann reisti upp stöng tuttugu álna langa áður en hann fór á stað úr Grímsey og festi á hana hvíta vaðmálsveifu til þess að geta ratað heim aftur.