Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Jón í Holti og Ragnhildur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Jón í Holti og Ragnhildur

Jón hét bóndi einn er bjó í Holti á Síðunni um miðja 18. öld. Hann átti konu þá er Ragnhildur hét. Þau bjuggu tvö ein og höfðu eina kú, en æfar margt sauðfé. Þegar þau fóru að skera á haustin, tóku þá og þá kindina, leizt þeim hún þá svo falleg, röktu ætt hennar langt upp eftir og töldu það hið mesta heppniskyn; slepptu svo þeirri kindinni. Varð því minna um skurði en ella mundi, en á vorin gekk það hirðislaust, týndi svo ullinni og varð hún öðrum að bráð. Lítið varð um vinnu kerlingar og voru þau því ber og nakin að öðru en einhverjum ræflum og ekki nærri þeim komandi. Jón lá í flatsæng í baðstofu, en hún á meljum og reiðing fram í búri.

Samtíðis þessu bjó Gísli í Skál á Síðunni Eiríks sonur lögréttumanns Gíslasonar prests á Krossi. Kona Gísla var Guðrún Björnsdóttir – af ætt Búlandsmanna – mesta tápkona. Þangað kom Ragnhildur í Holti vegfarandi seint á degi. Sátu menn þá í fjósinu um kvöldið eins og enn er siður víða fyrir austan. En með því lítið var um aukarúm þar í Skál, enda enginn fús á að miðla rúmi við hana, var búið um hana í auðum bás. Svaf hún þar um nóttina. Daginn eftir varð Ragnhildi engis kostar upp komið. Lá hún þar svo um daginn eftir þangað til að morgni. Gekk hún til af biti og þóktu ræflar þeir er hana huldu ekki sem beztir viðkomu því þeir moruðu allir utan í varmanum. Þá gekk Guðrún Björnsdóttir kona Gísla til hennar og reisti hana upp, afklæddi hana og bjó henni kerlaug af hlandi. Var allur hennar kroppur blóðrisa. Fekk hún henni alklæðnað af sjálfri sér og bað hana ekki koma oftar þannig útleikna fyrir augu sér.

Eftir þetta lá hún lasin í þrjá daga, en eftir það varð hún aldrei eins. Á hverju hausti færði hún Guðrúnu geldsauðarreyfi það bezta er hún átti, en hún gaf henni flík á móti.

Það urðu afdrif þessa þeirra mikla fjárhlutar að Ólafur Voger á Kirkjuvog í Höfnum keypti flestallan fénað þeirra á frest, en sveikst um að borga. Komust þau svo á vonarvöl að lokum og urðu niðursetningar.