Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Jón í Skjaldarbjarnarvík og Jón í Ófeigsfirði

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Jón í Skjaldarbjarnarvík og Jón í Ófeigsfirði

Þeir nafnar Árnasynir vóru vinir miklir og sótti Jón í Skjaldarvík nafna sinn oft að ráðum. Einu sinni átti sýslumaður inni þinggjald hjá Jóni Skjaldvíking og hélt hann því so árum skipti og vildi ekki láta þó sýslumaður sendi orð til og jafnvel Jón vinur hans. Það kvisaðist að sýslumaður mundi sækja Jón heim og taka með valdi skuld sína, en Jón kvaðst vopnum verja.

Það var jafnan vani Jóns í Ófeigsfirði að hafa kaup við nafna sinn; einkum sótti hann að Skjaldarvík þann bezta við sem þar rak. Þó nokkuð væri til heima, þurfti við til skipagjörðar og annars enn vandað[r]i smíðar. Eitt vor fer hann á skipi sínu til Skjaldarvíkur, flytur með sér sinn bezta búnað og klæðist á hann áður lendir. Bóndi var í fjörunni og heggur við með einni mikilli exi. Skríður skipið að landi og kennir hann óglöggt mennina, en þó sízt þann er í afturstafni stóð veglega klæddur; en þó var það reyndar Ófeigsfjarðar-Jón og hafði látið hattinn síga á nef niður so nafni sinn þekkti sig ekki. Jón bóndi hyggur þar sýslumann og hefur á lofti öxina. Var hann þá gamall, en nú brast á berserksgangur og grenjar mót komendum. Það heyrir nafni hans og hleypur af skipi og að bónda, snarar af honum exina og takast þeir fangbrögðum. Er bóndi sterkari, en mæðist fljótt fyrir aldurs sakir. Í þessu þófi fer hatturinn af Jóni og þekkir þá bóndi nafna sinn, sleppir tökum [og] segir: „Á, ert þú það, hræið?“ – Það var máltak hans við vini sína. – Talast þeir nafnar við og segir hinn aðkomni þetta hafa verið leik sinn og viljað reyna hvurt það væri með alvöru talað að bóndi verði með vopnum ef sýslumaður sækti eftir gjaldinu.

Það er haft eftir mönnum sem sáu Skjaldarvíkur-Jón að mjög væri hann tröllslegur og ófínn að öllum háttum, og var það vani hans við stritverk að mása mjög og ólmast, en ekki þótti hann þolinn eftir afli; var líka ómáttkari eftir aflraunir.