Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Jón Einarsson á Sauðá

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Jón Einarsson á Sauðá

Svo er mælt að Jón[1] færi frá foreldrum sínum vestur að Óspaksstöðum í Hrútafirði og var þar nokkur ár. Réri hann á hvörjum vetri suður og oftast í Keflavík. Er mælt að Norðlingum þækti kaupmaður þar mæla og vikta illa. Réri Jón á vegum hans eins og fleiri; var þeim þar margrætt um. Einu sinni þá Jón lagði inn hjá kaupmanni fisk nokkurn kom hönum ekki saman um viktina við kaupmann. Er þá mælt að Jón hafi gefið kaupmanni kinnhest og kastað hönum flötum til jarðar. Kallaði kaupmaður menn sína og vildi taka Jón og berja á hönum. Hljóp Jón þá í viðarköst einn er þar var á strætinu, greip þar bjálka og varðist með af mikillri hreysti svo enginn danskur þorði nærri að koma; er mælt Norðlingar hafi fengið hann til þess, en lofað hönum styrk sínum og brautargengi; en ætla má að lítið yrði af því. Lét kaupmaður þá um batna nokkuð.

Síðan fór hann norður og giftist þar; hét fyrri kona hans Guðbjörg, dóttir Hallgríms Halldórssonar bónda frá Egg í Hegranesi, og bjó sá Hallgrímur seinast á Steini á Reykjaströnd; var það vitur maður og margfróður. Börn Jóns og Guðbjargar voru Þorbergur er drukknaði á skipi því er Þorskur hét; átti það skip Jakob Hafsteinn verzlunarstjóri frá Hofsós, faðir J. P. Hafsteins amtmanns sem nú er yfir norður- og austuramtinu. Var það skip á siglingu frá Drangey í Hofsós. Sonur Þorbergs var Páll Melantrix læknir; var hann stórvitur og mikilhæfur maður og hið mesta góðmenni. Er mælt hann væri einn hinn bezti læknir á landi hér á sinni tíð. Fékk hann vesturumdæmi Íslands til forráða, varð skammær og drukknaði á Breiðafirði í aftakagarði. – Annar sonur Jóns og Guðbjargar hét Jón, dó ungur í harðindum. – Dætur voru Guðrún og Guðríður; eru frá þeim ættir komnar.

Eftir skilnað þeirra Jóns og Guðbjargar varð hann vinnumaður á Hafsteinsstöðum, giftist þaðan í annað sinn ekkju, Guðrúnu Bessadóttir frá Ögmundarstöðum í Víkursveit, og bjó þar nokkur ár. Þaðan fluttist hann að Sauðá og bjó þar til elli. Var hann hinn mesti stóreflismaður og sjómaður mikill og aflaði bezt af öllum á Skagafirði. Mælt er og hann hafi verið mjög kvensamur og átt mörg börn og haft kvenfólk víða sér við hönd, en búið mjög illa við konur sínar og þó svarið fyrir mörg hórbörn sín. Er hér eitt dæmi þar upp á, að stúlka nokkur kenndi hönum barn og synjaði hann með öllu, og krafðist stúlkan að mega sverja barnið, en hann neitaði því þverlega og krafðist synjunareiðs og fékk hann. Stúlkan hét Guðrún og var Samsonsdóttir. Er mælt hún hafi þá gengið út úr þinghúsinu og skotið máli sínu fyrir hinn allra hæsta rétt og beðið hinn allsvitandi guð að auglýsa hvört nú væri svarið ranglega við nafn hans, og þegar Jón væri nýbúinn að vinna eiðinn þá hafi þrumað yfir húsinu og það skolfið og orðið jarðskjálfti nokkur. Eftir þetta kölluðu sumir hann Jón eið, því allir þóktust vita að hann hefði orðið meinsærismaður. Er mælt að hann hafi komizt í margar líkar kvennahreður; er hönum það eina til lýta lagið.

Dætur tvær átti Jón með Guðrúnu Bessadóttir seinni konu sinni; hét önnur Rósa, en önnur Guðrún. Rósa varð skammær, dó barnlaus. Guðrún átti son þann er Gísli hét með Ólafi Gíslasyni sem nú er á Daðastöðum. Síðan giftist hún norður í Svarfaðardal manni þeim er Grímólfur hét. Juku þau ætt sína þar og er hún úr sögunni.

Varð nú Jón maður gamall og hrumur mjög og sjóndapur. Á seinustu árum hans hætti hann við búskap; var þá skipt búi hans og kona hans tekin frá hönum og eignir hennar. Fór hann þá að Sjóarborg til hreppstjóra Jóns Rögnvaldssonar og var þar eitt ár, en kona hans fór til Sveins sonar síns; var hann þá orðinn bóndi á Skollatungu í Gönguskörðum, og er hún úr sögunni. En að ári liðnu fór Jón frá Sjóarborg. Bar það til veturinn sem hann var þar að hann gekk eitt sinn ofan í myrkrinu og var lengi í burtu, en er hann kom inn aftur var hann þá ódauður aðeins. Var meining manna að eitthvað illt og ókennilegt hefði orðið á vegi fyrir hönum. Eftir það hafði hann nokkurs konar málhelti og jók það mjög hrumleika hans; engum manni vildi hann segja hvað sér hefði mætt.

Eftir það fór hann að Breiðsstöðum í Gönguskörðum til Jóns Jónssonar bónda þar og hjá hönum var hann eitt ár og nam þar ei yndi. Var þá í Hvammi á Nyrðri-Laxárdal síra Vigfús Reykdal Eiríksson, klerkur góður og mjög andríkur ræðumaður. Er þá mælt að Jón væri mjög svo að þrotum kominn að eignum og mætti að hann fór til Vigfúsa prests og bað hann ásjár og leiðbeiningar á guðs veg; kvaðst hann vilja hjá hönum deyja. Veitti prestur hönum það; féll vel á með þeim.

Fór Jón að Hvammi um vorið með tvö hross og tíu ær, en lítið annað; var flest af hönum gengið. Var hann hjá presti um sumarið mjög svo angurbitinn og hrumur og talaði við hann. Huggaði prestur hann eftir megni og styrkti í trú sinni. Er mælt Jón segði að ekkert af sínum verkum væri nema sér til fordæmingar og ekkert hjálpaði sér nema ef hann hefði gefið svöngum að éta og fátækum af eigum sínum og afla. Enda var það sannmæli því enginn í hans tíð mun hafa meira fátækum gefið en hann; sá hann ekki í það þó hann liði mikinn skort sjálfur með hyski sínu.

Það sama haust andaðist Jón og varð vel við dauða sínum, styrktur í anda með hetjuhreysti og móði, hér um bil 1825; var hann kominn hátt á níræðisaldur.

Jón Einarsson var nokkuð meiri en meðalmaður á hæð, útlimagildur og herðamikill og allur mjög þreklegur, dökkur á hár, breiðleitur og stórleitur, bjúgnefjaður, nokkuð rjóður í andliti, bláeygur og snareygur og að öllu hinn íturmannlegasti, var hann og skáldmæltur. Eru tvær vísur hér eftir hann, svona:

Ráðalaus ég orðinn er
út af Hvítár vöðum;
í himnaríki hugurinn er,
en hjartað á Kaðalsstöðum.

Kom hann að Hvítá eitt vor er hann kom úr veri og var hún að mestu ófær. – Önnur vísa hans er hann kvað við tækifæri á móti annari vísu er um hann hafði verið gjörð og svona var:

Þegjandi, fúll og þurlegur,
þar með amahamur,
óviðfelldinn, önugur,
aldrei gamansamur.

Hét maðurinn Gissur sem flutti vísu þessa til Jóns; svaraði Jón hönum á þessa leið á móti vísunni:

Gissur færir görpum hér
grein af ljóða tagi.
Þessi vísa þóknast mér
þó í betra lagi.

En er Jón var látinn sem fyr segir kostaði presturinn síra Vigfúsi útför hans vel og sæmilega. Liggja bein hans í Hvammskirkjugarði.

Guðrún, dóttir hans og Guðrúnar, giftist Þorsteini Stígssyni sem síðar bjó í Króki utarlega á Skagaströnd og seinast á Harastöðum og dó þar. Sonur þeirra var sagður Sæmundur, varð skammlífur, en komst þó á fullorðinsár og þá í þjófnaðarmál fyrir sunnan og eitt eða tvö fyrir norðan. Hér var þá B[jörn] Blöndal sýslumaður í Húnaþingi.[2] Eftir það er mælt hann lifði og dæi sem ráðvandur maður, en þó ógiftur og barnlaus. – Annar sonur Guðrúnar heitir Eyvindur og lifir enn; var hans faðir gamli Bjarni frá Kálfárdal í Gönguskörðum, ramur að afli og smiður; er Eyvindur álitinn fremur lítilmenni og óreiðumaður.

Þorbergur sonur Jóns og Guðbjargar átti Þuríði systir Jóns prests á Grenjaðarstöðum, dóttir Jóns prests Jónssonar prests á Hafsteinsstöðum. Voru þeir feðgar báðir klausturprestar að Stað á Reyninesi, sá eldri í tíð Halldórs Vídalíns og báðir þeir; var Þorbergur hið mesta mannval. Var Pál Melantrix (svarti) uppfóstraður hjá Jóni presti á Grenjaðarstöðum móðurbróðir sínum. Kenndi hann hönum læknirsfræði undir skóla, því Jón prestur var hinn bezti læknir; var Páll þó að lokum lærðari í þeirri mennt. Er nú Jón prestur gamall mjög og lifir enn, það ég til veit.[3] Dóttir Þorbergs og systir Páls er Guðbjörg kona Þorleifs Bjarnasonar í Vík á Langholti Þorleifssonar frá Hraunum í Fljótum Kárssonar. Önnur dóttir Þorbergs var Sigríður, fór norður til Jóns prests móðurbróðir síns og giftist þaðan, varð skammær. Þuríður eignaðist síðar Jón Oddsson sem lengi var bóndi í Glæsibæ í Víkurtorfu á Langholti. – Og lúkum vér svo þessari sögu.

  1. Einarsson frá Gili í Borgarsveit, Skagafirði.
  2. Sýslumaður þar 1820-46.
  3. Jón Jónsson (1772-1866) var prestur á Grenjaðarstað frá 1827 til æviloka.