Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Jón Snorrason á Gauksstöðum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Jón Snorrason á Gauksstöðum

Jón Snorrason fæddur 1772 bjó fyrst í Vatnagarði, svo Flankastaðakoti og seinast [á] Gauksstöðum. Kona hans var Gróa Narfadóttir frá Melum. Jón var ákaflega mikill vexti, herðaþrekinn og að öllu sterklegur, bjartur á yfirlit. en bragðmikill, en glaður á að sjá, bjartur á brún og brá, með þunnt nef og nokkuð bjúgt, ljósleitur í andliti.

Lítið verður vitað um afrek hans því hann var kyrlátur maður í skapi. Þó var það venja hans þegar svo bar við að taka í laggir á brennivíns- eða sýrutunnum og setja þær upp á herðar sér upp úr skipi og bera þær þannig heim hvort heldur var lengri vegur eða skemmri.

Þá var hann ungur er hann var einu sinni sem oftar í útskipun í Keflavík hjá Jokobæus. Kastaði hann þá bagga á einn skipsmann danskan af óaðgæti svo sá er fyrir var slasaðist mikið. Jakobæus bað hann forða sér svo hann væri ekki framan í Dönum því þeir mundu ekki ætla honum gott kæmu þeir því við. Svo sást slúffa koma í land; en er Jón sá það bað hann kaupmann gefa sér í staupinu, greip upp spíru er þar lá, veður út í þangað til braut á öxlum honum, mætti þar slúffunni, tók um framstafninn og hvolfdi henni; óð svo til lands aftur, en hinir skoluðust upp í slúffuna og héldu aftur til skipsins.

Jón dó hér um 1826. Faðir hans var Snorri Jónsson hreppstjóri á Lónshúsum. Hann átti Guðrúnu Gísladóttur frá Flögu Eiríkssonar lögréttumanns í Skál Gíslasonar á Krossi. Faðir Snorra var Jón á Stóru-Drageyri Snorrason. Hann átti Sesilíu Ásgrímsdóttir á Drageyri í Borgarfirði.