Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Jón Teitsson á Hafgrímsstöðum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Jón Teitsson á Hafgrímsstöðum

Það er upphaf þessarar sögu að Teitur er maður nefndur; hann bjó á Starrastöðum í Skagafirði. Hann var móðurbróðir Teits Þorleifssonar er átti í deilum við Gottskálk biskup á Hólum. Teitur var hið mesta mikilmenni, spakur í lund, dulur og forspár; ekki var hann ríkur maður; þó átti hann jörðina Starrastaði og allgott bú er hann stundaði vel. Hann átti konu þá er Ragnhildur hét og var hún vestfirzk að ætt. Son áttu þau einan barna er Jón hét; var hann snemma mikill og sterkur og dulur í skapi sem faðir hans. Enginn var hann gleðimaður, en brosti aðeins þá aðrir hlógu, og það strax í æsku; kvað hann allómannlegt að skríkja sem óvitar. Hann óx upp hjá föður sínum þar til hann var fjórtán vetra gamall; var hann þá eins sterkur og hraustustu menn í Skagafirði á þeim tíma.

Um haustið þetta sama ár sendi faðir hans hann með nábúum sínum út í Fljót til skreiðarkaupa og skyldu þeir standa fyrir kaupum Teits vegna. Lítt gazt bændum að því að hafa Jón í ferð sinni, þótti þeim hann of ungur og óáreiðanlegur í langferð að haustdegi, en þó fór hann og sagði faðir hans að ef hann yrði eftir af þeim mætti hann sjá sjálfur fyrir ráði sínu. Jón reið bleikum hesti allvænum er faðir hans var vanur að ríða og í reiðtygjum föður síns; voru þau mjög vönduð, einkum beizlið, það var mjög vel búið og hinn bezti gripur; höfðu margir falað það að bónda, en hann ekki af hendi látið.

Nú héldu þeir af stað og gekk þeim ferðin vel út í Fljótin; var þar þá gott til fiskifanga, og keyptu skreið sem þeir máttu með komazt, snéru síðan heimleiðis; gjörði þá veður ill með frosti og fjúki miklu. Jón var jafnan á undan og teymdi Bleik; gjörðist færð mjög slæm og illt yfirferðar. Þeir komu að Kolbeinsdalsá síðla dags; var hún þá ófær og stóð full með krap lítt samanfrosið. Vildu þá förunautar Jóns snúa sér frá og fara að Óslandi og bíða þar til þess betur legði. Jón vildi það ei og kallaði slíkt ragmennsku og kvaðst skyldi bera þeim bleyðiorð á bak ef þeir vildu ekki halda áfram ferðinni og snýr til árinnar. Vildi þá einn taka hesta hans, en Jón stóð á móti og urðu sviptingar nokkrar og rak Jón þann niður fall mikið, og skildu við það. Snéru þeir þá frá og kváðu strákfýlu þeirri maklegt að drepa sig, fyrst hann vildi það. Nú bindur Jón klyfjar við klakka, ríður síðan út í ána og teymir alla hestana. Bleikur vóð mjög sterklega og braut ísinn. En er Jón var kominn upp úr ánni sér hann að snarað er af aftasta hestinum og hann flæktur í gjörðunum. Vóð hann þá út til hestsins og tók honum þá krapið í axlir, en straumlítið var. Loksins gat hann borgið öllu til lands og var það hið mesta þrekvirki. Á meðan hann var að þessu starfi skall á stórhríð með ofsaveðri og hörkufrosti svo allt gaddfraus; samt brauzt Jón af stað og tók sér stefnu eftir veðurstöðu. Var þá einnig orðið dimmt af nótt og hið mesta niðmyrkur af hvorutveggju, hríðinni og næturmyrkrinu, svo eftir öllu varð að þreifa. Þegar hann hafði farið um stund varð fyrir honum kofi nokkur hurðarlaus og hálfur með fönn; réði hann þó af að láta þar fyrir berast, tók ofan klyfjar sínar og bar fyrir dyrnar, batt saman hestana, fór síðan inn og byrgði vandlega; gróf hann sig þar í fönn til að þíða sig, var þá mjög þrekaður og máttfarinn og sofnaði fast og svaf til þess dagur var. En er hann vaknaði sá hann opnar dyrnar; stóð hann þá upp og gekk út. Veður var nokkru bjartara, en frost mikið. Sá Jón að burtu voru klyfjar nokkrar og Bleikur með reiðtygjum og beizli og hestarnir allir sundurlausir. Jón sá bæ allskammt á burtu og var það Brimnes. Þar bjó þá bóndi sá er Tumás hét, ódrengur mesti og illa þokkaður; hafði hann oft rænt og stolið af ferðamönnum. Jón gekk til bæjarins og var hurð aftur; varð honum reikað kringum bæinn og hittir hann á bæjarbaki kofa nokkurn; var þar hurð fyrir og lokuð að innan. Í því heyrir hann að hestur hneggjar þar inni; setti hann þá fótinn á hurðina svo hart að [hún brotnaði]; sá hann þar inni Bleik föður síns með beizli, en hnakkur í stalli. Dyr voru með öðrum stafni í hliðvegg hússins og var dimmt innar í húsinu. En þegar minnst varir sér hann ríða að sér viðarrót mikla innan úr myrkrinu; brá Jón sér undan, en höggið nam staðar í gólfi og laut maður eftir. Jón hljóp á hann sem hvatast, en hinn tók á móti og urðu sviptingar allharðar. En þó Jón væri mjög stirður og freðinn lauk svo þeirra viðskiptum að heimamaður féll; lét þá Jón kné fylgja kviði og lék við hann sem harðlegast. Bað þá heimamaður sér griða – og var það bóndi. En Jón kvað hann skyldi því aðeins grið hafa er hann skilaði aftur skreið sinni ef stolið hefði, og léti sig fá allt sem hann þyrfti fyrir sig og hesta sína. Lofaði bóndi því og lét Jón hann þá upp standa; var hann mjög meiddur og brotinn annar handleggur hans. Þar í húsinu hafði hann fólgið klyfjar Jóns og voru þær byrgðar með viðum. Fóru þeir síðan til bæjarins og leiddi bóndi Jón til baðstofu, en kvaðst mundi senda eftir hestum hans. Ekki sá Jón mana inni utan konu bónda og son þeirra hálfvaxinn. Honum var vísað til sætis. Mjög þótti honum kona bónda illileg. Innan stundar gekk húsfreyja fram og kallar á son sinn. Litlu síðar heyrir Jón hundagey ákaft; hleypur hann þá út og sér hvar bóndason snarast frá húsum með beizli sitt og ætlar að grafa það í fönn, en konan sigar í hesta hans sem ákafast. Jón hljóp eftir stráknum, þreif af honum beizlið og laust hann með því svo hann lá í óviti. Kom þá bóndi að og bað sér og hyski sínu vægðar, lét síðan sækja hesta Jóns og gaf þeim nóg fóður og líka var Jóni veittur góður beini. Dvaldi Jón þar um daginn og nóttina eftir. Skilaði þá konan öllum klæðum hans vel þurrum. – Eftir viðureign þeirra Jóns lagðist bóndi í rekkju og var lengi hrumur, en minna bar á illmennsku hans eftir þetta.

Jón hélt nú af stað og segir ekki af ferðum hans fyrr en hann kom heim til föður síns, og þótti ferð hans hin frægasta. Eftir þetta gjörði ótíð mikla svo þeir förunautar Jóns komu ekki fyrr en að mánuði liðnum og höfðu þeir étið og selt mikið af skreið sinni.

Þegar Jón var sextán vetra fýsti hann mjög að fara suður til sjóróðra eins og þá var títt í Skagafirði, einkum frá Hólum. En mjög voru Hólamenn í þá tíð ódælir og illgjarnir og oflátar miklir. Þenna vetur voru snjóalög mikil og sífelld illviðri og treystust fáir til suðurferða nema Hólamenn. Jón kom að máli við föður sinn og kvaðst vilja suður. Bóndi latti heldur, en þó varð svo að vera sem Jón vildi, og bjóst hann til ferðar; var það um sama tímabil sem Hólamenn fóru af stað. Teitur fylgdi syni sínum að Víðimýri.

Jón var svo búinn að hann var í litklæðum silfurhnepptum, en yzt klæða var hann í hempu sauðsvartri og tók hún á kné. Hann hafði falað beizli föður síns og gaf honum það, en kvað sér ekki óvart koma þó fleiri girntust að eiga. Þegar þeir feðgar komu að Víðimýri voru Hólamenn þar fyrir; voru þeir mjög skrautbúnir og gemsmiklir. Þeir voru átján saman og hét sá Ásgautur sem fyrir þeim var, norskur að kyni. Illur var hann [og] ódæll. Teitur bað þá taka við syni sínum til samfylgdar. En þeir kváðu þann sauðmórauða kotungsson skamma upp flokk sinn, en þó mætti hann dratta með ef hann vildi. Þegar þeir feðgar skildu sagði Teitur Jóni að vera þeim aldrei samnátta á bæjum og jafnan skyldi hann á eftir fara, þá mundi hann fyrstur aftur koma, annars ekki, og lofaði Jón því.

Jón fór nú með Hólamönnum sem leiðir lágu vestur Vatnsskarð og svo yfir Húnavatnsþing; fóru Hólamenn mjög illa með ráði sínu, tóku hey af bændum og hvað þeir þóttust með þurfa, en létu á móti koma svívirðu og ódrengskap. Aldrei var Jón þeim samnátta, en um daga var hann í flokki þeirra og þó ætíð á eftir. Alstaðar borgaði hann vel næturgreiðann.

Þegar þeir fóru yfir Miðfjarðarháls var á stórkafald og dimma; hittu þeir þar smalamann frá Auðunarstöðum í Víðidal og stóð hann yfir fé. Þeir heimtuðu af honum fylgd yfir hálsinn, en hann neitti og kvaðst ekki yfirgefa fé sitt. Þreif þá Ásgautur til hans og laust honum niður við svell svo heilinn lá úti. Eftir það komu þeir í Miðfjörð. Þar tóku þeir hús og hey, en ráku út hesta er inni voru. Jón gisti í koti þar skammt frá. Um morguninn hitti hann að vanda félaga sína og voru þeir þá ferðbúnir. Varð þá Ásgauti litið á beizli Jóns og kvað hann skyldi strax selja sér því ekki hæfði honum svo rögum og ámátlegum að eiga slíkan grip. Jón fór undan með hægð og spurði hverju hann vildi borga. Þreif þá Ásgautur í rófu á hundi einum er þar var og kastaði á nasir Jóni, og var það mikið högg og féll blóð um hann allan. Hljóp þá Jón undir hann og áttust þeir við skamma stund áður Ásgautur féll og kom hryggurinn á stein og annar lærleggur hans gekk úr mjöðm. Vildu þá félagar Ásgauts hefna, en Jón var þá svo reiður og ógurlegur að þeim stóð ótti af og þorði enginn að honum. Ásgautur var fluttur til bæjar, lagðist hann og dó litlu síðar.

Síðan héldu þeir af stað og komu um kveldið að Stað við Hrútafjörð. Þar var þeim fengin kirkjan að sofa í og létu þeir nú sem verst og frömdu ýmsar svívirður og árnuðu allir þeim ills. Morguninn eftir var dimmt og drífa mikil, og líka var þeim sagt að Holtavörðuheiði væri ófær og höfðu nokkrir vermenn þar úr fjörðunum áður farið vestur Haukadalsskarð og Bröttubrekku til Borgarfjarðar, en þó bjuggust þeir á stað. Jón hafði þessa nótt verið á bæ þar skammt frá og kynnt sig vel sem fyrr. Vildi bóndi ekki hann færi um morguninn, en Jón lét ekki letjast og bað bóndi vel fyrir honum. Hitti Jón Hólamenn og fór með þeim. Höfðu þeir illt auga á honum, en þó þorðu þeir ekki að ráða til hans. Þegar þeir komu upp á skarðið skall á blindhríð með stórviðri og fannkomu. Þeir tóku nú stefnu eftir veðurstöðu og voru hinir áköfustu. Jón var á eftir sem vant var og teymdi báða hesta sína; gekk nú þannig um stund þar til allt í einu að Jón sá þá hverfa, og var hann þá kominn á fjallsbrún eina og höfðu þeir farið þar fram á snjóhengju og hún svo hlaupið niður undan þunganum af mönnunum og hestunum öllum, og fórust þeir þar allir því þar voru þverhníptir klettar og hengiflug ofan; er þar síðan kallaður Bani og er hann í fjallinu fyrir norðan Haukadalsskarð; þar neðan undir er urð stór og hafa nú fyrir skömmu sézt þar hestabein allmikil. – Jón snýr nú til baka og komst suður af fjallinu og ofan á skarðið; var þá veður nokkru bjartara, en mjög hvasst; komst hann að einhverjum bæ í Haukadal um kvöldið. – Þar eftir gjörði veður svo ill og fannkomur að ekkert varð komizt og gekk það í mánuð eða lengur. Var Jón allan þann tíma kyrr í Haukadal. Eftir það hjarnaði og batnaði veðrátta; var þá um seinan að fara suður, en þó vildi Jón ekki heim snúa; réðu Haukdælir honum þá að fara vestur og það gjörði hann; segir ekki af ferðum hans fyrr en hann kom vestur undir Jökul.

Þorsteinn er maður nefndur; hann bjó í Skjaldartröð við Hellna. Hann var hinn mesti sjógarpur og hafði aldrei fleiri en þrjá eða fjóra menn á, en réri þó jafnan áttæringi. Hann var happamaður hinn mesti og réri ætíð fyrstur úr þeirri veiðistöðu og sat löngum að fiski þó öðrum þætti ófært; talinn var hann manna ríkastur í því byggðarlagi. Konu átti hann og var hún svo hraust að hún tók af hlóð vættarketil fullan með sjófang og varð lítið fyrir, en stillt var hún og hið mesta vegskvendi í þeirri sveit. Ekki getur um nafn hennar. Þau áttu dóttur er Guðrún hét; var hún fríð sýnum, vitur og kurteis og hinn bezti kvenkostur. Það bar oft við að Þorstein vantaði háseta því fáir treystust til að þola sjósókn hans og var svo í þetta skipti. Fór því Jón þangað og réðist hjá bónda og líkaði bónda vel við hann þótt óvanur væri.

Það var þá siður vestur þar að halda bændaglímur á sumardag fyrsta; kom þá saman fjölmenni mikið og margt hraustra drengja. Þeir báðu Jón að glíma; var hann tregur til, en lét þó til leiðast. Eigi var Jón glímumaður, en fáir stóðust afl hans og fóru svo leikar að hann felldi flesta er hann reyndi við. – Vel var húsfreyja til Jóns og leizt henni hann mannvænlegur. Það var eitthvert sinn að hún bauð honum til glímu í gamni og lauk svo að hún kom honum á annað knéð og [kvað] hún hann varla kvensterkan heita mega. – Vel aflaði Jón um veturinn. Um vorið bjóst hann norður og báðu þau hjón hann aftur koma og eins dóttir þeirra. Þau voru mjög svo jafnaldra og höfðu oft setið tvö ein á tali. Hélt Jón nú heimleiðis.

Nú er frá því að segja að Gottskálk biskup fréttir ófarir manna sinna og viðureign þeirra Jóns og Ásgauts. Þykir honum Jón hafa valdið dauða hans og vill hafa bætur fyrir; sendi því tvo klerka og fleiri menn til Teits bónda á Starrastöðum og bauð honum að láta lausafé sitt í manngjöld, en jörðina Starrastaði undir Mælifellskirkju til lausnar Jóni syni sínum. Ekki tjáði Teitur kostum þessum og var honum þá stefnt á biskupsfund og skyldi hann koma að Geldingaholti að ákveðnum degi. Síðan fóru biskupsmenn heim. Nú kom Jón að vestan og varð faðir hans honum feginn og sagði honum frá tiltektum biskups. Jóni líkaði stórilla, en það þóttust þeir feðgar sjá að ekki mundi duga aðgjörðalaust. Á Starrastöðum var útiskemma rammgjör með öflugri skrá. Var það nú ráð þeirra feðga að Teitur skyldi leggjast í rekkju þar inni. En Jón tókst á hendur búsforráð. Hann fékk til vistar með sér tvo menn, þá hraustustu úr Tungusveit. Líður nú að stefnudegi. Ekki kom Teitur á fundinn og frétti biskup þar sjúkdóm hans; bjóst hann þá fram að Starrastöðum til að semja gjörðina og þeir átta saman. Þegar þeir voru skammt frá garði sá Jón til ferða þeirra; lét hann þá tjalda skemmuna, en fylgdarmenn Jóns og faðir hans fóru á bak við tjöldin. En í rekkju bónda létu þeir fork einn mikinn og huldu hann klæðum. Biskup ríður á bæinn og er Jón úti staddur og er dapur í bragði. Biskup spyr að bónda, en Jón segir hann í skemmunni. Fara þeir nú þangað og gengur biskup inn og einn eða tveir með honum. Þá gengur Jón inn og rekur aftur hurðina og læsir rammlega. Hlupu þá hinir undan tjöldunum og tóku biskup. Ekki er sagt frá viðureign þeirra og ekki vita menn um samninga þá er þar urðu, en það ætla menn að fyrir þessar sakir hafi Starrastaðir síðar lagzt til Mælifellskirkju. En biskup reið heim til Hóla og áreitti þá feðga aldrei síðan, og var meint að hann hefði orðið að vinna þeim trúnaðareið áður þeir sleppti honum.

Næsta vetur eftir þetta fór Jón vestur og réri hjá Þorsteini í Skjaldartröð. Bar nú ekki til tíðinda þar til Jón var átján eða nítján vetra. Fór hann þá enn vestur og tveir aðrir sveitungar hans með honum. Segir ekki af ferðum þeirra fyrr en þeir komu vestur í Haukadal; voru þar miklar umræður um rán og gripdeildir svonefndra Gunnarsstaðabræðra. Þeir voru þar þrír og bjuggu allir á Gunnarsstöðum; rændu þeir oft ferðamenn og sýndu hvívetna hinn mesta ójafnað og illmennsku og fóru mjög versnandi. Þeir Jón héldu nú áfram ferð sinni, en þegar þeir komu vestur yfir Saurstaðaháls bað Jón förunauta sína geyma hrossa sinna og áhalda og finna sig næsta dag á Hólmlátri. Síðan yfirgaf hann þá og stefndi til Gunnarsstaða. Hann bar langsekk mikinn um öxl og í skjóður tómar. Þegar Jón nálgaðist bæinn fyllti hann skjóður sínar með steina, lét í langsekk sinn og bjó vel um. Þetta var síðla dags. Gengur nú Jón til bæjarins og drap á dyr. Kom þar út maður mjög illmannlegur. Jón bað hann að gefa sér að drekka. Fór hinn þá inn og kom aftur með freðinn drykk og drakk Jón lítið. Í því bili kom út annar og var sá hinum illmannlegri. Þeir spurðu Jón að ferðum. En hann kvaðst sendur af biskupi á Hólum; litu þá heimamenn hver til annars og var auðséð að þeir glöddust við, en mannvonzkan stóð sem afmáluð í andliti þeirra. Þreif þá annar til sekksins á baki Jóns og kvað hann bera mikið. Jón sagði það vera. Ekki var honum gisting boðin. Jón spyr að heiðinni (því bær þessi stendur undir Rauðamelsheiði) og lézt ókunnugur. Þeir kváðu heiðina góða yfirferðar og örstutta ef rétt væri farið. Buðu þeir að fylgja honum upp á heiðina og þáði Jón það.

Héldu þeir nú af stað þrír saman og var Jón á eftir með byrði sína. Þegar komið var undir heiðina nema þeir staðar hjá vatni nokkru; var það illa lagt og vakir á. Tók þá annar þeirra upp flösku og bauð Jóni að súpa á. Jón kvað það sið á Hólum að sá sem öðrum byði drykki fyrst. Saup þá heimamaður á flöskunni. En á meðan sér Jón að hinn tekur hníf stóran úr ermi sinni. Jón hafði staf mjög sterkan; var hann ærið þungur og klökugur; laust hann honum með afli á höfuð þess er hnífnum náði, og féll hann við og lá í óviti, en með hinni hendinni sló hann á flöskubotninn við munn hins svo flaskan brotnaði og stóðu brotin í andliti hans; lék hann þá nú allilla og skildi svo við þá að annar var nær bana og gat hinn naumlegast fært hann heim um nóttina; lá hann lengi eftir og dó síðan. Bar lítt á illmennsku hinna þar eftir. – Jón snéri nú að Hólmlátri og var þar um nóttina. Daginn eftir komu förunautar hans og héldu þeir nú áfram ferð sinni vestur sem ætlað var. Jón var í Skjaldartröð sem vant var; var hann nú orðinn svo sterkur að enginn þurfti við hann að reyna vestur þar, en mjög var hann spakur og fór vel með ráði sínu; var þó mikið mannval undir Jökli í þá daga.

Eitthvert sinn um veturinn lá Þorsteinn á miðum, en allir aðrir voru í land komnir; hafði Þorsteinn nú hlaðið mjög skip sitt af fiski. Gjörði þá ofsaveður af landi. Lét nú Þorsteinn taka til ára; voru þeir fjórir saman og sóttu knálega róðurinn. En að stundu liðinni fóru hásetar mjög að þreytast og gátu naumlega haldið við. Fór þá Jón einn á annað borðið og gekk síðan vel; náðu þeir landi með heilu og höldnu og báru föng sín af skipi. En svo hafði gengið nærri hinum tveimur hásetum Þorsteins að þeir lágu eftir; varð Jón mjög frægur af þessu og þótti afbragðsmaður.

Jón fékk þennan vetur lestar hlut eða meira og fór norður um vorið sem vant var. Snemma um sumarið fór hann vestur og hinir tveir félagar hans að sækja skreið sína og höfðu marga hesta. Í þeirri ferð bað Jón Guðrúnar Þorsteinsdóttur og var það mál auðsótt. Giftust þau strax og var brúðkaup þeirra haldið í Skjaldartröð. Eftir brúðkaupið fór Jón norður með konu sína og greiddi Þorsteinn ríkmannlega af hendi heimanmund dóttur sinnar í gripum og peningum. Vorið eftir reisti hann bú á Hafgrímsstöðum í Tungusveit og er sagt að hann keypti jörðina. Græddist honum skjótt fé mikið og varð hann hinn bezti bóndi. Jafnan fór hann vestur á sumrum til fiskikaupa.

Það var eitthvert sinn löngu síðar að Jóni bárust þær fregnir að móðurfrændi hans á Vestfjörðum væri dáinn og átti hann að taka allan arf eftir hann. Bjóst hann þá til ferðar og var það síðla vetrar. Gekk honum vel vestur og seldi hann þar mikið lausafé, dautt og lifandi, því hann vildi það eitt með sér hafa er hann gæti borið. Tók hann þar gripi marga og mikið af peningum. Síðan bjóst Jón heimleiðis; var þá slæm veðrátta, en hann ókunnur leiðum öllum og víða mjög strjálbyggt; þó vildi hann alls ekki fylgdar beiðast. Fer hann nú af stað og er hann hafði gengið eina dagleið kom hann að koti einu við sjó; það var öðrumegin fjarðar nokkurs sem var lítt byggður eða mjög strjálbyggður. Þetta var síðla dags og var á drífa mikil.

Jón bar byrði mikla af gripum og peningum og var þreyttur orðinn, réði því af að beiðast gistingar. Barði hann þar að dyrum, kom þar út karl nokkur; var hann ærið stór og mikilfengligur svo Jón þóttist ekki annan slíkan séð hafa. Jón spur til vegar, en karl kvaðst mundi vísa honum leið að morgni því nú væri ófært veður og dagur að þrotum kominn og bauð honum næturgistingu. Jón þekktist það og leiðir bóndi hann til baðstofu og bauð að geyma tösku hans. Ekki vildi Jón það og kvað þar í skó sína sem hann þyrfti að brúka. Ekki sá Jón þar manna utan húsfreyju; sat hún og spann toga. Jón heilsaði henni og tók hún því stutt. Illa leizt Jóni á þau bæði og þótti uggleg gistingin. Jóni var vísað til sætis í öðrum baðstofuenda. Ekki var honum veittur beini, en bóndi var ræðinn mjög og var hinn kátasti við komumann; spurði hann margs um ferðir hans, en Jón sagði honum sem var og kvaðst hafa verið að sækja arf eftir frænda sinn. Bóndi þreif upp tösku Jóns og kvað það ærna byrði. Þar eftir settist bóndi á tal við húsfreyju, en ekki heyrði Jón hvað þau skröfuðu nema eitt sinn sagði hún; „Grafa hann.“ Eftir það hættu þau talinu.

Síðan biður húsfreyja Jón koma með sér og vísar hún honum til rekkju í framhýsi nokkru; var þar flet með stokki og töturlega um búið. Húsfreyja bauð að taka við skóm hans og klæðum, en hann kvaðst sofa mundi þó ekki færi hann af klæðum því hann hefði ekki sofið hin næstu dægur sakir umsvifa. Varpar hann sér nú í fletið og lætur sekk sinn þar hjá sér; læzt hann strax sofna og hraut mikið. Gengur þá húsfreyja burt. Nokkru síðar heyrir hann gengið um bæinn; snýr hann sér þá til veggjar og hraut sem fastast. Heyrir hann þá að lokið er upp dyrunum og farið hljóðlega og í því er lagt til hans með skálm mikilli. Kom lagið í herðarblaðið og varð svöðusár. Snarast Jón þá úr rúminu og sér þar til bónda, og vildi leggja til Jóns í annað sinn. Jón hljóp þá undir hann, en bóndi kastar skálminni og tekur á móti og verður þar harður aðgangur og finnst Jóni sig skorta afl við bónda, og ekki þykist hann í slíka raun komið hafa; gekk nú allt upp er fyrir var og sótti bóndi í ákafa, en Jón varðist föllum af megni. Og er Jón sá sér bezt færi hljóp hann í fang bónda svo sterklega að hann féll á bak aftur og varð þrepskjöldur hússins undir hrygg hans. Neytti nú Jón fallsins hvað hann kunni og lét kné fylgja kviði; gekk þá sundur hryggur bónda á þrepskildinum. Var þá húsfreyja komin og lagði til Jóns með knífi. Jón bar af sér lagið með hendinni og skeindist hann lítið; tók hann þá til hennar og dró til baðstofu og batt rammlega. Þar brann ljós inni. Jón fór nú fram aftur og dró karl úr dyrum hússins; æpti hann þá ógnarlega. Sótti Jón nú sekk sinn og fór aftur til baðstofu og snæddi nesti sitt. Þar var Jón um nóttina og svaf í rekkju hjóna.

Morguninn eftir var veður bjart. Býst Jón þá til ferðar og byrgir áður bæinn vandlega; snýr hann þá leið sinni þangað sem sýslumaður bjó og var það hálf dagleið frá koti þessu. Sagði Jón honum frá ferðum sínum og sýndi áverka. Daginn eftir bjóst sýslumaður þangað með nokkra menn; komu þeir að kotinu; var þá bóndi dauður í dyrum en húsfreyja lá í böndum. Könnuðu þeir þar hús öll og fundu mikið af peningum og mörgu fémætu. Þar sá sýslumaður skálmina og hnífinn, hvorutveggja blóðugt. Þar fundu þeir klæði nokkur af útlendum skipbrotsmönnum og fleira þess háttar. Hafði þar fyrir löngu síðan strandað skip og ætluðu menn að bóndi mundi hafa myrt eitthvað af skipsmönnum þeim og stolið svo gózi þeirra. Tvo ferðamenn hafði hann líka drepið og stolið af þeim peningum. Tók sýslumaður allt góz er þar var og flutti heim til sín ásamt húsfreyju. En að skilnaði gaf hann Jóni peninga mikla og skildu þeir með vináttu. Hélt nú Jón heim aftur og segir ekki af ferðum hans fyrri en hann kom heim að Hafgrímsstöðum.

Settist hann nú um kyrrt í búi sínu og varð mesti ríkismaður og sveitarhöfðingi og bjó þar til dauðadags. Þau Guðrún unntust vel og áttu margt barna. Einn sonur hans hét Jón, annar Teitur og hinn þriðji Þorsteinn. Allir voru þeir mikilmenni sem þeir áttu kyn til og eru margir merkir menn frá Jóni komnir um Skagafjörð og víðar. Vitum vér nú ekki meira af Jóni að segja, enda eru flestar sagnir óljósar frá þeim tímum og fátt ritað nema það litla ágrip af hinum merkustu viðburðum sögu vorrar sem finnst í annálum.