Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Jórunn Steinsdóttir biskups

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Jórunn Steinsdóttir biskups

Steinn biskup Jónsson átti þrettán alsystkin, en alls þrjátíu og fjögur. Hann er fæddur 1660, vígðist biskup að Hólum í Hjaltadal 1711, en deyði 1739. Hans kona var frú Valgerður Jónsdóttir prests á Staðarhrauni Guðmundssonar á Þæfusteini. Þau herra Steinn og frú Valgerður áttu fjögur börn: Jón læknir Bergmann (deyði 1719) sem hvert mannsbarn þekkir vegna íþróttar hans og afdrifa. Um hann kvað Sigurður sýslumaður Pétursson vísu þessa eftir sögu þeirri sem almenn er um hann:

Steins var kundar konst ótrauð
og kraftaverk við ýta.
Bóginn hann af svörtum sauð
setti á þann hvíta.

Guðmundur Bergmann [var] fæddur 1698, deyði 1723. Báðir eru þeir bræður kallaðir forspáir. Sigfús var enn bróðir þeirra og drukknaði hann með Guðmundi rektori bróður sínum.

Helga († 1750) og Jórunn voru dætur Steins biskups. Líktist Helga föður sínum að hæglæti öllu og spekt, en Jórunn var ákafamaður sem móðir hennar, örorð og óstillt í framgöngu. Vandaði biskup um þetta við hana, en hún fór sínu fram um það. Hræddur var hann um eftir öðru fljótræði hennar hún mundi ekki föst fyrir drengjum, því hún sló sér oft í tusk með skóladrengjum, en hin var frásneidd öllu fargani og solli.

Eitt sinn tekur biskupinn sér stakkaskipti og kemur í afviknum stað til þeirra mála við Helgu dóttur sína, en hún færðist undan. Að lokunum spyr hún: „Hvar eigum við þá að vera?“ Biskup hafði þá lokið sínu erindi með það. Finnur hann nú Jórunni dóttur sína og hefir hin sömu tilmæli við hana. Hún rekur honum snoppung með sama og segir: „Þú finnur mig áður en þú ferð á mig í göngunum!“ Litlu síðar sendir hann boð eftir Jórunni og kallar hana í svefnhús sitt. Stendur hann þar þá allur blóðugur í framan. Segir hann henni þá upp alla söguna. Varð henni þá illt við og bað föður sinn auðmjúklega fyrirgefningar. Hann hélt það væri nú hægt að gjöra. En ekki vandaði hann um það þó hún léki sér við drengina eftir það. – Báðar giftust þær og eru margir menn frá þeim komnir og sumir merkilegir svo sem herra Geir biskup Vídalín.