Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kaldá

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Það er í almæli að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni er Kaldá er nefnd, eitthvurt hið mesta vatnsfall á Íslandi. Hún skal hafa runnið fyrir norðan og vestan Hengil og ofan þar sem nú eru Fóelluvötn og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. Er sagt að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá sem kemur upp í hrauninu fyrir neðan Helgafell og hverfur í það aftur sé úr henni. Þessu er fært til sönnunar að hinir svo nefndu Vesturvellir, ofan frá Hengli til Lyklafells, Fóelluvötn og þaðan niður undir Hólm, líkist gömlum árfarveg, en hvort sem hann er sannur eða ímyndaður, er ekki hægt að leiða getur að hvurnig hann gat komizt hjá að eiga útfall í Elliðavatn, því það hefir þó alltaf verið til síðan landið byggðist. Það sýnir nafn ánna sem úr því renna, því víst mun réttara nafn Elliðaár en Hellirár og orsökin til þess í Landnámu, nl. að Ketilbjörn hafi siglt upp í þær skipinu Elliða og hefir vatnið þá fengið nafn um leið.

Um hvarf Kaldár eru þessar sagnir: Hin fyrsta að karl nokkur sem var kraftaskáld missti í hana tvo sonu sína og kvað hana því niður. – Önnur að hún hafi horfið af eldgangi þegar suðurfjöll brunnu, svo einn eldur var ofan úr Hengli út í sjó á Reykjanesi, og hafi þá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn. Það ætla menn verið hafi 1000, því Svínahraun, Þurárhraun, eystra og ytra Herdísarvíkurhraun, gráhraunin sunnanfjalls í Krýsuvíkurhálsum og á Reykjanesi eru líkleg til að vera jafngömul gráhrauninu fyrir utan Hjalla sem menn héldu mundi hlaupa á bæ Þórodds goða. – Þriðja að Ingólfur hafi grafið Soginu farveg gegnum Grafningsháls eða rana úr honum og hafi þá Þingvallavatn fengið þar útfall, en Kaldá þverrað. Skal eftir því skurður þessi eða gljúfur (skarð) sem Ingólfur gróf heita Grafningur og sveitin þar af Grafningssveit.