Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kapelluhraun

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kapelluhraun

Í Gullbringusýslu er hraun eitt mikið milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar og heitir nokkur hluti þess Kapelluhraun og dregur nafn af kapellu sem í því stendur. Hún er að norðanverðu við veginn, hlaðin upp af hellugrjóti í lögun eins og borg. Dyrnar hafa snúið móti suðri, en nú eru þær fullar af mold og mosa. Kapellan er og hærri að norðan en sunnan. Sagt er að í kapellunni sé grafinn einn af umboðsmönnum þeim sem áður voru á Bessastöðum. Var honum gert umsátur þarna í hrauninu, drepinn þar og grafinn.