Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kaprasíus Jónsson og unglingurinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Kaprasíus Jónsson og unglingurinn

[Maður hét Kaprasíus Jónsson, eyfirzkur að ætt]; var hann lengi víðs vegar um Skagafjörð og kallaður kvensamur mjög og illmenni. Grunaður var hann um að hafa orðið unglingsmanni að bana í Sléttuhlíð norður, og er svoleiðis sagt frá því að litlu áður hafi þeir báðir á sjó verið og bar þá á milli; þar eftir voru þeir eina nótt við slátt tveir einir sinn á hvorum bæ, en skammt í milli. Morguninn eftir fannst maðurinn hengdur í útihúsi nokkru, en hattur hans stóð á hlandkollu á felhellunni. Nokkru eftir þetta var Kaprasjus á verferð suður með fleirum mönnum og svaf einn þeirra hjá honum á bæ nokkrum; sá hafði á sér peninga nokkra. Um nóttina dreymdi manninn að unglingsmaður kom til hans og mælti: „Í guðs nafni varaðu þig við honum Kaprasjusi; líttu á hvernig hann fór með mig,“ og í því flettir hann frá sér fötunum og sýnir honum undir annari hendi sinni sting mikinn og stóð þar úr blóðbogi. Maðurinn vaknaði við og sofnaði ekki aftur um nóttina sökum hræðslu.

Ekki veit ég fulla sönnun sögu þessarar, en hitt er víst að maðurinn var hvívetna illa liðinn.