Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kirkja í Eyrarodda

Úr Wikiheimild

Ofarlega í Eyrarodda austanverðum (í Eyrarsveit) hefir einhvern tíma bær staðið; hið upphaflega nafn hans vita menn ógjörla, en nú og í jarðabókum nefnist hann Tóftir, því tóftirnar einar eru þar eftir, löngu fyrir manna minni. Á þeim og túninu og girðingum þess sést að þetta hefir að öllum líkindum fyrrum verið meira en kotbær eða hjáleiga, enda virðist ferhyrnd girðing með húsrúst í austurenda hennar gera það allsennilegt að bær þessi hafi einhvern tíma verið kirkjustaður líkt og sagan segir. En hún segir að þar myni hafa verið í fyrstu bærinn Eyri og að Vestar landnámsmaður sem Landnáma greinir frá hafi þar sett bæ sinn, og löngu seinna, eftir að kristni komst á hér í landi, hafi þar verið byggð kirkja og prestar verið fengnir hver eftir annan til að þjóna henni. Segir þá sagan að hinn seinasti af prestum þessum hafi drukknað í Kolgrafafirði (heldur en Hvalafirði) sem er að austanverðu við þennan gamla kirkjustað er sagan svo nefnir. En strax þar á eftir sást presturinn (eftir því sem sagan segir) ganga þar um öll hús sjóvotur og lengst af hélt hann sig í kirkjunni og oft heyrðist til hans þar. Þorði þá enginn um þvert hús né í kirkjuna. Við það lögðust messur niður, einkum sökum þess að enginn prestur fekkst til að þjóna kirkjunni. Þessir atburðir urðu til þess að bærinn og kirkjan var færð upp undir Eyrarfjall þar sem Eyrarbærinn nú stendur og kirkjan lengi stóð (allt til 1565) unz hún var lögð niður og sameinuð Setbergskirkju eins og kunnugt er. Ekki er þess getið að gamli presturinn hafi fylgt kirkju sinni þá er hún var flutt, en lengi þar á eftir sáu þeir sem skyggnir voru, einkum smali nokkur frá Eyri, prestinn vera á reiki í gamla kirkjugarðinum og kirkjurústunum, og stundum, einkum á jólanóttum, sást þar líka margt fólk í kringum hann.