Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kjartan í Gerðakoti og Jón sterki

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Kjartan í Gerðakoti og Jón sterki

Þegar Kjartan í Gerðakoti var um tvítugsaldur þá réri hann út suður í Leiru. Einn vetur fór hann suður með öðrum sjómönnum; voru þeir fjórir saman og fóru þeir á ís yfir Ölfusá á Hamarendum og ötluðu að halda so beina leið út í Selvog. En þegar þeir komu út á Skeiðið fyrir ofan Þorlákshöfn þá datt á bylur. Treystust þeir þá ekki að halda áfram og snéru af leiðinni til að reyna að ná upp á Hlíðarbæi og komust loksins að Breiðabólstað í Ölfusi. Þegar þeir komu þar voru allar hurðir lokaðar. Börðu þeir lengi að dyrum og kölluðu á glugga, en enginn gegndi og ekki var dyrum upp lokið. Voru þeir búnir að taka ofan af hestum sínum, því svo var bylurinn myrkur að ekki treystust þeir burtferðar. Knúðu þeir nú hurðina fast og fá þá grun á því að maður muni standa við hurðina að innan. Þegar Kjartan verður þess var þá teymir hann hest sinn að hurðinni og snýr hönum so við að rassinn snéri að hurðinni. Síðan hleypur hann sjálfur undir brjóst hestinum og hrindir hönum með afli á hurðina so hún hrökk í mola og hesturinn rakst aftur á bak inn í dyrnar. Fer so Kjartan innar hjá hestinum. Veit hann þá ekki fyr til en maður hleypur á hann og ætlar að keyra hann undir sig, en Kjartan tók þegar á móti og bregður hönum á loft og rekur niður fall mikið og hleypur á hann ofan óþyrmilega. Rekur hann þá upp hljóð mikið og biður um hjálp. Kom þá húsfreyja fram með ljós og biður hún þá Kjartan að lofa manni sínum að standa upp og lofar að veita hönum góðan beina og lætur Kjartan hann þá upp standa. Fór bóndi þá inn, en húsfreyja er hin blíðasta við þá og ljær þeim rúm og er hestum þeirra gefið hey, en bóndi gekk þegar til rekkju og þóktist þjakaður af viðskiptum [við] Kjartan. So sofna þeir, en Kjartan sefur lítið því hann uggir bónda og líka það að húsfreyja fór ekki til rekkju, en var fram í bæ. Þegar nokkuð er liðið á nótt þá heyrir Kjartan að komið er að rúmi sínu og sprettur hann þá upp, en húsfreyja gerir vart við sig og er hún þar komin með grautartrog handa Kjartani og þeim félögum hans, og borða þeir eftir þörfum og sofa so af um nóttina. Um morguninn er veður fært og fara þeir Kjartan þaðan og segir ekki af ferðum þeirra fyr en þeir koma suður í Leiru.

Kjartan var ráðinn hjá ríkum bónda í Hrúðurnesi er Þórður hét, og átti hann að róa hjá hönum sjálfum. Til Þórðar var þá kominn maður einn að norðan er Jón hét og kallaður sterki og var sagt um hann að hann hefði tveggja manna megn eða meira og hefði aldrei fundið jafningja sinn á Norðurlandi. Voru þeir Kjartan og Jón miðskipsmenn hjá Þórði; heldur var Jón fálátur við Kjartan, en lagði þó ekkert illt til hans. Nú leið svo fram á veturinn að ekkert bar til tíðinda.

Seint á vertíð var það einn dag að Þórður fór í langleiði. Þá bar so við að lúða kom á öngul Jóns sterka og fór hann að draga og í sama bili fer Kjartan að draga líka og draga nú báðir hið rösklegasta. En þegar næstum er komið upp undir borð þá kallar Kjartan og segir: „Dragðu ekki af mér, maður,“ og staldrar þá Jón við að draga og lítur við, en í sama vetfangi kemur Kjartan með lúðuna inn í skipið með báðum önglum í, sínum og Jóns. Jón sezt þá niður á þóftuna þegjandi og sáu menn að hönum brá mjög að yfirliti og mælti hann ekki orð það er eftir var dagsins og fóru þeir svo til lands um kvöldið. En þegar skipið er landfast þá gekk Jón frá skipi þegjandi og heim til bæjar. Þá segir Þórður: „Varaðu þig nú, Kjartan, á hönum Jóni því þungt mun í hönum vera til þín.“ Seta þeir so upp skipið og skipta afla sínum og fara so heim til bæjar. Sezt Kjartan inn á rúm sitt og fer að éta og hefir smérdall sinn á hnjám sér. Þá veit hann ekki fyrr til en Jón kemur að hönum og rekur hnefahögg á nasir hönum so Kjartan svimar mjög og liggur við hann falli í óvit, en blóðið fossar niðrum hann úr nefinu. Kjartan hendir samt dallinum þegar á Jón og hleypur jafnsnart af rúminu og undir hann. Verða þar sviptingar miklar og berast þeir svo fram úr skálanum með því móti að þeir seta allan dyraumbúninginn undan hönum. Gangast þeir so fast á í bæjardyrum þar til um síðir að Kjartan rekur Jón niður fall mikið. Er Kjartan þá svo reiður að hann grípur barsmíðarsleggju er þar lá nærri hönum og ætlar að færa þegar í höfuð Jóni. Kom þá Þórður bóndi að og tók um hönd hans og biður hann vægja, og fyrir bænarstað Þórðar lét Kjartan hann upp standa og var Jón þá þrekaður mjög. Það er eftir var vertíðar bar ekkert til tíðinda og fór Jón þá að reyna til að ná vináttu við Kjartan því hann sá að hann þurfti ekki að reyna sig við hann, og skildust þeir vinir í lokin og réðust báðir hjá Þórði næstu vertíð. Réru þeir báðir síðan nokkrar vertíðir hjá Þórði og urðu þeir Jón og Kjartan þá mestu vinir, og eftir að þeir hættu að róa suður skrifuðust þeir jafnan á sín á milli og voru mestu vinir til dauðadags.

Synir Kjartans hétu Jón og Þórður og bar annar nafn Jóns sterka, en hinn Þórðar bónda í Hrúðurnesi sem var líka mikill vinur Kjartans. Þegar Þórður Kjartansson var lítið á legg kominn fór hann suður til Þórðar í Hrúðurnesi og ólst upp með hönum og ílentist þar síðan, en Jón var faðir Steinunnar (þó sumir eignuðu hana Kjartani sjálfum), móðir Jóns Björnssonar ríka í Drangshlíð, föður séra Kjartans í Skógum og hans systkina. – Endar so þessi saga.