Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kolbeinshellir

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

So er varið með hellir þennan að hann er ekki sem margir mundu halda í fastabergi eða hamri, heldur virðist mér sem í forntíð (máske fyrir landnámstíð) hafi urð sú sem Kolbeinsurð heitir hrapað úr fjallskarði því sem þar er upp yfir. Hún er ákaflega hol og samanstendur af feikna miklu stórgrýti so jafnvel heilir hestar eða þvíumlíkt gætu hvorfið þar niður í svarta myrkur. Neðst í nefndri urð standa þrjú björg lítið fyrir ofan jafnsléttu; stærsta bjargið stendur fyrir ofan hin tvö og sem hlífir þeim fyrir steinkasti úr fjallinu. Það stóra bjarg aðskilst frá hinum með örmjóu sundi sem maður getur aðeins gengið í gegnum, en víst er það sumstaðar þriggja faðma hátt á brúnir; vestra bjargið neðra er jafnvel í tvennu lagi og myndast þar niður af brestinum skútakorn sem tekur 20 kindur, en er hálfopið bæði upp úr og aftur úr. Eystra bjargið er bæði stærra og heilara, hér um bil ferkantað, og undir því er aðalhellirinn. Bjarg þetta stendur á urðargrjóti sem sokkið er í jörð undan þunganum og víða holt út undan því. Vindar standa víða inn í hellirinn. Dyr voru áður beint fram undan hellirnum heldur lágar þar brestur var í bjarginu og lafði sem hellubrún lengra niður yfir dyrunum, en undir bjargið var hærra inni. Þessi hella klofnaði frá bjarginu hér um bil fyrir þrjátíu árum og rann ofan fyrir dyrnar, en glenntist dálítið frá að vestanverðu so sandur getur aðeins smogið í hellirinn gegnum brestinn og maður á snöggum klæðum smeygt sér á rönd, en hellan er víst fjórir faðmar eða meir bæði á hæð og breidd.

Hellirinn meðan hann hélt sér mun hafa verið tíu til tólf álnir á lengd og lítið mjórri, en ég get ekki skilið hann hafi nokkurn tíma verið hærri en þrjár álnir þar smágjört urðargrjót er alstaðar í botninum.

Hér inni átti nú hellirsbúinn að hafa sitt aðsetur og þyki mér líklegt að þetta hafi í fyrstunni verið lítill skúti, en Kolbeinn hafi grafið hann sona stóran. Stórgrýti nokkurt er út undir í hellirnum og hygg ég hann hafi hlaðið því þar sér til skjóls og getað gengið so frá að vind og kulda hafi ekki mjög lagt inn til hans, en nú er það víðast hrunið og ólagað. Þar er í flestum veðrum heldur skýlt, en útsýni gott þegar út kemur og sér vel til sjávar og líka ef nokkrir eru á ferð að austan eða sunnan. Hefur þar verið fremur gott vígi og hann ekki auðsóttur í hellirinn. Sagt er að Kolbeinn þessi hafi áður en hann kom að Horni búið í urð sem við hann [er] kennd fyrir innan Hvalnes í Lóni, en ekki nema lítinn tíma. Enginn veit með vissu hvaðan hann hefur þangað komið, en tímabil það sem [hann] hefur uppi verið meina ég verið hafi varla fyrr en um byrjun 18. aldar.

Í þann tíð hafði verið bænahús á Horni sem þáverandi Bjarnanesprestar höfðu messað í og jafnvel vegfarandi prestar sem auðheyrt er á Hornafjarðarför síra Stefáns Ólafssonar frá Vallanesi. Þeir höfðu helzt messað þar þegar verkfólk lá þar og líka tekið heimilisfólkið til sakramentis. Ekki er getið að Kolbeinn hafi haft neinar verjur eða vopn nema einn atgeir. Hann hefði hann aldrei við sig skilið hvar sem hann var staddur. Oft hafði hann komið til kirkjunnar eða bænahússins þegar messað var og setzt á þröskuldinn með atgeirinn þegar allir voru inn komnir – því hann hefur séð að menn sátu jafnan um líf hans.

Nú hafði einu sinni so viljað til að Páll (mig minnir Jónsson) sem bjó í Firði og var langafi Halldórs sem þar býr nú [1860] hafði einhvörra orsaka vegna þurft að sæta messugjörð að Horni ásamt með fleiru fólki sínu. Þegar hann kom þangað þá var Kolbeinn setztur á þröskuldinn. Hann stóð upp og hleypti Páli og hans mönnum inn og settist so niður aftur. – Þetta næst undanfarna skrifa ég til að heimfæra áðurnefnt tímabil.

Um athöfn hans er það sagt að hann hafi einatt róið, því ekki er langt til hafnarinnar; hann hafi gengið að einhvörju skipinu hvar sem hönum leizt og setzt í framstafninn með atgeirinn og dregið þar fisk, en aldrei undir ár farið nema þegar slæmt varð í sjó, þá hafði hann drifið báða andófsmennina aftur eftir skipinu, en setzt á andófsþóftuna og róið þar tveim árum og það í stærra lagi, að formönnum hefði þótt, enda hafði hann þegar að landi kom tekið þann hlutinn sem hönum leizt beztur og oftast hafði það skipið aflað bezt sem hann var á í það sinni. Hann hafði daglega gengið á fjöru austur og suður og tekið það sem hann fann og gat bjargað og hagnýtt sér, en ef það hafði rekið meira en so þá hafði hann gjört Horns ábúanda varan við so ekkert skemmdist, og það held ég hönum hafi verið atvinnuvegurinn drjúgastur sem hann hefur haft með því móti við sjóinn í þá daga þegar selurinn var þar yfirtaks mikill á því einhvörju þurfti manntötrið að lifa.

Ekki er getið um óhnykki hans neina nema hann hafði komið heim að fjárréttinni á haustin og tekið þaðan bezta sauðinn og haldið á austur í skútann sinn, og hönum hafði verið förult þegar hann sá sér færi að snoða um nesti manna í verskálunum. Þó er sagt þeir hafi á stundum veitt hönum aðför að hellirnum en unnu ekkert á. Einhvörn tíma höfðu þeir sótt so að hönum að hann flúði undan upp í hellirsbjargið því upp á það má komast í einum stað, en þá var hann þeim tapaður sem vonlegt var því þó hundrað manns hefði að hönum sótt þangað mundi hann hafa verið jafngóður þar þeir höfðu ekki skotverkfæri.

Það mun hafa farið í vöxt að hann hnuplaði sér nesti manna úr verskálum og því framar sátu þeir um hann, en voguðu aldrei að hönum að leggja þó hann væri inn í skálunum því hann hafði jafnan atgeirinn inni og úti. Eitt sinn er sagt að allir hafi verið niður í höfn, þá hafi hann verið að rusla í verskálunum meðal hvörs hann hafi farið í Hoffellsmanna verskálann og hafi hönum orðið atgeirinn eftir úti (því feigðin hefur að sótt). En þeir sáu til úr höfninni, nýttu tækifærið, gátu læðzt og náð atgeirnum og lögðu hann með hönum í skálanum.

Sagt er að hann hafi beðið þá þegar hann væri dauður að koma sér í kristinna manna reit, en þeir svikust um það og fluttu hann fyrst suður í Miðsker sem er hraun eitt á miðjum Hornsfjörum fullkomna mílu vegar frá hellir hans og dysjuðu hann þar. En þeir urðu fyrir einhvörju ónæði af hans völdum, tóku hann því upp aftur og fluttu hann austur fjörur og inn á Dys undir Almannaskarði og gengu þar frá hönum. Það fór á sömu leið, þeir máttu til að taka hann upp enn og fluttu hann að Bjarnarnesi og grófu hann hásunnan megin við kirkjugarðinn niðrí vondu feni og lögðu yfir stóran stein og þar hvílir karlinn í kyrrð.