Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kolfreyja
Kolfreyja
Eitt sinn bjó kona sú á Kolfreyjustað sem Kolfreyja hét og tekur bærinn nafn af henni. Vöttur bóndi bjó þá og að Vattarnesi.
Eitt sinn réru þau í logni og góðu veðri út á svonefndar Rastir (eitt með yztu miðum í Fáskrúðsfirði). En um daginn skall á veður svo mikið að enginn komst lifandi í land af þeim er reru um daginn, nema Kolfreyja og Vöttur. Þeir voru tólf á bát þeir Vöttur.
En þegar veðrið skall á og flestir fóru að róa heim, þá sér Kolfreyja hvar þeir róa tólf og gengur lítt. Kemur Kolfreyja þá til þeirra og biður þá róa í kjalfar sitt og er það mælt að þeir hafi ei róið tólf svo við héldist á eftir henni, svo hún tengir skipin og rær svo áfram. Svo sagði Kolfreyja: „Þá reis ég upp og reif ég aftur úr.“ Og er þau komu í land þá voru þeir svo dasaðir að enginn gat bjargað skipunum undan sjó nema Kolfreyja; hún dró skipin í naust. Hét Vöttur henni því þá að gefa henni í sjóvettlinga og um veturinn færði hann henni þrjátíu álnir voðmála. En er hún hafði sniðið vettlingana og fann Vött næst sagði hún: „Kort er efni, Vöttur vin, vantar í alla þumlana.“ Bætti Vöttur þá tíu álnum við, enda var kelling þá ánægð.