Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Kvennaníðingurinn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Stúlka varð eitt sinn ólétt af völdum manns er var nokkurn veg frá heimili hennar. Þegar það komst í hámæli fór þessi maður til bæjar þess er stúlkan var á, og hafði með sér dreng. Þegar þeir komu nálægt bænum sem stúlkan var á sagði hann drengnum að bíða sín nokkuð frá, en maðurinn fór heim. Drengurinn [sér] að hann fer frá bænum og stúlkan með honum niður að á eða vatni er var skammt frá bænum og þar taka þau saman og fara að glíma. Hann sér að stúlkan verst vel í glímunni, en svo lýkur að maðurinn hrindir henni í ána (og sagt hann hafi yfirbugað hana með því að snúa handlegg hennar [úr] lið). Eftir það kemur hann til drengsins, fær honum bréf og segir honum að færa bróður sínum það og biður hann að láta engvan sjá það. Drengur fer eins og honum var sagt, en á leiðinni mætir honum ókenndur maður sem spyr hann að ferð hans og hvaða erindi hann hafi. Drengur segir það stytzta um það. Ókunni maðurinn er ákafur að leitast eftir því þar til drengur segist eiga að flytja bréf. Ókunni maðurinn biður hann sýna sér bréfið, en það vill drengur engvan veginn. Maðurinn segist skuli fá honum það aftur og það verður úr að hann fær honum bréfið. Fer þá maðurinn að lesa bréfið og segir dreng að það sé innihald þess að sá sem sendi hann biðji bróður sinn að myrða drenginn so hann geti ekki sagt frá aðgjörðum hans við stúlkuna, og biður dreng að fara með sér so hann þurfi ekki að vera milli þessara bræðra. Drengur fór með ókunna manninum til lögregluþjónanna sem samstundis fóru og tóku fastan morðingjann.