Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Líknarbrekkur

Úr Wikiheimild

Í suðurhorni Hagafjalls stendur klettgnípa mjög há, uppmjó og ávið bogin og er áþekk kerlingu í hempu með hettu. Hún er kölluð Líkný og er svo sagt að það hafi verið skessa og hafi búið einhvurstaðar fyrir innan Hagafjall, en þótti of mikil umferð af fátækum sunnan að og ætlaði að taka upp fjallið og færa það að ánni og taka af veginn, en Latur, félagi hennar – klettur ómerkilegur hinumegin fjallsins, – nennti ekki að lyfta því á hana. Dagaði þau uppi og urðu að steinum. Grasbrekkur eru hjá Líkný og eftir þessari sögu skulu þær taka nafn af henni og heita Líknýjarbrekkur. Þessi sögn er án ef orðin til af örnefnunum, en þau aftur eins og fylgjandi frásaga segir, og hana álíta flestir sannari:

Hinn þriðja vetur sem Þorbjörn laxakarl var í Gnúpverjahrepp gjörði hagleysur svo miklar að hann hafði enga björg fyrir sauði sína, en hafði ekki ætlað þeim hey. Hann rak þá til fjalls þangað til hann fann haga handa þeim í brekkunum sunnan í Hagafjalli, þær voru auðar. Þá kallaði hann brekkurnar Líknarbrekkur því þær líknuðu sauðum hans, og kenndi þar við gnípuna og kallaði Líkný; hann hefir máske trúað að vættur byggi í gnípunni. Og um vorið gjörði hann sér bæ undir fjallinu litlu vestar og kallaði í Haga. „Þar bjó hann til dauðadags.“ Latur mun hafa fengið nafnið á seinni tímum því fleiri klettar hér og hvar eiga sama nafn og eru að fáu merkilegir eða engu.