Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Mín hefur augu og mitt hefur nef

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Mín hefur augu og mitt hefur nef“

Eitt sinn bjó karl og kerling og áttu sér ekki barna. Einn morgun þá karl fór á skóg að veiða dýr og fugla segir hann við kerlingu: „Í kvöld skal ég drepa þig ef þú verður ekki búin að eiga mér króga.“ Síðan fór hann af stað. Nú fór kerling að gráta og sezt með miklum harmatölum út undir bæjarvegg. Þá kom til hennar kona og spyr því hún gráti. Hún sagði henni orð kallsins. Konan kvaðst skyldi hjálpa henni. Þær veiddu hrafn sem var að flögta þar í kring og vöfðu hann í reifum. Síðan fór konan í burtu. Kerling var nú að hossa og hampa þessum unga sveini þangað til að karl kom heim. Varð hann nú yfrið glaður þegar hann sá að kerling var búin að eignast barn um daginn. Kerling fer nú ofan að sækja honum mat, en karl var að hossa reifaða barninu út við gluggann og tók úr skjáinn so hann sjæði útlit og yfirbragð barns þessa. Þá segir karl: „Mín hefur augu og mitt hefur nef og mitt hefur til þín runnið.“ Varð krummi þá so frískur að karl réði öngu við hann. Losnuðu þá reifarnir utan af honum so krummi losnaði og flaug út um gluggann. Síðan kemur kerling inn og spyr karl um barnið. Karl sagði: „Æ, kerling mín, minnstu ekki á það! Það flaug út og upp til himins!“ og bað hana auðmjúklega fyrirgefningar á broti sínu og heimtaði aldrei síðan af henni að eiga þeim króga.