Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Móðuharðindin og norðlendingar

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Móðuharðindin og Norðlendingar

Manndauðaárið eftir móðuharðindin höfðu hreppstjórarnir í Eyjafirði á kirkjufundum beðið bændur að lofa aumingjunum að deyja inn í húsum sínum þó þeir ekki gætu nært þá á neinu, því þetta væri þó betra en að þeir dæju út af á víðavangi eins og þar var þá títt orðið. Má af slíku marka hvílík neyð þá hafi gengið yfir Norðurland. Flúði þá og margur þaðan til Vestfjarða, en fjöldi dó á leiðinni þótt margir kæmust af. Mælt er að þá hafi fjöldi þvílíks flökkuliðs komizt til Bolungarvíkur við Ísafjarðardjúp; það er veiðistöð Ísfirðinga. Vel fiskaðist um vorið og spörðu Ísfirðingar ekki sjófang sitt við aumingja þessa, fengu sér stóra potta og suðu daglega í þeim af afla sínum, en ösin varð svo mikil að formenn urðu sjálfir að skammta jafnt soðið sem soðninguna. Fór svo fram litla stund að þetta sýndist vel horfa, en fólkið veiktist af fæðu þessari og dó hrönnum og mest það sem áður var langdregnast orðið, svo endirinn varð að ekki lifðu nema fáir eftir af mörgum er að komu. Af innlendu fólki við Ísafjarðardjúp dó enginn af harðrétti.