Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Magnús sálarháski

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Magnús hét maður, auknefndur sálarháski og festist nafn það við hann sökum þess að sjálfur hann kvað svo að orði um það og það sem hættligt var að það væri sálarháski. Magnús var atgervimaður bæði að greind og líkamsþroska og lagvirkni, en auðnumaður lítill og urðu honum því rýr notin atgervi sinnar. Víða fór hann og flakkaði um Norður- og Suðurland; var hann hvergi langdvölum, því hann nennti ekki að vinna og þókti mjög blandinn og var ekki trútt um að hann fremdi ýms strákapör og svo kom því langt að eitt sinn var hann hýddur fyrir óknytti á Gullberastöðum í Lundarreykjadal. Var það gjört þar í skemmu og vildi Magnús hvergi vera meðan hann var hýddur nema við fatakistu konunnar. Löngu síðar fór konan að skoða föt sín í kistunni og vóru þau þá fúin og skemmd mjög. Vitnaðist það þá að Magnús hefði pissað inn um skráargatið á kistunni meðan á hýðingunni stóð. Með óknyttum sínum vann Magnús sér það að hann hræddist mjög alla hreppstjóra og sýslumenn og vænti sér af þeim refsinga. Margir gjörðust til með sögum sínum um væntanlegar atfarir þeirra við hann að auka mjög ótta hans, og varð hann þá á stundum svo hræddur að hann flúði langar leiðir þó enginn elti hann.

Einu sinni var hann staddur í Keflavík syðra og kom þar þá sýslumaðurinn. Gjörðust menn þá til að segja Magnúsi af hljóði að hann mundi ætla sér að taka hann. Varð Magnús þá mjög hræddur og bað kaupmann að fela sig og lætur kaupmaður hann koma niður í stóra ámu er stóð á plátsinu, og er að því búnu botn sleginn í ámuna og er hún sem heil. Hér ætlaði Magnús sig óhultan fyrir eftirleit sýslumanns; en er minnst varði verður sýslumanni sem skýrt var frá málavöxtum Magnúsar reikað um plátsið í fylgd með kaupmanni og mörgum öðrum, og er þeir koma nálægt ámunni fer sýslumaður að biðja kaupmann að selja sér stóra ámu. Kaupmaður kveðst ekki geta það, hann eigi ekki ámur. „Það er ekki satt,“ segir sýslumaður, „hérna er ein strax og tek ég hana.“ Áttu þeir nokkra kepp[n]i um ámuna, en svo lauk að kaupmaður varð að láta hana fala. Sýslumaður tekur til ámunnar og byltir á hliðina, en halllent var og veltur hún niður og á sjó fram. Áman var stafgisin og féll strax kolblár sjór í hana; en áður hún sykki var hún sókt og henni velt upp á plássið aftur og sjór látinn renna úr henni. Sýslumaður fer enn að skoða ámuna og hrista hana; þykist hann þá merkja að eitthvað muni í henni vera og lætur slá úr henni botninn, og sem það var gjört sprettur Magnús þar upp alvotur og ófrýnligur mjög. Hefur hann engar kveðjur, en hleypur gegnum mannþröngina sem stóð um kring. Var hann þá sem óður maður og rann þeim brátt, hvarf burt úr kaupstaðnum og vissu þeir lengi síðan ekki til ferða hans.

Oft fór Magnús í kaupavinnu í Norðurland. Hann var svo mikill sláttumaður að engir þurftu að reyna við hann slátt, en svo hvíldrækur var hann að hann vann þó ekki meira að samtöldu en hvor annar. Að frágjörðum var það haft hvorsu honum bitu ljáirnir; þá valdi hann sér með því að bera þá upp í sig og finna bragð af þeim. Eins mörg brýni hafði hann og hann hafði ljáina og brýndi sinn með hverju þeirra og valdi hann sér þau á líkan hátt. Vann hann það oft á tveim dögum sem aðrir unnu á viku, en þess í milli gjörði hann ekkert.

Þess er einu sinni við getið að bóndi nokkur í Hörgárdal sem vinna átti ákvæðaslátt á antmannssetrinu Möðruvöllum – vóru það gildir þrír eyrisvellir mældir; hét það vikuverk handa allröskum manni. Bóndinn gjörir Magnús út með vikunesti til að slá völlinn; var það á sunnudag að Magnús kemur að Möðruvöllum og margir fleiri sem vinna áttu þar vikuverk, og er honum sýndur teigur hans. Um aftureldingu mánudagsmorguninn fer Magnús út til sláttarins eins og aðrir og slær hann litla stund, sópar saman heyi og býr sér ból, leggst í og tekur að sofa; hafði hann mal sinn þar hjá sér. Hér liggur hann allan mánudaginn og þriðjudagsnóttina svo hann hefst ekki að annað en setjast upp til að éta. Á þriðjudaginn stendur hann upp og fór með alla ljái sína í smiðju og dengir þá og er mjög lengi að, fer svo út í slægju sína. Ætla menn að þá muni hann taka til verknaðar, en þetta brást; Magnús leggst í bæli sitt sem fyr og liggur þar allt fram á miðvikudaginn. Þykir amtmanni Stephani þá úr hófi ganga leti Magnúsar og gengur að honum; er hann þá í bæli sínu. Amtmaður átelur hann harðlega og skipar hann fari burt heim til þess er sendi hann svo hann geti til fengið annan dyggari; hann skuli ekki liggja þar eins og hundur og hafast ekki að. Átölum amtmanns svaraði Magnús ekki öðru en því að sér hefði ekki verið sagt að koma heim fyrri en á laugardagskvöldið. Fer amtmaður frá honum við svo búið, en Magnús liggur kyr allt til náttmála á fimmtudaginn, þá stendur hann upp og fer að slá og miðar honum fljótt fram; slær hann nú alla nóttina og föstudaginn og laugardagsnóttina fram til dagmála. Kemur amtmaður þá til hans og sér að búið er vikuverkið því Magnús var þá með seinustu þúfurnar; undraði amtmann mjög sláttufrækleik Magnúsar og lofaði hann nú í hverju orði, bauð heim til sín og gjörði gildan beina. Seint um daginn reið Magnús burt til húsbónda síns.

Um hausttíma gisti Magnús hjá bónda þeim í Öxnadal sem Krákur hét; var það eftir Mikaelsmessu og var farið að vaka við ljós á kvöldin. Bóndinn var nýbúinn að slátra sauðum og bar inn, þá búið var að kveikja, fjórar sauðagærur; ætlaði hann að raka tvær af þeim, en fékk hinar tvær Magnúsi. Bóndi hefur rakhnífa nokkra og býður Magnúsi að velja úr. Hann tekur við öllum hnífunum og ber í munninn og vill engan hafa; spyr hann bónda hvert hann hafi ekki fleiri. Bóndi fær honum þá einn gamlan og ryðsleginn. Þegar Magnús hefur reynt hann sem hina í munni sér biður hann um brýni, og fær bóndi honum nokkur. Magnús skoðar þau og tekur flögu eina Iítilfjörliga og hvetur með. Bóndi tekur síðan hnífa sína og fer að raka; gengur honum það greiðliga og lýkur hann fyrri gærunni svo að Magnús er enn að brýna kuta sinn. Bóndi tekur seinni gæruna, og sem hann er kominn að bógnum á henni fer Magnús að raka fyrri gæruna sína; og er bóndi átti eftir lítinn blett á öðru læri gærunnar er Magnús búinn með báðar sínar og skóf hann af þeim í einni brýnu.

Á öðrum bæ í Öxnadal var það einn dag að bóndinn bað Magnús að leggja rakhnífa sína á hverfustein. Magnús spyr hvernig hann eigi að gjöra það svo bónda líki. Bóndi segir hann skuli draga þá jafnt til bakka og eggjar. Magnús leggur á hnífana og er mjög lengi að því og færir bónda síðan. Bóndi sér að hann hefur ónýtt alla hnífana og dregið þá svo þunna sem pappír væri og deilir á hann um það. Magnús kveðst hafa gjört að boði hans og yrði hann að láta sér lynda það.

Þegar Magnús eltist hélzt hann við í Borgarfirði. Hann átti lengi hest einn brúnskjóttan að lit; hann fór vel með hestinn og aflaði sér heys handa honum. Einu sinni fór hann á hálsa upp að slá handa Skjóna sínum; var það í heitu sólskini. Bar þar þá mann að sem Magnús sló, og sér að hann hamast við sláttinn og er þá alnakinn.

Með aldri batnaði Magnús og hætti hrekkjabrögðum og kom sér betur en áður. Hann hafði allgóða greind á mörgu og var ekki óskemmtiligt að tala við hann þegar hann var í góðu skapi. Hann var gildur meðalmaður á vöxt, þrekvaxinn og hreinligur í andliti, rauðleitur og ljóshárr.

Haustið 1827 vóru sex skólapiltar að vestan á ferð suður eftir Hvalfjarðarströnd. Þeir fóru um á Þyrli. Sjá þeir þar mann á hlaðinu roskinlegan, en hreinliga búinn, og hest brúnskjóttan, vænligan og feitan. Þeir spyrja manninn að heiti; hann kvaðst Magnús heita, Piltar riðu inn í skriðurnar fyrir innan Þyril og áðu þar hestum sínum stundarkorn, því flæður var sjávar og urðu þeir að bíða þess út félli. En sem þeir höfðu tekið hestana og ætluðu að ríða kemur Magnús og slær í ferð með þeim inn með firðinum. Piltar riðu lausu og höfðu góða hesta vakra og riðu hart þar sem vegur var greiðfær, en þá hægt er staksteinótt var. Magnús dróst á eftir þegar hart var farið, en náði þó piltum þess á milli. En er kemur inn undir fjarðarhornið segir Magnús: „Þið hafið, piltar, einn hest eyfirzkan í ferðinni.“ Þeir spyrja hver sá væri og segir hann það og stóð það heima sem hann sagði. Hesturinn var ljósgrár á lit og vel vakur, gamall reiðhestur, nýkominn að norðan úr Möðruvallasókn í Hörgárdal. Hestinn hafði Magnús víst ekki fyrri séð og ekki gat hann heldur annað ætlað en piltarnir væru allir vestfirzkir því engan þeirra þekkti hann og spurði þá einkis. Hefur ganglag og svipur hestsins lýst fyrir Magnúsi ætterni hans. Piltar undruðu að Magnús skyldi hitta á þetta, skildust svo við hann að þeir vissu ekki hver maðurinn var, en fréttu seinna að það var Magnús sálarháski.

Þegar Guðmundur prestur Eiríksson bjó á Tjörn á Vatnsnesi[1] vistaðist Magnús hjá honum. Var hann þá ungur, en kominn til þroska. Þá er sláttur byrjaði nennti Magnús ekki að vinna og lagðist í rúmið og át og drakk sem heilbrigður væri og fór því fram nokkra daga í röð. Konu prestsins, Ingveldi Bogadóttur, þókti það mjög leiðinligt og því heldur sem fátt var verkafólk á staðnum og hún þóktist sannfærð um að Magnús mundi heilbrigður, og fer hún að grennslast eftir um heilsufar hans. Segir hann henni að í sér sé slenlinja og biður að hún gefi sér meðöl við sem geti frískað sig og dálítið bragð sé að. Meðöl hafði hún ekki handbær, en til að gjöra Magnúsi samt nokkra úrlausn hellir hún brennivíni í spilkomu og vindur þar í rullutóbak og færir Magnúsi. Hann tekur við og drekkur í botn, rís á fætur allsber og tekur bláa yfirhöfn sem presturinn átti, snarar yfir sig og fer út að slá og mundu þrír fullröskir ekki hafa meira slegið meðan hann bjó að meðalinu. Engin ill eftirköst hlaut Magnús af inntöku þessari, en tók jafnan til þess síðan hversu ósvikin og áhrífandi hún hefði verið. Má af slíku ráða að maðurinn ekki var innviðaveikur.


  1. Guðmundur Eiríksson (1759-1805) var prestur á Tjörn á Vatnsnesi 1792-1796.