Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Marteinslaugar

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Marteinslaugar

Fáein atvik eru það enn sem hafa borið við um það leyti sem siðabótin var að komast á hér í landi og einstöku örnefni draga þar af nafn. Svo eru til dæmis Marteinslaugar hjá Haukadal í Biskupstungum sem eiga að vera einkar heilnæmar ef maður baðar sig í þeim. Sagt er að Marteinn biskup Einarsson hafi baðað sig þar fyrstur manna veturinn sem hann sat í Haukadal 1556-57 næstan eftir að hann hafði lagt niður biskupsstörfin. Þó segja aðrir að laugar þessar dragi nafn af því að þær væri í pápisku helgaðar Marteini frá Tours sem var kallaður helgur maður og var mjög dýrkaður eins hér á landi og annarstaðar.