Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Narfi prestur Guðmundsson

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Guðmundur hét maður; hann bjó í Fljótsdal. Ekki heyrði ég ætt hans og ekki hvað kona hans hét. Hann átti tvo sonu, Narfa og Bessa. Narfi framaðist utanlands, var nokkurn tíma í Þýzkalandi, hefir líkast lært fyrst í Skálholtsskóla. Hann þókti fjölfróður og forspár, en undarlegur í háttum. Bessi bróðir hans varð sýslumaður í Múlasýslu, þókti lítt til þess hæfur, ólærður að kalla mátti og lítt skrifandi, en drambsamur mjög.[1] Hann bjó á Skriðuklaustri og fékk prestsekkju frá Stafafelli í Lóni, Jórunni, auðuga mjög. Son átti hún eftir prest sinn, er Egill hét, kallaði sig Staffell. Hann var frábær að gáfum, sigldi og lærði út við háskólann í Kaupmannahöfn, en féll yfir hann trufl og fásinna svo hann kom inn aftur og fór til móður sinnar. En að henni látinni tók Víum sýslumaður hann með öllu hans fé. Hann kallaði sig Snotrufóstra; þóktist hafa haft mök við álfkonu nokkra er Snotra hét. Margt orðskrípi var haft eftir Egli. Þá Sunnevumál stóðu yfir og Víum utanlands mun Pétur sýslumaður Þorsteinsson hafa tekið Egil og hjá honum mun hann hafa dáið.

Heyrt hefi [ég] þess getið, þá Ólafur biskup vísiteraði Austfjörðu, var Egill á Ketilsstöðum hjá Pétri; bjó Egill í dyralofti. Biskup reið að Ketilsstöðum með fylgd sinni; hann var grannleitur mjög og fölleitur. Þegar hann kom á hlaðið fór Egill út í gluggann sem horfði ofan á hlaðið, og sagði: „Margur prestur hefir verið í Odda; fyrstur var þar Sæmundur enn fróði; hann hafði djöfulinn í dósum,“ taldi svo fram presta alla sem verið höfðu í Odda og fann eitthvað öllum til. „En síðastur,“ sagði hann, „var þar Ólafur borufóstri; hann er eins og máfur í framan.“ Biskup leit við honum og brá ekki hót við, en spurði hvör þessi maður væri.

Egill var afarmenni að burðum og sveifst einkis, væri honum móti gjört; heyrt hefi ég getið kímilegra bragða er sýslumaður beitti við hann, en man ekki frá þeim segja.

Narfi Guðmundarson varð prestur í Möðrudal og þjónaði þar nokkur ár. Hann átti tvo sonu sem ekki urðu að mönnum. Eiríkur hét annar. – Narfi prestur var frábær læknir svo almælt var að honum hefði aldrei mistekizt, hvað sem hann gaf sig við.

Eitt sinn var hans vitjað til vitstola manns. Þá sagði hann: „Ólukkuferð Narfa,“ en enginn vissi hvað hann meinti.

Hann var dulur mjög á fróðleik sinn. Það var eitt til marks um það að [hann] fór á hvörju sumri inn á öræfi og litaði þar alslags liti úr grösum og hafði aldrei með sér nema hálfvita dreng.

Á mörgu tók Narfi prestur mark, grösum, steinum, dauðra manna beinum og ýmsu fl. Einatt tók hann bein, kæmi gröftur upp úr Möðrudalskirkjugarði, og lét beinið undir höfuð sér.

Heyrt hefi ég þess getið að eitt sinn kom biskup til hans og gisti hjá honum. Veður var gott og heiðskírt. Biskup svaf í skemmu. Það sáu menn, þá biskup var kominn til rúms síns, að Narfi var úti á húsinu upp yfir biskupi með nautshúð sem hann breiddi á þakið yfir biskupi. Menn biskups hlógu að honum og spurðu til hvörs hann gjörði þetta í heiðskíru veðrinu. Hann sagði þess mundi þurfa, en eftir miðja nótt kom svo mikil rigning að öll hús drupu, en ekki kom dropi á biskup.

Narfi var nokkur ár prestur á Möðrudal. En síðasta árið sem hann lifði tók hann sig upp með konu og börnum og flutti ofan í Reyðarfjarðarkaupstað á miðju sumri. Þetta þókti mönnum kynleg fyrirtekt. Var hann þar svo nokkrar vikur og keypti kost til hvers dags handa hyski sínu. En seinasta sunnudag sem hann lifði var hann við messu á Hólmum. Þar var grafið lík og stóð hann yfir greftinum. Þá sagði Narfi: „Hér ert þú grafinn í dag, en Narfi annan sunnudag.“ – Eftir þessu tóku menn. – Þá kom höfuð upp úr garðinum. Narfi tók það upp og heyrði hringla eitthvað í því; þá sagði hann: „Hvað hefir nú Narfi við þetta að gjöra héðan af ?“ – og lagði það svo niður aftur. Svo fór hann heim um kveldið og var hress. En á mánudaginn keypti hann kost handa sér og sínum til viku, þetta hafði hann ekki fyrr gjört, og valdi sér borð; var mjög lengi að því. Á þriðjudaginn var hann vesæll, þó á ferli, miðvikudaginn var honum þyngra, fimmtudaginn þyngst svo hann hélt við rúmið. En á föstudaginn andaðist hann, en grafinn á sunnudaginn eins og hann sagði fyrir.

Lækningabók skrifaði hann sem nú mun óvíða til. Séð hef ég lækningakver eftir hann, eftir stafrofi, byrjar á „augnasjúkdómum alls konar“ og heldur svo fram og endar á „ráðum við spítelsku“, nefnilega „beltinu“ – og að smyrja móti henni, ofur einföld ráð brúkuð með heppni af Þorsteini sýslumanni Sigurðssyni og Árna ríka Þórðarsyni á Arnheiðarstöðum[2] því þeir áttu lækningaskrif hans; þó dóu stöku menn undir höndum þeirra af of freku vessarennsli.

Einföld og auðfengin meðöl ræður Narfi til, margs konar grös – seyði af þeim. Flest munu meðöl hans ódýr og auðfengin, en víða bregður fyrir hjátrú í riti hans. Gamlir menn sögðu að honum hefði aldrei mistekizt lækningatilraunir sínar.

Hjörleifur læknir[3] sem hér var nafnfrægur fyrir lækningaheppni sá eitt sinn „Narfalækningar“ sem manni hafði verið léð; hann sagði þar væri ónýtt um að tala, hann tæki kverið hvör sem ætti, hvað hann líka gjörði.

Vitað hefi ég ráð Narfa brúkuð við ýmsum kvillum með góðri heppni.


  1. Bessi (um 1646-1723) var sýslumaður í hluta Múlasýslu frá því um 1685 og til dauðadags. Narfi dó á árabilinu 1697-1703.
  2. Þorsteinn Sigurðsson (1678-1765) var um hríð lögsagnari Bessa sýslumanns og sýslumaður í nyrzta hluta Múlasýslu 1720-1751. Árni Þórðarson lögréttumaður var uppi 1689-1771. Kona hans var bróðurdóttir þeirra Narfa prests og Bessa sýslumanns.
  3. Hjörleifur Jónsson (um 1764-1843) var á Austurlandi og í V-Skaftafellssýslu (Læknar á Íslandi, 53. bls.), fékkst við lækningar.