Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Oddur kolbítur Arngeirsson
Oddur kolbítur Arngeirsson
Arngeir hét maður er nam Sléttu alla á milli Hávararlóns og Sveinungsvíkur. Hans börn vóru þau Þorgils, Oddur og Þuríður er Steinólfur í Þjórsárdal átti. Oddur var eldsætur í æsku og seinlegur og var kallaður kolbítur. Þeir Arngeir og Þorgils fóru að leita fjár í fjúki og komu eigi heim. Fór þá Oddur að leita þeirra og fann þá báða örenda. Hafði hvítabjörn drepið þá og saug úr þeim blóðið er hann kom að. Oddur drap björninn, færði heim og át allan og kvaðst þá hefna föður síns er hann drap björninn, en bróður er hann át hann.
Oddur var síðan illur og ódæll við að eiga og hamramur svo mjög að hann gekk að heiman úr Hraunhöfn um kvöldið, en kom morguninn eftir í Þjórsárdal til liðs við Þuríði systur sína er Þjórsdælir vildu grýta hana í hel fyrir fjölkynngi og tröllskap.
Oddur bjó að Oddsstöðum á Sléttu. Hann átti sökótt við útlenda menn suma og vildu þeir honum jafnan það illt gjöra er þeir gátu. Sá var einn hlutur er Oddur hafði mestar mætur á af eigum sínum, en það vóru varpeyjar er liggja undir Oddsstaði. Eitt sinn sá hann skip leggja að þeirri eyjunni er Austurey heitir; grunaði hann að ekki mundi það friðmenn vera og hljóp því af stað út með sjó. Var þá skipið burt siglt, en hann sá tvö kvikindi í eynni; en þar er svo háttað að þurrt er úr eynni í land með fjöru og því hljóp hann út til eyjarinnar og sá að þetta vóru melrakkar tveir; það var refur og grenlægja; en er þau sáu manninn nærri sér hlupu þau á land og hann á eftir og elti þau austur svonefnda Oddsstaðamóa og Sigurðarstaða og austur fyrir Blikalón. Þá fór grenlægjan að mæðast, því hún var hvolpafull, og gat hann tekið hana á svokölluðum Grenlægjuás, en lét hana þar eftir liggja, en hélt áfram að elta refinn; og fóru þeir austur alla Blikalónsheiði og austur fyrir Raufarhöfn, og er það þó fjarska langur vegur; þar fékk hann höndlað refinn og drap hann þar sem nú er kallaður Melrakkaás. Þegar hann fór til baka ætlaði hann að drepa grenlægjuna, en hún var þá smogin í urð og hafði hann ekki af henni meira; en sveitin er síðan nefnd Melrakkaslétta.
Oddur varð sóttdauður og heyrðu menn hann síðast segja: „Eyjarnar mínar, eyjarnar mínar.“ Hafði hann beðið að grafa sig þar sem bezt sæi til eyjanna, og kvað dys hans vera þar sem Nónvarða er kölluð skammt frá bæ á Oddsstöðum.
Sá bóndi bjó á Oddsstöðum seint á átjándu öld er Magnús hét. Hann dreymdi eitt kvöld í rökkursvefni að maður kom til hans mikill vexti. Magnús þóttist spyrja hann að nafni, en hann sagði: „Ég heiti Oddur og var ég hér búandi fyrrum. Þá var margt mjög ólíkt því sem nú er. Ég hafði þá drykkjuskála tuttugu og fjögra álna langan þar sem nú er eldhúsið. En undir skálanum var kjallari og þar hafði ég auðæfi mín. Ef þú grefur niður í miðstafngólfi eldhússins muntu finna móhellu og ofan á henni kljástein; en þar undir er kjallarinn, og ef þú kemst í hann munt þú ekki verða auðþurfi þar eftir.“ Og að svo mæltu þagnaði draummaðurinn, en Magnús vaknaði, fer á fætur hljóðlega svo enginn varð var við og fram í eldhús og fer að grafa þar sem honum var til vísað; og er hann hafði grafið um stund kom hann ofan á móhelluna og hitti þar kljásteininn. Stappaði hann þá með fætinum á móhelluna og þótti sem holt væri undir, en í því kom að kona hans og spyr hvað hann sé að starfa, en hann sagði henni allt sem var. Varð hún þá uppvæg og kvað það mundi verða þeim að skilnaðarsök ef hann væri að þessari vitleysu. Var honum þá ei annað til en hætta, og reyndi það ei þar eftir. Síðan var bænum umbreytt og er nú ei unnt að vita hvar eldhúsið hefur staðið og þess vegna ei til að hugsa að komast í kjallara Odds. – Og endar svo þessa frásögu.