Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Piltabúðir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Piltabúðir

Mitt á milli Hafnabúða og Tjarnar er tangi fram í sjóinn sem kallaður er Rifið. Þar voru í fyrri tíð búðir og sjómenn margir; en mitt á milli Rifsins og Hafnabúða stóðu Piltabúðir. Þangað völdust jafnan vöskustu menn og klæddu sig aldrei skinnklæðum og kölluðu það lítilmennsku að „skríða undir sauðarnárann“. Rifsmönnum lék öfund á sjómönnum í Piltabúðum og áttust þeir oft illt við, en að lokum fóru Rifsmenn á Piltabúðir einn góðan veðurdag er piltar voru ekki heima og söguðu allar árar næstum í sundur undir skautum og negldu svo skautana yfir aftur. Daginn eftir réru piltar og gerði stinningskalda um daginn og óveður af landi. Komu þeir eigi að um kvöldið og spurðist eigi til þeirra framar. Þar sem Piltabúðir voru sjást nú stórar grjóthrúgur og steinar svo stórir að engir menn nú á tímum mundu geta við þá fengizt.