Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Prestur brýtur krambúðarhurð

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Prestur brýtur krambúðarhurð

Síra Jón á Möðrufelli[1] var meðalmaður á hæð og þrekvaxinn. Þá hann var ungur og nýorðinn aðstoðarprestur föður síns í Grundarþingum var sá háttur á að alþýða bænda í Eyjafirði sókti kaupstað sinn á Akureyri rétt fyrir jólin bæði til að borga skuldir sínar frá næstliðnu sumri og til að kaupa nokkuð til hátíðarinnar. Ekki var þá nema ein verzlun á Akureyri í verzlunarhúsum þeim sem nú standa innst við höfnina. Sá hét Erasmus Lynge danskur maður sem fyrir verzluninni stóð þá saga þessi gjörðist. Þókti honum ösin mikil og tók sér fyrir að leyfa ekki inngöngu í krambúðina nema einum og einum í senn og sló búðinni í lás meðan hann kláraði hvorn sem inngöngu fékk og vann hann með þjónum sínum að því svo tómliga sem honum líkaði. Leiddi hér af það að afgreiðslan gekk mjög seint og margir máttu lengi bíða inntökuleyfisins, en þókti illt frá að hverfa erindislaust. Veðurátt var köld og hörð; þoldu menn því illa að rjátla um stræti staðarins og hafa hvörgi skýli og lá við voða, því margir vóru nær kali og sumir veiktust. Og er þannig stóð kemur síra Jón; mátti hann einnig bíða úti. Var þá og hinn mesti kur í liðinu. Kærðu þeir mál sitt fyrir presti og hét hann að ráða nokkra bót á, gekk að búðarglugganum og ræddi við kaupmann og beiddi hann léti búðina standa opna svo fólkið gæti staðið af sér gust í henni. Kaupmaður neitaði tilmælum prests og þókti hann slíkt engu varða; og er prestur fékk ekki af honum utan hroka og gaguryrða sló í heitingar, og við það skildu þeir. Litast prestur þá um úti fyrir og ákveður nokkra menn úr flokkinum þá sem hann treysti bezt. Býður hann þeim að fylgja sér að búðardyrunum og ef svo ólíkliga verði að hann komist inn um þær skuli þeir djarfliga ganga inn og gjöra hark mikið af sér við inngönguna. Mennirnir hétu því fúsliga. Búðin var ramliga læst, með sterkri plægðri hurð úr þykkum borðum fyrir. Prestur hikar ekki; hleypur hann skeið að hurðinni utan og setur við öxlina og í einni svipan klofnar hurðin og brotnuðu tvær miðfjalirnar úr henni. Kemst prestur inn um gáttina og menn hans eftir honum; fara nú æstir mjög og prestur í broddi fylkingar.

Nú víkur sögunni til kaupmannsins. Við brestinn af hurðarbrotinu varð honum ósvipt mjög, en þó batnaði honum ekki þá er hann sá hvorsu hvatskeytliga um var gengið og skalf hann mjög af hræðslu og drengir hans, en þó reyndi hann að hreyfa hótunum um lögsókn og dóm yfir prestinum um húsbrotið. En prestur kvað á móti að sjálfur hann skyldi lögsókn og dómi sæta fyrir lokun búðarinnar og skyldi hann nú um það velja eður hitt að þegja sem seppi, bæta á eigin kostnað hússkemmdina og gefa öllum fylgjurum prests góða hressingu, samt láta búðina jafnan opna standa meðan hann verzlaði í henni, samkvæmt því sem verzlunarlögin á kvæðu. Kaupmanni sýndist að kjósa sér allt hið síðara. Hann lét smíða að hurðinni og eru síðan tvær fjalirnar í henni hvítleitari og nýligri. Þókti það hið mesta þrekvirki að brjóta hurðina eins og líka hugrekki á þeim dögum að bjóða sér slíkt ofríki við danskan kaupmann.

  1. Jón Jónsson (1759-1846) „lærði“ bjó í Möðrufelli 1798-1839 og síðar að Dunhaga til dauðadags.