Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Ræningjarnir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ræningjarnir

Það voru einu sinni fjórir menn austan úr Djúpavogi og fóru suður í Reykjavík. Þeir sáu þar skip á höfninni, nema þeir fara að skoða atkerið og reyna að taka það upp og sá seinasti gat tekið það dálítið á loft. Þeir sjá þar aldraðan mann á gangi við tvær hækjur. Hann kemur til þeirra, heilsar upp á þá og segir þeir séu að reyna sig á þessu, það væri nú orðið farið fyrir sér að hann mundi ekki geta það þó hann hefði getað það einhvurn tíma, leggur svo af sér aðra hækjuna og tekur í það og kippir því upp og fleygir því aftur fyrir sig. Þeir verða hlessa og spurja hann að hvað hann sé gamall. Þá segir þessi gamli maður: „Þið skuluð fá að heyra það með öðru fleiru ef þið komið út í skip með mér.“ Þeir fara svo með hönum út í skip, og byrjar svo ævisögu sína að „fyrst fór ég í siglingu á sextánda árinu með öðrum fleirum og fengum við mestu þoku og hafvillur og þegar við vórum lengi búnir að sigla fundum við að ferðin á skipinu fór að verða svo mikil að okkur undraði það mjög því alltaf var blálogn. Hún var alltaf að vaxa. So létti upp þokunni og þá sáum við grilla í fjall og sáum þar lafa utan í mörg skip, öll mosavaxin, og skipið okkar fer þar utan í og verður þar fast og við getum ekki ráðið við það því fjallið var segulmagnað. Þegar við erum búnir að vera þar dálitla stund kemur gammur fljúgandi og tekur einn manninn og flýgur með hann í burtu upp á fjallið til unganna sinna og þetta gengur alltaf þangað til að enginn er eftir nema skipherrann og ég og so sjáum við til hans. Þá stekk ég ofan í skipið, en gammurinn tekur skipherrann og fer í burtu, en ég vef mig innan í boldang so vel sem ég get og hef hníf í hendinni. So kemur gammurinn og tekur mig og flýgur með mig, en ég vafði mig í því so hann læsti mig ekki með klónum, til unga sinna og leggst so niður hjá ungum sínum og fer að sofa. En þegar hann er sofnaður set ég utan af mér boldangið, lyfti upp vinstri vængnum á gamminum og rekur hnífinn á kaf í hjartað á hönum og stekkur með boldangið í burt. Hann sér þá hvar skipherrann hangir utan í fjallinu og hafði gammurinn ekki komizt með hann af því hann hafði svo mikla ístru. Hann ristir boldangið í lengjur og hnýtir þeim svo saman og lætur það síga ofan til skipherrans, hnýtir því svo yfrum sig. – Og dreg ég hann upp og so fórum við að hreiðrinu þar sem gammurinn var og var hann dauður. So drápum við ungann hans.

Við gengum so lengi á fjallinu þangað til við komumst ofan af því og niðrá sléttu og göngum so dálitla stund þangað til við komum að einni brú sem öll var breidd klæðum. Við göngum hana lengi þangað til við sjáum bæ og liggur brúin að hönum. Við förum þar heim, berjum á dyr og enginn kemur til dyra. Þá segir skipherrann við mig hvort ég treysti mér til að mölva hana upp, so ég segist skuli reyna og hleyp á hana og mölva hana upp. So komum við að annari og mölva ég hana upp. So komum við að þeirri þriðju og ég brýt hana upp. So þá komum við í hús þar sem tólf rúm voru og utast var kringlótt bæli og gátum við ekki skilið í hvað við það væri gert.“ So þá heyra þeir eitthvurt hljóð so þeir finna hús þar innar af. „Við mölvum það upp og sjáum við þar kvenmann bundinn á hárinu og stendur með berar fæturnar ofan í köldu vatni. Svo við segjum við hana að hún sé illa haldin að vera sona illa útleikin og leysum við hana og segjum henni að finna sér föt að fara í; hún fer so í allan fatnað sem hún finnur.“ So spurja þeir hana að hvurnin hún hafi komizt hingað og hvurjir búi [hér]. Hún segir að hér búi tólf ræningjar sem alltaf séu að ræna, drepa og stela og séu verstu mannætur og sé með þeim hundur sem sé þeirra verstur og foringi þeirra hlaupi eins mikið og hundurinn; það sé hér skammt frá höll sem faðir sinn búi í og sé skíðgarður þar í kringum og sé so hár að ekki verði komizt upp á hann og það sé eitt hlið á hönum og sé hurð fyrir því og henni sé læst, en hún hafi verið að þvo við brunn og þá hafi þeir stolið sér og hefði foringi þeirra viljað eiga sig, en hún hefði ekki viljað það; af því hefðu þeir farið svona með sig. Við spurjum hana að hvar þeir séu núna. Hún segir að þeir séu út á skóg að ræna og drepa. So förum við með hana, en hún vísaði okkur veginn. So þegar við erum komin heim undir skíðgarðinn þá sjáum við hvar ræningjarnir koma stökkandi á eftir okkur og hundurinn og foringinn langt á undan; so við komustum með hana að garðinum og fleygjum henni inn fyrir hann. Við finnum þar þvottakefli og held ég á því. Svo spyr skipherrann mig að því hvort ég vilji heldur fara á móti hundinum eða manninum. Ég segist skömminni til heldur vilja vera á móti hundinum, og í því koma þeir að og þá fer skipherrann móti foringjanum, en hundurinn kemur á móti mér með gapandi ginið og þá set ég keflið í kjaftinn á hönum og drep hann og þá er þessi maður búinn að drepa skipherrann og þá hleyp ég í hann og drep hann, en þá snúa hinir til baka þegar þeir sjá þeirra viðskipti og so klifra ég upp á garðinn og yfrum hann og þá var búið að hirða stúlkuna og þá kemur faðir hennar með öðrum fleirum á móti mér og þakkar mér fyrir hana og segir að hún hafi fótbrotnað þegar ég fleygði henni inn fyrir garðinn. Hann býður mér so heim; ég fer so heim með hönum og er þar heilt ár, en henni batnar fótbrotið og so fæ ég hennar fyrir konu og þá kemur skip að landi og fæ ég þar siglingu í mitt land og hefur mér liðið vel síðan, og er nú aldur minn sextíu og átta ár, og er so ævisaga mín búin.“ So fóru þeir úr skipinu og skiluðu erindum sínum og fóru svo austur aftur og endar svo þessi saga.