Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Ræningjarnir, bænirnar og nautið

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Á Skaga í Húnavatnssýslu fór fólk af einum kotbæ upp í heiði að rífa hrís um vorið, skildi eftir heima eina kerlingu. Þegar fólkið kom heim aftur fann það hvergi kerlingu. Þegar konan fór að skammta um kvöldið fann hún kerlingu niður í skyrsá sínum brytjaða ofan í sáinn í stykki. Bóndi fór til prests og sagði hönum frá. En svo stóð á að fyrir framan landið lá skip frá útlöndum þó hafnleysa væri. Prestur ímyndaði sér það mundi tyrkneskt. Prestur tók það ráð að kalla saman allt sóknarfólkið á næstu helgi og halda bænadag að þetta skip lægi þar ekki lengur, en um sama bil kom sá kvittur að naut mannskætt væri farið að gjöra ónáðir, en það átti einn ríkur bóndi í sveitinni. Lét bóndi þá menn sína fara og gera tilraun að handsama nautið. Tókst þeim það vel; var kusi settur í fjós og bundinn járnhlekkjum og slagbrandur settur fyrir fjósið. Á sunnudagsmorguninn bjó sig þessi ríki bóndi með allt sitt fólk til kirkju eftir boði prests, en móðir hans mjög gömul varð eftir, því hún vildi ekki fara. Þegar fólkið var komið á stað tók kerling lestrarbókina og las fyrir sér lesturinn, fer síðan ofan. Sér hún þá að menn koma neðan völlinn og glampar á vopn þeirra. Tekur kerling það ráð hún bröltir upp á fjósið, opnar gluggann á því og lætur kusa heyra til sín. Kusa verður bilt við birtuna og bröltið upp yfir sér og ólmast bölvandi þangað til hann getur brotið sig út, en í þeim svifum koma mennirnir vopnaðir til fjóssins. Þegar kusi sér þá með glansandi vopnin ólmast hann í hópinn og fóru svo leikir að kusi rak flóttann ofan að síki fyrir neðan túnið. Síkið var bakkahátt og breitt og í ofboði hlupu þeir ofan í það, en kusi rak hart á eftir, en einn þeirra var svo frækinn að henda sig yfir um; hljóp hann til strandar og hrópaði um hjálp af skipmönnum. Sagði hann skipverjum frá svaðilförum þeirra; urðu þeir svo hræddir þeir hjuggu strengina og sigldu á burt því byr stóð af landi. En kerling lá kyr á fjósinu meðan orustan var háð. Kom þá presturinn út úr kirkjunni og sá skipið komið undir segl; ályktaði hann að fyrirbænir sínar hefðu verkað um burtför skipsins og hélt þakklætisræðu ásamt söfnuðinum fyrir lausnina frá þessum ófögnuði, en kusi kom ekki heldur til meins, því þegar mennirnir steyptust í síkið varð honum fótaskortur á bakkanum og steyptist fram af líka og drekktist með þeim.