Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Rútshellir
Rútshellir
Rútshellir er hjá Hrútafelli undir Eyjafjöllum og er hann bæði víður og stór. Hellir þessi er gerður af mannahöndum og hvelfdur að ofan. Göng eru út úr honum að vestanverðu eða á vinstri hönd þegar inn er komið og liggur þar annar hellir þvert yfir hinn að ofan og loft á milli sjálfgert úr berginu. Í þessum helli er sagt að Rútur hafi lengi hafzt við; segja sumir að hann hafi verið sekur ránsmaður, aðrir að hann hafi verið sveitarhöfðingi og farið illa með yfirráð sín og enn aðrir að hann hafi verið tröll og illur viðureignar. Þó lofthellirinn væri ágætt vígi réðust héraðsmenn þar að honum óvörum og drápu hann með því að þeir gerðu gat á hellisgólfið undir rúmi hans og lögðu hann þar upp um; en aðrir segja að þeir hafi lagt hann að utan í gegnum gat sem þeir hafi gert á hellinn því á víðum velli þorðu þeir ekki að veita honum atgöngu. En svo voru þeir hræddir við hann dauðan að einn þeirra sem Björn hét flúði upp í Bjarnarfell og ber það nafn hans síðan, en annar fór enn lengra inn í óbyggðir.