Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Séra Tómas Sigurðsson

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Séra Tómas Sigurðsson

Tómas Sigurðarson sem seinast var prestur í Holti í Önundarfirði[1] og deyði þar í elli var mikill vexti og ramur að afli. Einu sinni þá er hann var á léttasta skeiði var hann á ferð ríðandi og kom að bæ nokkrum, fór af baki á hlaðinu og teymdi hestinn að steini er stóð gegnt bæjardyrum og hugði að binda þar. Járnkengur var fastur í steininum og gegnum hann dró hann beizlistaumana og brá í lykkjuna fingri sínum. Í þeim svifum þustu hundar út úr bænum með gelti miklu og fældist hesturinn og kippti í taumana svo snöggt og fast að fingur Tuma bar að kengnum og gekk af fremsta kjúkan svo mjög að hún lafði við á lítilli taug, en hesturinn varð laus. Þegar Tómas sér kjúkuna lafa við fingurinn varð honum skapbrátt og slítur hana burtu, en tekur heilu hendi sinni í taumana á hestinum upp við mélin og með þeirri sem meiðzt hafði slær [hann] á vanga hestsins svo mikið högg að kjálkinn í hestinum brotnaði.

  1. Tómas Sigurðsson (1772-1849) var prestur í Hítardalsþingum, Flatey, Garpsdal og Holti.