Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Saga af Árna á Stað í Hrútafirði

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Jón hefir bóndi heitið; hann bjó á Stað í Hrútafirði; hann var vel fjáreigandi og skilríkur. Ingigerður hét kona hans. Þau áttu einn son barna og er sá nefndur Árni; hann var sex vetra er þessi saga hefst. Hann ólst upp með foreldrum sínum til þess hann var níu vetra, en þá tók faðir hans sótt og andaðist. Var útför hans gjör virðuleg. Stóð nú Ingigerður húsfreyja forystulaus eftir; vildu því vinir hennar að hún giftist aftur eða brygði búi að öðrum kosti, ella mundi fjárhagur hennar brátt ganga til þurrðar. Hún lézt hvorugt vilja og kvaðst mundi búa sem áður.

Liðu nú tímar fram þar til Árni er fimmtán vetra, og var þá allmjög gengið á efni hennar. Þá er það sagt að einn dag kemur Árni að máli við móður sína og mælti: „Nú er svo komið, móðir, að mig fýsir að fara suður í vetur og leita mér fjár og menningar að dæmum annara ungra manna; mætti svo verða, ef auðna væri með, að okkur yrði það að nokkru liði þótt ég sé enn lítt þroskaður; þyki mér og sem ekki megi lengur svo búið standa um forsjá fyrir búi þínu, þar sem þér eyðist fé með hverju ári, en aðdrættir nær engir.“ Móðir hans segir: „Vel fer þér son minn, en þó ertu enn lítt fær til slíkrar ferðar fyrir æsku sakir og vildi ég því að þú hygðir af slíku að sinni.“ En hann sækir því fastara sitt mál og segist víst fara vilja. Ræðst það loks af að Árni skuli róa suður um veturinn. Gerir móðir hans hann þá út sem hún hafði föng til og felur hann síðan til umsjár Hrútfirðingum þeim er suður fóru og hún trúði bezt.

Leggja nú Hrútfirðingar á stað þegar þeir eru búnir og Árni með þeim; voru þeir saman þrír menn hins þriðja tugar. Segir nú eigi af ferðum þeirra fyr en þeir koma suður að Stafholti. Þá hélt þann stað sá prestur er síra Guðmundur er nefndur; hann var prófastur og höfðingi mikill, enda var hann maður stórauðigur; hann var og veitingasamur vel, en nokkuð stór í broti sem þá var eigi ótítt sumum ríkismönnum. Hann var kvongaður og átti eina dóttur við konu sinni, Áslaugu að nafni; hún var fríð sýnum og harðla vel að sér í öllum kvenlegum listum; var hún nú fulltíða er hér var komið og þótti einhver hinn bezti kvenkostur þar í héraði og þótt víðar væri leitað. Hún hafði og ástríki mikið af foreldrum sínum.

Það var síð dags og í illu veðri er Hrútfirðingar komu að Stafholti; fyrir því beiðast þeir gistingar og er hún skjótt til reiðu. Var þeim öllum veittur góður beini, gefið hey hestum þeirra og þurrkuð af þeim vosklæði.

Um kvöldið var þeim skipað í rekkjur, þremur í hverja, því að mjög var þröngt; seinast var Árni litli frá Stað einn eftir og segja þá stúlkur í gamni að þær verði að stinga honum einhverstaðar í misfellurnar hjá sér. Áður en vermenn hátta ganga þeir út og hafa þetta í spaugi við Árna, biðja hann nú duga þeim vel stúlkunum, létust mundu gefa honum sína tíu dalina hver ef hann fengi nú sofið hjá dóttur prófastsins um nóttina og sannað það með jarteiknum. Árni gefur þessu glensi lítinn gaum, en segir þá þó munu vilja efna orð sín ef til þess komi. Þeir játa því allir. – Eftir það fara þeir inn aftur og er Árna vísað til rúms hjá öðrum dreng innarlega í baðstofu, gegnt rúmi prófastsdóttur, en þó nokkru framar.

Þegar allt fólk er háttað og Árni heldur það muni sofnað, þá læðist hann hljóðlega frá rekkjunaut sínum, fer innar að hvílu prófastsdóttur og vekur hana hóglega. Hún vaknar skjótt og spyr hver þar sé. Árni segir til sín og biður hana hafa hljótt um sig. Hún spyr hvað hann vili. Hann segir henni þá upp alla sögu um viðtal þeirra félaga sinna og hverju þeir hafi heitið sér ef hann fengi samrekkt henni, en biður hana jafnframt að fyrirgefa sér dirfsku sína. „Illt mun það,“ segir hún, „að hjálpa þér eigi og máttu skríða hér undir klæðin hjá mér ef þú vilt, því að einu mun gilda hvar þú liggur.“ Hann fer nú upp í hjá prófastsdóttur og sofa þau af um nóttina; segir ekki frá hvað þau léku saman, en áður dagaði komst Árni aftur í rekkju sína svo að enginn verður var við.

Um morguninn inna félagar Árna til við hann hvernig honum hafi gengið við stúlkurnar; hann lætur vel yfir því og segir að þeir muni síðar fá að vita það gjör. Ei fá þeir meira af honum í það sinn.

Er nú svo sagt að vermenn sitja þarna hríðfastir fjóra daga samfleytt svo að þeim gefur aldrei á burt og sefur Árni hjá prófastsdóttur hverja nótt. Eftir það birtir hríðina og leggja vermenn þá upp. Borga þeir prófasti vel greiðann og kveðja hann síðan með virktum.

Nú halda Hrútfirðingar leiðar sinnar unz þeir koma suður í verstöður. Fá þeir Árna gott skiprúm og aflar hann vel um veturinn; ræðst hann nú kyr hjá formanni sínum til þess lokið sé vorvertíð, en ritar móður sinni norður að hún skuli senda sér hesta suður á lestunum, svo marga sem hann kveður á. Um vorið fékk hann og góðan hlut.

Líður nú fram til lesta og koma hestar Árna að norðan. Flytur hann vorhlut sinn norður, en leggur vetrarhlut sinn í kaupstað og tekur út á hann peninga og svo ýmsan nauðsynjavarning handa móður sinni. Segir ekki af ferðum hans fyr en hann kemur heim til Staðar. Fagnar móðir hans honum vel og þykir ferð hans góð orðin. Er hann nú heima um sumarið og tekur til búsforráða með móður sinni; var það brátt auðsýnt að hann mundi hvorki skorta fylgi né framsýni.

Um veturinn lýsir Árni enn yfir suðurferð sinni og er þá ei getið að móðir hans letti hann. Heldur hann nú á stað snemma á þorra og þeir flestir Hrútfirðingar er með honum höfðu verið veturinn fyrir. En sem þeir koma suður yfir heiði frétta þeir brátt þau tíðindi að prófastsdóttir í Stafholti hafi alið barn fyrir skemmstu og kennt það umkomulausum útróðrarstrák norðan úr Hrútafirði er þar hafi gist á suðurleið um veturinn áður; er þeim og sagt að foreldrar hennar hafi tekið sér þetta áfall mjög nærri eins og von sé til; sé prófastur bæði hryggur og reiður út af óláni dóttur sinnar og þessari vanvirðu allri saman og muni hann hafa allþungan hug til pilts þessa er svo hafi svívirt hann og dóttur hans. Norðlingar kveða þess alla von þó að slíkum höfðingja sem prófastur sé liggi þessi atburður eigi í léttu rúmi. En sem þeir koma í sinn hóp hafa þeir þetta í skimpingum við Árna og segja að hann muni ætla að koma við í Stafholti og finna tengdaföður sinn tilvonanda og unnustu sína. Árni bregzt vel við glensi þeirra og þykist nú kominn að kaupi því er þeir hafi heitið sér í fyrravetur. Þeir tóku misjafnt undir það; greiddu sumir honum féð, en sumir töldust undan og létust hafa mælt slíkt í gamni, en engri alvöru. Árni segir þeim fara eins og þeir sé drengir til, en rétt geti þeir þess að hann ætli að koma í Stafholt; segist hann eiga skylt erindi við prófast og ætla nú að biðja dóttur hans; lét það vænast til umbóta ef honum kunni að hafa þótt sér misboðið með fundi þeirra í fyrra. Félagar Árna segja hann eigi vera smáhugaðan og gera þeir að þessu gabb mikið, kölluðu líkara að prófastur muni ei neita sóma sínum og dóttur sinnar. Árni segir þeir þurfi ei að skopast svo mjög að þessu, því þenna muni hann ráðahaginn hljóta eða engan ella.

Þeir halda nú leiðar sinnar og koma að Stafholti snemma dags; þeir hitta þar menn að máli og gerir Árni boð fyrir prófast að hann vili finna hann. Prófastur kemur út og kveðja Norðlingar hann virðulega og Árni líka. Hann tekur stutt kveðju þeirra og verður þegar býsna ófrýnn er hann kennir Árna. Árni lætur sem hann sjái það eigi og tekur til orða: „Mér er sagt, prófastur góður, að ég muni eiga hjá yður krakka.“ Prófastur grípur skjótt málinu fyrir og segir með mikilli reiði: „Þú ert furðu djarfur að þú skulir þora að koma fyrir augu mér þar sem þú hefir smánað dóttur mína og gert mér og mínu húsi þá skömm og skapraun er mér mun seint fyrnast.“ Árni mælti: „Illt er það, herra prófastur, ef ég hefi verið svo óheppinn að styggja yður; en það er fornt mál að yfirbætur liggja til alls; er ég nú fyrir þá sök kominn hingað á yðvarn fund að ég vil biðja dóttur yðar mér til eiginkonu og bæta þannig slys mitt; virðist mér yður það sæmra ráð að gifta mér hana ef henni er það ekki móti skapi en að ausa yfir mig ónýtum orðum; því að vanséð er að betri menn verði til að biðja hennar héðan af, eins og nú er komið ráði hennar.“ Prófastur verður því æfari og mælti: „Dragstu í burt héðan, vondur falsari, og kom eigi framar fyrir augu mér. Miklu meiri svívirðing hefir þú gert mér en svo að þess sé nokkur von að ég muni gefa þér dóttur mína; muntu vera hið mesta fól og afglapi er þú dirfist að mæla slíkt, og væri maklegt að þú færir héðan eigi ómeiddur.“ „Ekki hirði ég um hrakyrði yðar,“ segir Árni, „en nú takið þér þann kost upp er öllum oss gegnir vel því að það vil ég segja yður sem eftir mun ganga að ég mun barna dóttur yðar í annað sinn að yður nauðigum, fyrst þér vilið eigi gifta mér hana viljugur.“ Prófastur segir að það skuli aldrei verða. Þreyta þeir þetta með kappmælum þar til þeir veðja um og leggja við hundrað spesíur hvor þeirra. Eftir það skilja þeir og biður hvorigur annan vel lifa.

Ríða þeir Árni og félagar hans leið sína; telja þeir mjög á Árna að hann skyldi vera svo heimskur að veðja slíku stórfé við prófast, og kalla eigi vænlegt um mægðirnar með þeim að svo búnu. „Sjaldan fellur tré við fyrsta högg,“ segir Árni, „og mun þetta betur fara en á horfist.“ Fella þeir félagar nú þessa ræðu, en halda fram ferðinni þangað sem ætlað var. Rær Árni enn til lesta hjá sama manni og fyrri og aflar ágæta vel. Því næst heldur hann norður með lest sína og situr heima um sumarið. Hann þokkast hverjum manni vel og þykir nú fyrir flestum ungum mönnum þar í sveit, bæði að mannkostum og atgjörvi. Hann gerðist og skartsmaður mikill í klæðaburði og reiðmaður; átti hann góða hesta og ól þá vel.

Einhvern dag um haustið býst Árni heiman og býr sig ítarlega að klæðum; hefir hann tvo hesta til reiðar og veit enginn hvert hann ætlar. Hann ríður nú sem leið liggur suður Holtavörðuheiði og allt í Stafholtstungur; kemur hann að kvöldi dags á næsta bæ við Stafholt og beiðist þar gistingar; er honum það til reiðu látið. Bóndi er málhreifur vel og ræðinn og fréttir Árna að heiti og svo hvaðan hann sé og hvert hann ætli. Árni nefnist Ólafur og læzt vera sendur af kaupmönnum á Akureyri suður til Reykjavíkur. Er honum nú veittur góður beini. Bóndi spyr hann margra hluta að norðan, en Ólafur leysir úr öllu, sumt satt, en sumt logið; þykir bónda og heimafólki hin mesta skemmtan að ræðum hans. Síðan fer Ólafur að spyrja bónda ýmsra tíðinda þar syðra; kemur hann svo ræðu sinni að þeir fara að tala um nokkra helztu menn og þar á meðal um prófastinn í Stafholti; lætur bóndi mikið yfir auðlegð hans og höfðingskap og allri stórmennsku. Ólafur spyr hvort hann sé kvongaður eður hvað hann eigi barna. Bóndi segir sem var. „Er hún væn kona dóttir prófasts?“ segir Ólafur. „Hún er bæði væn og vel mennt,“ segir bóndi, „en allmikið mein þykir mönnum á hag hennar.“ „Með hverju móti er mein það?“ segir Ólafur. „Hún átti barn í fyrra,“ segir bóndi, „með einhverjum óþokkastrák norðan úr Hrútafirði er þar hafði gist á verferð, ég trúi hann heiti Árni, og er annaðhvort að hann er fífl eða hann er djarfari en flestir menn aðrir því að í vetur var vissu menn ekki fyrri til en hann kemur blaðskellandi suður að Stafholti og biður prófastsdóttur til handa sér; lætur hann drjúgt yfir því að henni muni varla bjóðast betri maður. Þessi ósvífni varð prófasti að nýrri skapraun ofan á hitt sem komið var; synjaði hann skjótt ráðahagsins eins og von var til. En strákur fyrtist ekki við það, heldur bætti hann gráu ofan á svart og sagðist skyldu komast yfir prófastsdóttur í annað sinn að honum nauðigum fyrst hann vildi ei gefa sér hana með góðu. Um þetta veðjuðu þeir síðan sínum hundrað spesíunum hvor, skildu því næst í bræði og þar við stendur. Er þeim foreldrum stúlkunnar mikil raun að þessu öllu saman, en henni sjálfri óvirðing.“ „Þetta er illa farið,“ segir Ólafur, „og mikill blettur á svo vænni og velborinni stúlku; þyki mér engin furða þó foreldrar hennar taki sér þetta nærri,“ – og aumkvaði hann þau í hverju orði. Létta þeir nú þessu tali.

Um morguninn eftir var Ólafur lasinn, en veður kalt og hryssingslegt; biður hann því bónda að hann megi hvíla sig þar um daginn og segist munu borga honum greiðann. Bóndi segir það velkomið. Að áliðnum degi tekur veður að batna, en Ólafur að hressast; segir hann þá við bónda að með því liðið sé á dag þá nenni hann eigi að leggja upp fyr en með morgninum, en segist ætla að ganga sem snöggvast heim að Stafholti sér til skemmtunar og heilsa upp á prófast; þyki sér næsta ófróðlegt að fara þar hjá garði og sjá eigi slíkan höfðingja og híbýli hans. Bóndi kvað þetta vel talað og viturlega.

Árni gengur nú heim á staðinn og hefir hatt síðan svo að ógjörla sá í andlit honum. Enginn var úti á staðnum. Árni gengur að fjósgarði og verður þess var að þar er maður að eiga við hey. Hann heilsar þessum manni; hinn tekur því og spyr komumann að nafni. Hann lézt Árni heita og eiga heima norður á Stað í Hrútafirði. Maðurinn brosir við er hann heyrir þetta. Árni tekur nú upp úr vasa sínum tuttugu spesíur, leggur þær í lófa fjósamanni og mælti: „Ég ætla að biðja þig tveggja bæna, maður minn.“ Hinn verður léttbrýnn við skildingana og spyr hverjar þær sé. Árni segir: „Sú er hin fyrri að þú felir mig um litla stund hérna einhverstaðar á afviknum stað, en hin önnur er sú að þú komir prófastsdóttur þangað til fundar við mig svo að enginn viti.“ „Torveld þyki mér seinni bænin,“ segir fjósamaður, „því að prófastur hefir strangar gætur á dóttur sinni síðan þið veðjuðuð í vetur leið. Eða hefir nokkur orðið var við komu þína heima?“ „Nei,“ segir Árni. „Þá mun ég við leita að hjálpa þér,“ segir fjósamaður, „að hverju sem það verður, og komdu með mér skjótt.“ Því næst leiðir hann Árna inn í fjós og biður hann bíða sín þar, en fer burt síðan. Þegar góð stund er liðin kemur stúlka í fjósið og kennir Árni brátt að þar er komin prófastsdóttir. Verður þar fagnaðarfundur og segir hvort öðru hið ljósasta af högum sínum. Þarna dvöldu þau litla stund og vissu eigi aðrir menn hvað þeim fór á milli; síðan skildu þau. Snýr prófastsdóttir inn aftur, en Árni til bæjar síns. Varð enginn maður í Stafholti var við komu hans nema þau prófastsdóttir og fjósamaður.

Þegar prófastsdóttir kemur inn er faðir hennar heldur styggur við hana og spyr hvar hún hafi verið allan þennan tíma. Hún lézt hafa setið fram í stofu við sauma sína; hann lét sér fátt um finnast og skildu þau talið.

En það er að segja af Árna að hann borgar bónda vel gistinguna, kveður síðan og ríður leið sína sem hann lézt ætlað hafa. En jafnskjótt og leiti bar af snýr hann aftur norður á leið. Segir ekki af ferð hans fyr en hann kemur heim. Situr hann nú um kyrrt fram eftir vetrinum.

Á þorra býst Árni til suðurferðar að vanda og lætur nú vinnumann þeirra mæðgina einn fara með sér. Rær hann enn í sama skiprúmi sem fyrri og báðir þeir. Fær hann enn góðan afla, bæði um veturinn og vorið. Flytur hann vorhlut þeirra norður, það sem kemst á hesta hans, en ver afganginum í peninga og aðrar nauðsynjar og svo vetrarhlutnum öllum. Var það allmikið fé og tók Árni nú mjög að auðgast, bæði að gripum og gangandi fé. Líður nú sumarið svo að ei bar til tíðinda.

Um haustið berst sú fregn norður til Staðar að prófastsdóttir í Stafholti hafi alið barn í annað sinn og kenni Árna á Stað eins og fyrri. Það fylgir og þessari tíðindasögn að prófastur sé hamslaus af bræði yfir þessari svívirðing dóttur sinnar og sé nú orðinn henni svo harður að haldi við voða sjálfan. Þetta þykir Árna illt að heyra, en hefir þó fátt um. Líður nú veturinn fram að útmánuðum. Vill þá móðir Árna ei að hann fari suður, kveðst ei mega missa hann lengur frá umsjón bús þeirra þar sem þau hafi nú svo mikið umleikis; skuli hann heldur láta einhvern vinnumann þeirra róa, en vera sjálfur heima. Árni segist muni fara í þetta sinn sem hann sé vanur, en það skuli líka verða í seinasta sinni. Verður nú svo að vera sem Árni vill. Býst hann því næst til suðurferðar með annan mann eins og fyrri, en biður móður sína að senda annan vinnumann þeirra sem hann til tekur, með hesta þeirra suður á lestunum því að svo kunni að standa á að hann geti eigi sjálfur verið með lestinni norður. Hún játar þessu og kveðjast þau eftir það.

Árni heldur nú suður og nokkrir Hrútfirðingar með honum; er hann nú svo sem forsprakki þeirra. Þeir koma einn dag að Stafholti. Árni gerir prófasti orð að hann vili finna hann. Prófastur kemur út og heilsar Árni honum, en prófastur tekur ei kveðju hans. Árni mælti: „Það er erindi mitt við yður, prófastur góður, að tala um börn mín; munu þér þykjast eiga hjá mér fúlgu þeirra, enda skal hún til reiðu. Er það nú komið fram um viðskipti okkar sem ég sagði yður næstum, en þó vil ég enn bjóða yður hið sama boð eins og fyrri, að ég gangi að eiga dóttur yðar og tökum við upp vináttu með tengdum.“ Þegar prófastur heyrir þetta verður hann svo reiður að hann má varla mæla; en sem hann fær orði upp komið segir hann: „Engin von er þess að ég muni gefa dóttur mína slíkum mannhundi sem þú ert; skulu þið því síður ná að njótast að aldrei skaltu fá að sjá hana eða börn ykkar, og enga meðgjöf vil ég með þeim nýta af þinni hendi.“ „Það er þá bezt,“ segir Árni, „að þér takið fúlgu þeirra fyrst um sinn undir sjálfum yður: veðféð sem þér hafið nú tapað.“ Við þessi orð rýkur prófastur inn, en kemur að vörmu spori út aftur með hundrað spesíur, fleygir þeim í Árna og mælti: „Farðu nú til fjandans frá augum mér og komdu aldrei aftur.“ Árni hirðir féð og segir: „Ég hefi verið sjálfráður ferða minna hingað til og svo vænti ég að enn verði, en það má ég segja yður, prófastur minn, sem eftir mun ganga, að þess meir sem þér hatizt við mig, því verra hlut munu þér hafa af viðskiptum okkar, og komast skal ég enn yfir dóttur yðar í þriðja sinni hversu sem yður líkar.“ „Það skal þér aldrei takast,“ segir prófastur. Þreyta þeir þetta með kappmælum til þess að prófastur veðjar enn hundrað spesíum. Árni leggur við jafnmikið og segir sér þyki því betur sem prófastur tapi meira. Varð nú ekki af kveðjum með þeim að skilnaði. Alltíðrætt varð mönnum um þessa viðureign þeirra prófasts og Árna og þykir flestum Árni vera furðu djarfur. En það er frá honum að segja og þeim félögum að þeir halda suður. Rær Árni þar um veturinn og vinnumaður hans líka.

Um vorið lætur Árni vinnumann sinn vera kyrran í skiprúmi sínu til lesta, en fer sjálfur inn í Reykjavík og kemur sér þar í búð því að hann var orðinn vel að sér bæði í riti og reikningi; berst hann nú allmjög á og gengur á frakka sem aðrir verzlunarmenn. Hann dvelst nú í Reykjavík um vorið. Þar kaupir hann sér allan kvenklæðnað vandaðan sem bezt, svo að vel mátti sæma mikils háttar konu, og kvenreiðtygi með. Á lestunum sendir móðir hans honum mann og hesta eins og þau höfðu gert ráð fyrir. Býr Árni þá upp á lest sína og lætur manninn halda með hana norður og verða samferða sveitungum þeirra, en hann dvelst sjálfur eftir með útróðrarmann sinn og fimm hesta. Fám dögum síðar leggur hann á stað úr Reykjavík; höfðu þeir einn hest undir kofortum og sína tvo hvor til reiðar. Hestar Árna voru aldir og klipptir.

Segir ekki af ferðum þeirra fyr en þeir koma upp í Stafholtstungur seint á degi. Þar stígur Árni af baki á afviknum stað eigi alllangt frá Stafholti. Segir hann þá fylgdarmanni sínum hvað hann ætlist fyrir og biður hann að reynast sér nú trúr; hinn lofar því. „Ég ætla,“ segir Árni, „að látast vera biskupsdóttir norðan frá Hólum, en þú skalt vera meðreiðarmaður minn.“ Fer Árni nú í kvenbúnaðinn, þann er hann hafði með sér haft að sunnan, og býr sig að öllu sem bezt, en fær fylgdarmanni frakkaföt sín. Árni var lítill maður vexti og fríður sýnum, enda var honum lítt sprottin grön þar sem hann var enn eigi tvítugur að aldri; mátti því engan gruna annað af útliti hans en að það væri kona. Fylgdarmaður Árna leggur nú kvensöðulinn á annan eldishestinn, en felur þar reiðtygi hans. Að því búnu ríða þeir heim að Stafholti. Tekur meðreiðarmaður jungfrúna af baki með mikilli lotningu. Heilsa þau heimamönnum er úti voru staddir. Þeir spyrja meðreiðarmann í hljóði hver hún sé þessi sem með honum sé. Hann segir það sé biskupsdóttir frá Hólum og sé hún á leið suður til Reykjavíkur. Eru nú þessi tíðindi skjótt sögð í bæinn. Prófastur kemur þegar út berhöfðaður og heilsar biskupsdóttur blíðlega og biður hana hafa lítillæti að ganga í stofu. Hún þiggur það; er prófastur harðla stimamjúkur við hana og ræðinn og fréttir hana margs að norðan. Hún leysir vel úr því öllu með greind og kurteisi. Kveðst hún hafa heyrt mikið sagt af auð og höfðingskap prófastsins í Stafholti og húsfrúr hans og fyrir því hafi hún riðið þennan afkrók sér til skemmtunar, en aðrir samferðamenn sínir hafi haldið áfram suður fjöll. Virðist sér nú þegar af því er hún megi sjá að hér muni allt fara saman: staðarprýðin og stórmennska og kurteisi húsráðenda; fer hún um þetta mörgum fögrum orðum. Prófastur gengst mjög upp við lofið og biður hana auðmjúklega að sýna lítillæti sitt og þiggja hjá sér gistingu þó það verði nú allt í veikleika fyrir sér að veita henni þann beina er tign hennar sæmi. Hún kveðst það gjarnan vilja þiggja og þakkar prófasti kurteislega boðið. Kemur nú prófastskonan einnig í stofu og kveður biskupsdóttur með miklum virktum. Er nú biskupsdóttur borð sett með fögrum búnaði og dýrum réttum og ekkert til sparað að veita það er föng voru á. Finnst prófasti mikið um allt athæfi og kurteisi biskupsdóttur og eigi síður um viturleik hennar. Líður nú tíminn fram að kvöldi með gleði og góðri skemmtan. Um kvöldið segja þau hjónin við biskupsdóttur að hún muni að líkindum vera þreytt af reiðinni og sé henni því velkomið að ganga til hvílu þegar henni þóknist. Hún tekur því með þökkum, en segir sér sé kærra að mega sofa inni en frammi ef svo standi á, og í annan stað sé hún aldrei vön að sofa ein; þætti sér því betur ef einhver stúlka mætti hvíla hjá sér; biður hún þau hjónin auðmjúklega að fyrirgefa sér þessa sérvizku og að hún geri sig svona heimakomna; enda finnist sér einhvern veginn eins og hún sé hér í foreldrahúsum. Þau hjónin svöruðu bæði senn að þau vildi að svo væri og sé sér hjartanleg ánægja að gera henni þetta til vilja; en þá verði þau að dirfast að biðja hana að hvíla sig inni hjá dóttur sinni þó henni sé það að engu leyti boðlegt. Biskupsdóttir segir að sér sé þetta tilboð mjög kært, allra helzt fyrst hún hafi ekki ennþá hlotið þá ánægju að fá að sjá dóttur þeirra. Prófastur blæs við þungan og segir það sé nú mesta mæðan sín hvernig komið sé fyrir henni. Segja þau hjónin biskupsdóttur nú upp alla sögu um barneignir hennar og tjá fyrir henni með mörgum orðum hverja raun þau hafi af þessu óláni dóttur sinnar, og þess vegna hafi hún ekki komið fram í dag að þau fyrirverði sig að láta góða menn sjá hana, enda geti hún sjálf upp á engan ókunnugan mann litið fyrir blygðunar sakir; geti þau og varla látið biskupsdóttur sjá hana, því síður hvíla hjá henni, þó svo verði nú að vera. Biskupsdóttir segir sér hvort tveggja jafnkært eins fyrir það þó hún hafi ratað í þessa mæðu, en full vorkunn þyki sér á að þetta taki á foreldra hennar; þó sé það hugboð sitt að einhverjar bætur muni ráðast á þessu böli. Fellur nú þessi ræða niður, en þau hjón fylgja biskupsdóttur inn í svefnhús dóttur sinnar og var þar allt vel fyrir búið. Herbergi þetta var innar af svefnhúsi þeirra hjónanna; hafði prófastur látið gera það eftir að þeir Árni veðjuðu í seinna sinni svo hann fengi þess betur gætt dóttur sinnar. Læsti hann því jafnan sjálfur á kvöldin og tók úr lykilinn. Þegar biskupsdóttir kemur inn stendur prófastsdóttir upp í móti henni og heilsast þær blíðlega. Segir prófastskonan við dóttur sína að biskupsdóttir ætli að sýna þeim þá virðingu að hvíla þar hjá henni í nótt og skuli hún þjóna henni í öllu sem bezt hún kunni. Prófastsdóttir mælti: „Það er sjálfsagt, móðir góð, fyrst þér segið mér það.“ Því næst bjóða þau hjónin biskupsdóttur góðar nætur, en þær sofa þar um nóttina jómfrúrnar og segir eigi af hvað þeim fór á milli. Um morguninn eftir rísa þær úr rekkju og er þá ei minna um dýrðir en áður um kvöldið. Biðja þau hjónin þá biskupsdóttur að dveljast hjá sér um daginn og hvíla sig; og það verður af að hún þekkist það. Leita þau henni skemmtanar sem bezt þau kunna og sýna henni öll sín auðæfi, bæði úti og inni. Lætur biskupsdóttir sér mikið um finnast og lofar þau hjón í hverju orði. Dvelst hún þar nú í tvo daga í bezta yfirlæti og sefur hjá prófastsdóttur á hverri nóttu. Hinn þriðja dag býst biskupsdóttir til ferðar; þakkar hún þeim hjónum með virktum alla þá vild og vináttu er þau hafi sýnt sér og kveðst þeirra rausn og höfðingskap skulu við bregða. Vill nú prófastur láta taka sér hest og ríða á veg með biskupsdóttur, en hún fær svo um talið að hann lætur sér nægja að ganga með henni úr garði. Kveður nú biskupsdóttir þær mæðgurnar með blíðu og datt engum í hug að taka til þess þó hún kyssti prófastsdóttur að skilnaði, en prófastur fylgir henni berhöfðaður út fyrir garð og þar kveður hann hana með mestu virktum og biður hana að veita sér þá sæmd og ánægju að ríða um hjá sér þegar hún komi aftur að sunnan. Hún heitir því og skilja þau að svo mæltu.

Þeir Árni ríða nú þangað sem reiðtygi hans voru falin og hafa þar klæðaskipti; eftir það stíga þeir á bak og ríða heim norður. Situr Árni nú heima um sumarið og svo um veturinn eftir, en lætur tvo vinnumenn sína róa suður.

Um vorið eftir er svo sagt að Árni væri kosinn hreppstjóri í Hrútafirði. Hafði hann nú alveg tekið við búi móður sinnar og var nú eigi annar maður meira virður þar í sveit en hann, bæði sakir fjár og vinsælda. Um sumarið berst sú fregn til eyrna honum sunnan frá Stafholti að prófastsdóttir sé búin að ala barn í þriðja sinni og kenni það nú biskupsdóttur norðan frá Hólum; er það sagt með að foreldrar hennar sé bæði hrygg og reið yfir þessum óförum dóttur sinnar og sé nú prófastur orðinn henni svo harður og vondur að henni sé varla viðvært, en vel láti hann fara með börn hennar. Er margt talað um þetta mál og lætur Árni sem hann heyri það eigi.

Líður nú sumarið fram undir göngur. Þá biður Árni tvo góða bændur þar í sveitinni til ferðar með sér suður yfir heiði. Þeir heita förinni og koma til Staðar að ákveðnum degi. Er Árni þá og búinn til ferðar; hefir hann hest með kvensöðli á, en töskur á öðrum. Ríða þeir nú allir samt suður yfir heiði og koma í Stafholt. Þeir hitta þar menn að máli og biður Árni segja prófasti að hann vili hafa tal af honum. Prófastur kemur seint út og verður ekki af kveðjum. Árni kveðst þar kominn hins sama erindis og fyrri, að bjóða honum sættir og biðja dóttur hans. Prófastur bregzt við afar reiður og rýkur upp á Árna með hinum verstu fúkyrðum, kallar hann falsara og flagara og öllum illum nöfnum svo Árni fær engum orðum við hann komið. Hann biður þá einhvern heimamann að ganga fyrir sig inn og skila til prófastsdóttur að hann biði hana að ganga út til tals við sig. Maðurinn gerir svo og kemur prófastsdóttir brátt út. Árni heilsar henni blíðlega og biður hana nú segja sér hvort hún vili nú heldur, vera hér kyr hjá foreldrum sínum við þau kjör sem hún hafi eða koma með sér norður til Staðar og verða kona sín. Hún kýs fljótt hinn síðara kostinn. Árni gengur þá að ferðaskrínum sínum, tekur þar upp úr kvenbúnað harðla skrautlegan og fær henni; biður hann hana fara í klæði þessi, en láta sín þar eftir. Hún gerir nú svo. Ei er þess getið að prófastur legði nokkurt orð í ræðu þeirra eða reyndi neitt til að hindra burtför dóttur sinnar. Setur Árni nú Áslaugu á bak, en í því kemur móðir hennar út með lítinn kistil, fær hann dóttur sinni og segir að hún megi þó eigi minna hafa úr föðurgarði en pallkistilinn sinn. Áslaug þakkar móður sinni og kveður hana vel. Eftir það stíga þeir Árni á bak; en áður hann ríður úr hlaði kastar hann orðum á prófast og segist nú fara með dóttur hans hvort honum líki betur eða ver; fái hann hana og aldrei aftur að sér lifanda, en veðfé þeirra hið síðara eigi hann hjá honum og skuli það vera fúlga með börnum sínum til vorsins, en þá muni hann sækja þau líka. Er þá ei getið andsvara prófasts og skilja þeir Árni við svo búið. Ríður nú Árni norður til Staðar með unnustu sína og gengur þegar að eiga hana um haustið. Er brúðkaup þeirra haldið þar heima á Stað með hinni mestu rausn og prýði; unnast þau brátt mikið og una nú vel hag sínum. Svo er sagt að í kistli þeim er Áslaug hafði úr föðurgarði væri fjögur hundruð spesíur og allmikið kvensilfur að auki. Situr Árni nú í búi sínu um veturinn.

Um vorið eftir þá vegir eru orðnir færir ríður Árni enn suður að Stafholti og finnur prófast tengdaföður sinn að máli; segist hann nú kominn þess erindis að sækja börn sín eins og hann hafi ráðgert um haustið, enda þurfi hann eigi að prófastur fóstri þau lengur. Prófastur var nú allur hægri en fyr þó honum væri þungt niðri fyrir og segir hann við Árna: „Seint leiðist þér, Árni, að gera mér bæði skömm og skapraun; fyrst glaptir þú dóttur mína með slægð og vélum og rændir henni síðan með ofbeldi, og nú viltu ekki einu sinni unna mér þeirrar ánægju að hafa börn hennar hjá mér mér til skemmtunar.“ Árni svarar: „Að vísu er það satt að skipti okkar hafa hingað til farið miður en skyldi, en þér megið kenna sjálfum yður mikil völd á því þar sem þér hafið engum sáttum viljað taka; hefi ég eigi getað boðið yður betri yfirbætur en að eiga dóttur yðar og ganga yður í sonar stað; en þessu hafið þér neitað sakir drambs og stórmennsku. Á hinn bóginn var mér allmikil vorkunn þó mér yrði það að neyta nokkurra bragða til að ná svo góðum kosti sem dóttir yðar er; fengum við og þegar í upphafi þá ást hvort á öðru að við fundum það glöggt að öll farsæld okkar og ánægja væri þar undir komin að við fengim að njótast. Munu það og sumir menn mæla þar nyrðra að dóttir yðar sé ei svo mjög vansæmd af mér ef rétt er á litið, þótt ég sé í bændastétt, enda mun nú verða að standa við það sem komið er. En það má yður varla þykja undarlegt þó ég hafi eigi skap til að þiggja af yður barnfóstur meðan þessi óvild sjatnar ekki sem nú er milli okkar.“ Ræða þeir nú nokkru fleira um þetta og tekur prófastur heldur að mýkjast og býður Árna loks inn. Hann þekkist það, og kemur þar um síðir með umtölum konu prófasts að þau sættast þar öll saman heilum sáttum, og verður Árni því feginn. Er hann þar um nóttina og fer nú allt vel með þeim prófasti. Semst svo með þeim að elzta barnið skuli vera eftir hjá afa sínum og ömmu, var það sveinn og hét Jón, en Árni hafi yngri börnin með sér. Vill nú prófastur greiða Árna heimanmund dóttur sinnar, en Árni vill það eigi og segir sig ekki fé skorta; skuli prófastur varðveita þetta fé til handa Jóni syni sínum. Lætur prófastur þetta svo vera sem Árni vildi og skilja þeir nú vinir. Kveður Árni vel tengdaforeldra sína og ríður síðan heim með börn sín hin yngri og sezt nú um kyrrt, en Jón er eftir með afa sínum og elst þar upp. Unni prófastur honum mikið og setur hann til mennta þegar hann hafði aldur til. Er mælt hann hafi síðan orðið aðstoðarprestur hjá afa sínum og fengið loks staðinn. Árni bjó með konu sinni að Stað til elli og þótti jafnan gildur bóndi. Lýkur svo þessari sögu.