Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Saga af Hafliða bónda í Grindavík

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Saga af Hafliða bónda í Grindavík

Árið 1404 bjó sá maður á Þórkötlustöðum í Grindavík er Hafliði hét, en kona hans Guðrun Rúnólfsdóttir; voru þau vel auðug af peningum, fríðum og dauðum. Þetta sama ár kom skip af hafi gegnt Grindavík svo stórt að menn þóttust ei annað slíkt séð hafa á þeim dögum þar koma. Hafliði sér þetta hið stóra skip, heitir á menn og segist vilja vita hvaða fólk þetta sé. Verða þeir saman tólf, taka áttæring er Hafliði átti, setja til sjóar og róa nú hið glaðasta er mátti. En sem þeir komu þar nærri er þeir sjá skipið, þykir þeim það heldur stórt og ekki svo friðsamlega útbúið, með fjörutíu fallstykkjum á hvert borð. Vilja nú sumir aftur snúa, en Hafliði segir það ei gegna, því svo snart sem hinir sjái það – séu þeir annars ómildir – gjöri þeir ei annað en skjóta á þá með gaflokum og skotum, og megi því ei undanróðurinn takast. „Hitt ræð ég heldur til skipsins að leggja og taka við því sem að höndum ber.“ Gjöra þeir svo; en sem þeir komu undir skipið sjá þeir mikinn mannfjölda uppi á því dansandi og leikandi. Eru síðan krókar ofan settir og skip þeirra upp halað með öllu saman. Skilur Hafliði þar engvan mann. Sér hann nú kaptein í þessu og teiknar hann til einhvörs, en að því búnu eru allir hans fylgjarar teknir og allir fyrir borð höggnir og virtist Hafiða sem kapteinn mundi horfa á þetta með fögnuði. Talar hann til manna sinna og segir þeir skuli bíða lítið, kallar á Hafliða á íslenzku, spyr hann að ætt og nafni. Hafliði sagði allt sem var; hann spyr hann að hvað kona hans heiti. Hafliði greinir frá því. Kapteinn svarar: „Ef þú lýgur að mér skaltu sömu för fara sem fylgjarar þínir, getir þú ei sannað sögu þína.“ Hafliði segir lítið muni um það verða, tekur síðan upp bréf er þeim hafði báðum til skrifað verið og sýnir honum. Hann leit á og mælti: „Eftir því að þetta er hvað öðru samkvæmt skaltu vera mér velkominn til vistar og veru því þegar ég var páll (pall) í Grindavík gjörði þín kona mér mikið gott og skaltu þess njóta,“ – tók síðan Hafliða og hélt í góðu yfirlæti, lét í haf og sigldi góðan vind. Hafði kapteinn ætíð vakandi auga á Hafliða.

Einn fagran veðurdag sjá þeir skip sigla gegnt sér, en kapteinn skipar hið fljótasta að vinda áveðurs við þá og lét því næsta skjóta stykki fyrir aftan þá og framan; gáfu hinir sig upp. Lét kapteinn ganga á borð hjá þeim og þar eftir þá alla fyrir borð höggva; aldrei sagðist Hafliði mannvænligra fólk séð hafa, ræntu síðan skipið og settu á það fallstykkisskot og skildu svo við það, sigldu eftir það víða, ræntu marga kaupmenn og fóru óþyrmiliga með þá.

Um síðir sáu þeir skip miklu stærra en það þeir á vóru. Sigla hverjir mót öðrum þar til skipin vóru saman lögð, en svo var mikill vaxtarmunur skipanna að Hafliða skipskarfa náði rúmt upp að fallstykkjagrindum á hinu, hvörjar hann sagði svo háar hefðu verið að sætt hefðu sex álnum upp frá öldustokki. Var nú kapteinn mjög æfur og iðandi til og frá sem ætíð var hans vandi þá vígahugur var á honum. Töluðu kapteinar saman sem Hafliði skildi ekki neitt í. Þar eftir var skenkt á þrjú staup víni er þeir saman drukku og var drykkur sá blóðrauður. Eftir það grýttu þeir staupunum í sjóinn. Hafliði spyr til hvers þetta þénaði. Kapteinn segir: „Það kallast slagsmerki.“ Segir kapteinn Hafliða að hann skuli niður leggjast í skip og ekkert láta á sér bera. Hafliði segist ekki geta að því þjónað, sagðist heldur vilja sjá hvað fram færi í slagnum og kvaðst til gjöra það hann gæti. Var nú í herlúður blásið. Segir kapteinn Hafliða að fara upp í reiðann og gjöra þar allt illt af sér er hann gæti með tveimur fallstykkjum, „en heyrir þú mig,“ segir kapteinn, „blása í lúður minn niðri, ver þá ofan kominn hið fljótasta þú getur.“ Var þar næst með korðum allhraustlega slegizt, en Hafliði fer eftir kapteins leiðsögu og hleypir af öðru stykkinu, hvort er afsetur allan rump af skipi óvinanna með kahyttuumbúningi; féllu þá og margir menn af þeim sem næstir stóðu. Lætur hann þar næst annan fjúka, hvert eð skar í sundur öll reiðabönd með möstrum, og í því heyrir hann lúðurinn kveða við fyrir neðan sig. Rennir hann sér þá ofan á handlínu í einum svip unz hann er ofan kominn. Setja óvinirnir af skot í allan reiðann og hann út í sjó. Standa nú eftir skrokkarnir tómir; er nú barizt allharðliga, en þó lýkur svo um síðir að ekki lifir eftir af þeim utan Hafliði og kapteinn. Eru þeir síðan handteknir og ofan í skip látnir. Bjuggu nú víkingar um sár sín og ganga til náða, en hugðu að ryðja skipin af mannabúkum að morgni.

Nú er af þeim Hafliða að segja að þeir liggja fjötraðir. Veit Hafliði ei fyrr en kapteinn er laus orðinn og leysti Hafliða og biður hann upp standa, hvað hann og gjörir; gengu þeir svo upp á skip. Ekki var nema ein lúka opin, en vaktir engvar uppi því fólkið var bæði sárt og þreytt og andvaralaust fyrir öllum háska. Kapteinn tekur lúðurinn og blæs. En er skipsfólkið heyrði hljóðið brá það skjótt við og á fætur í einum hasti og upp um þá eina lúku sem opin stóð, en jafnótt hjuggu þeir hvorn mann er upp kom, þar til enginn var lífs eftir. Áttu þeir nú sigri að hrósa þótt lítt staddir kallast mættu. Að morgni ryðja þeir þann betra skipsskrokkinn og báru þangað allt af hinum sem fémætt var, hjuggu hann svo úr tengslum og létu hvert reka er vildi. Gekk þetta svo í heil níu ár að þeir sáu hvergi land né skip og gjörðu ei annað en spila og tefla; þá skorti ei heldur allra handa sælgæti.

Um síðir litu þeir fagurt land; vindur bar skipsskrokkinn þar á. Sáu þeir þá utan að þeim fara ótölulega marga smábáta er þá umkringdu, höfðu sinn krókstjaka hver maður og sungu hástöfum: „Undir kóng, undir kóng,“ – og með þessum réru þeir skrokkinn að landi, segjast skilja að þetta sé England. „Munum vér heppnir þykjast ef lifandi komumst héðan aftur. Skulum við taka það við getum af okkar dúkötum komið, kunni það að lukkast.“ En sem skipið er landfast orðið eru þeir báðir teknir og fyrir kóng hafðir og af honum spurðir hvaða manna þeir væru. Kapteinn segist heima eiga á Hollandi, en félagi sinn sé íslenzkur maður. Sem kóngur heyrði það svarar hann: „Þar fyrir skuluð þið báðir dauðann hljóta, því Englandsdugga var fyrir stuttu við Ísland rænd og hefur engin hefnd fyrir komið og skal það hér niðri ná.“ Skipaði kóngur að kasta þeim í myrkvastofu, hvað eð gjört var. Voru þeir þar fram til nætur. Kapteinn segir við Hafliða. „Ei mun henta hér lengi að liggja; skal ég nú reyna list mína,“ – gengur til dyra stofunnar og sýndist Hafliða hún sjálf upp ljúkast. Gengu þeir svo út á milli vaktaranna svo þeir urðu ei við varir og þaðan á burt. Getur ei um ferðir þeirra fyrr en þeir koma að einni elfu og fundu þar ferjumann. Kapteinn bað hann flytja þá yfir elfuna. Hinn sagði svo skyldi vera ef hann fengi kaupið. Kapteinn segir hann skuli fá það að skilnaði. Flutti maðurinn þá yfir um; kapteinn galt honum ríkulega kaupið með því að hann drap hann. Svo gengu þeir þar til að þeir komu í einn þröngvan skóg. Þá segir kapteinn: „Nú er ei lengra fært því á gestum á ég von á eftir, og hafir þú nokkurn tíma dugnað sýnt muntu þess nú þurfa.“ Fóru þeir upp í eina eik mjög stóra er þar stóð og einn á hverja grein. Því næst sjá þeir tvo jagthunda nær því svo stóra sem naut, hvörjir að nösuðu í för þeirra og þangað er þeir fyrir voru og sóktu sinn að hverjum svo þeir þóttust ekki í þvílíka raun komizt hafa. Þar til stóð það að Hafliði féll máttlaus niður af mæði ofan úr eikinni og á jörð niður í ómegin. Vissi hann ei fyrr til en kapteinn dreypti á hann víni. Vitkaðist hann þá og sá báða hundana dauða, en kapteinn sagði honum að í því hann hefði dottið hefði hann drepið þann er að honum sótti og á sama augabragði ofan að hans hundi stokkið og höggvið af honum allt trýnið fyrir ofan augun og með öðru höggi á háls honum.

Eftir langa hvíld fóru þeir til ferðar og varð ei neitt að tálman þar til þeir komu heim í Holland. Átti kapteinn þar góz og garða, einnin kvinnu af eðalbornu slekti. Settist hann nú um kyrrt og virti engan til líka við Hafliða og spyr hann að hvort hann vilji heldur staðfestast þar eða fara til Íslands. Hafliði sagði sér væri í hug að vita hvört fólk sitt lifði í sínu landi. Kapteinn segir hann því ráða verða, þó sér væri miklu þægra að hann þar væri. – „en þar þú í burtu fer bið ég þig einnar bónar sem er að drepir ei svo neinn mann þó þér í skap renni svo þú ei hafir tal af honum áður, því jafnskapbráðari ertu nú orðinn en áður varstu.“ Hafliði lofar það halda. Bjó kapteinn svo út skip alfræktað af gózi og skipað mönnum er fylgdu honum til Íslands og gaf hönum alla fræktina. Skildu þeir með mesta kærleika. Getur ei um ferðir þeirra fyrr en þeir komu undir Grindavík. Lét Hafliði setja sig strax á land og var það á sunnudagsmorgun. Hann gekk heim til bæjarins. Fólk var ei á fætur komið, en opinn stóð bærinn því þetta var um vortíma. Gengur hann kunnuglega inn í sitt sængurhús. Þekkir hann þá konu sína og mann fyrir framan hana. Hugsar hann að hún muni gift vera, dregur út korða og ætlar að gjöra bráðan hjónaskilnað. Kom honum þá til hugar hvað hans stallbróðir hafði fyrir hann lagt og hefti sig á verkinu og vakti þau. En er þau sáu hann skelfdust þau við. Hafliði spyr hana að nafni. Hún sagðist Guðrún heita, – „og er þetta sonur minn er ég gekk með þá maður minn fór frá mér og hef ég ætíð látið hann sofa hjá mér síðan. Er hann nú átján vetra, en hver [er] sá höfðingi er við mig talar?“ Hann sagðist Hafliði heita, – „og er ég þinn ektamaður,“ en hún trúði ekki fyrri en hann varð að leggja út við hana eið að svo væri sem hann segði. En er hún vissi þetta þótti henni upp renna sól í heiði eftir dimma nótt. Lét hann bera föng sín af skipi og héldu sendimenn sína leið aftur. Hann settist um kyrrt að búi sínu og var orðinn vel ríkur, en miklu þótti mönnum hann vanstilltari en áður ef við einhvern átti illu að skipta – og ljúkum við svo frá Hafliða bónda að segja.