Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sagan af Guðbrandi Hólabiskupi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af Guðbrandi Hólabiskupi

Þegar Guðbrandur biskup var nýkominn til Hólastóls ferðaðist hann suður í Skálholt og lá þá leið hans um Kalmanstungu; tjaldaði hann þar hjá vellinum og var þar nætursakir. Þá bjó í Kalmanstungu fátæk ekkja; hún átti sjö börn og hét hið elzta Helga og var þá á nítjánda ári; hún geymdi búfjárins. Um morguninn fóru sveinar biskups til hesta og var hann einn eftir [í] tjaldinu; gekk hann þá út og sá fjárhnapp rekinn framhjá tjaldinu og fylgdi því stúlka svo fögur að biskup þóttist aldrei hafa séð svo fagra mær þó fátæklega væri hún búin. Biskup heilsar henni og spyr að nafni; hún kvaðst heita Helga og vera dóttir ekkjunnar í Kalmanstungu. Biskup spyr hana hvort hún eigi vilji koma inn í tjaldið til sín og þiggja góðgjörðir. Hún játti því, en var þó feimin. Nokkra stund voru þau inn í tjaldinu; en er þau skildu segir hún: „Það mun nú svo komið að ég mun barnshafandi orðin og vildi ég vita hvern ég ætti að lýsa föðurinn.“ Biskup segir: „Guðbrandur heiti ég og á heima á Hólum í Hjaltadal.“ „Hvernig skal ég þá með fara,“ segir Helga, „ef svo fer sem nú hefur verið til stuðlað?“ „Þú skalt,“ segir biskup, „sjá fyrir barninu í æsku, en sé það drengur skaltu nefna hann Guðmund og senda mér þá hann er þrévetur. En verði það stúlka skaltu nefna hana Guðrúnu og senda mér þá hún er sex vetra.“ Síðan kvöddust þau og hélt biskup leiðar sinnar.

Að níu mánuðum liðnum fæddi Helga meybarn mikið og frítt og lét hún skíra það Guðrúnu, en um faðernið gat hún ekki annað sagt en að einhver Guðbrandur frá Hólum ætti það. Stúlkan var með henni þar í Kalmanstungu þangað til hún var sex vetra, en þá vildi Helga ekki lengur íþyngja fátækri móður sinni og hugsar sér nú að leita föðursins og fá meðgjafarstyrk með barninu. Fer hún nú af stað og reiðir barnið. Getur ekki um ferð hennar fyrr en hún kemur að Hólum og er þá biskup úti staddur. Þetta var um hausttíma. Biskup spyr hana að heiti og hver þetta fríða barn eigi. Hún sagði til nafns síns, en barnið ætti hún sjálf og Guðbrandur nokkur sem þar ætti heima á Hólum. Biskup segir að þar væri ekki annar Guðbrandur en hann og mundi hún víst ekki dirfast að dreifa sér við börn umferðarkvenna. – Síðan gengur biskup inn og var reiðuglegur. Helga stóð grátandi úti og þóttist þar þekkja föður barnsins, en vogaði sér ekki að bera það upp; ætlaði hún þá á burt aftur, en í því kemur út kvenmaður og kveðst eiga að leiða hana inn. Helga þiggur það og er hún leidd inn um fjölda dyra þangað til hún kom í herbergi eitt; þar segir kvenmaðurinn hún eigi að vera og læsir aftur.

Nokkru síðar kemur biskupsfrúin inn; hún var fátöluð, en virti ýtarlega fyrir sér Helgu og barnið og gekk síðan burt. Daginn eftir kemur frúin inn og fær henni sauma; annað fólk sá hún ekki á staðnum. Helga var allra kvenna bezt að sér og dáðist frúin mjög að saumum hennar. Leið nú svo fram að jólum; en á jólanóttina kemur frúin inn og fær Helgu alklæðnað úr skarlati, og barninu gaf hún rauðan kjól; svo dregur hún hring á hönd Helgu og segir að hún skuli bera hann. Helga kveðst vera of lítilmótleg til að færast í þetta skraut eða bera hring. En frúin sagði að hún væri þess í alla staði verðug, því hún mundi framar öllum stúlkum á Norðurlandi bæði að ásýnd og handyrðum, og sagði á reiði sína ef hún eigi klæddist í búninginn.

Á jóladaginn gekk Helga í kirkju með biskupsfrúnni og dáðust allir að fegurð hennar og litlu stúlkunnar og voru miklar getgátur um hvaðan þessi stúlka væri, því enginn hafði séð hana fyrri.

Þá bjó í Víðinesi í Hjaltadal bóndi sá er Pétur hét. Hann var auðugur maður og átti einn son er Bjarni hét. Pétur var hreppstjóri í Hjaltadal og mikill vin biskups. – Á jóladagskvöldið var Pétur með biskupi og Bjarni sonur hans; þeir voru að gleði mikilli í næsta herbergi við það er Helga var í. En er Guðrún litla heyrði gleðina og glauminn í herberginu við hliðina varð henni að ljúka upp hurðinni og horfa fram, en móðir hennar kallaði hana jafnsnart aftur og bauð henni að læsa hurðinni. Pétur sat hjá biskupi er litla stúlkan gægðist fram í dyrnar, og spurði: „Hver á þetta fallega barn? Svona frítt barn hefi ég aldrei séð.“ Biskup segir: „Það veit ég eigi, en lofi ég þér að sjá það verðurðu að feðra það.“ Biskup lýkur upp hurðinni og bað Guðrúnu litlu að koma fram fyrir; hún gerði svo. Pétur virti hana fyrir sér og skoðar lengi þangað til hann segir: „Ætti ég að dæma eftir því hverjum hún væri lík þá er hún engum líkari en yður, herra minn, og væruð þér ekki biskup mundi ég segja hana dóttur yðar þótt ekki komi það vel heim við giftingu yðar, þar þér eruð nýkvæntur.“ „Jæja, Pétur minn,“ segir biskup, „þú áttir að feðra hana og það skal standa sem þú segir.“ Síðan segir hann Pétri upp alla söguna og bað hann að hafa hægt um. Pétur bað biskup að lofa sér að sjá móðrina og gerði hann það, kallaði á Helgu inn og lét hana ganga til erinda um stofuna. Dáðust allir að fegurð hennar og vexti, en þó leizt Bjarna frá Víðinesi bezt á hana svo hann þaðan í frá hafði allan hugann hjá henni.

Helga sat í sömu einverunni allan veturinn, en um vorið neyddi Bjarni föður sinn til að fá hana til sauma og lét biskup það eftir þótt það væri í móti skapi frúarinnar. Kom þá vel ásamt með þeim Bjarna svo að hún vorið eftir fór að Víðinesi og gekk að eiga Bjarna, en Guðrún dóttir hennar varð eftir hjá biskupi og elskaði hann hana mest allra barna sinna.

Guðrún ólst upp með föður sínum þangað til hún var sextán vetra; var hún þá allra kvenna fríðust og bezt að sér á Norðurlandi. Þá var biskupsfrúin önduð og var Guðrún þá fyrir búi á stólnum og þótti hin sköruglegasta. Þá bjó að Hörðubóli í Dölum prófastur sá er Þorvarður hét; hann var skólabróðir og góðkunningi Guðbrandar biskups. Hann átti þann son er Skúli hét; hann var þjóðhagasmiður og bjó þar á næsta bæ, en nú var hann orðinn ekkjumaður og var mjög harmsfullur. Reyndi faðir hans til að hugga hann með öllu móti og ráðlagði honum að leita sér nýs ráðahags; en Skúli hélt að engin mundi verða sér til huggunar nema Guðrún biskupsdóttir á Hólum. Faðir hans hélt að það mundi torsókt, en hét þó að leita þess. Riðu þeir þá við sjötta mann norður til Hóla. Tók biskup vel vini sínum og skólabróður; en er prófastur fór að leita einkamálanna tók biskup ekki á því og þótti gjaforðið of lágt til handa dóttur sinni. En þegar til sjálfrar hennar kom var hún þess fýsandi, þar henni leizt vel á Skúla, og tókst þessi ráðahagur og fór Guðrún vestur með Skúla og tók við búsforráðum. Þó var þetta á móti vilja föður hennar. Seinna er sagt að Guðrúnu hafi iðrað þessa og hafi hún þá hvorfið norður aftur til Hóla og hafi biskupi þá þókt það fara að getu sinni; seinna hafi hún þó snúið vestur aftur og hafi samfarir þeirra Skúla þar á eftir góðar verið og hjónaband þeirra farsælt til elli.