Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sagan af vefjarkonunni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af vefjarkonunni

Vefjarkona var að keppast við vef sinn fyrir jólin, en hafði vefstaðinn á öðrum bæ en hún átti heima á. Á Þorláksmessu fellir hún vefinn og vill fara heim, en þá var snjódrífa. Hún fer samt og villist í drífunni þar til henni mætir maður sem hún þekkir ekki. Hann býður henni fylgd og hún þiggur það. Þau fara þar til þau koma að hóli nokkrum. Þar tekur hann upp hellu og fer með hana niður um holið átján rima háan stiga, og þá er dagur kominn. Hún sér að þar er öðrumegin hlaðið miklu af mörvum og eldstó þar utar, en sauðarkrof er öðrumegin. Innar frá mörvahlaðanum sér hún svefnrúm mannsins. Hann tekur úr kistu mikið af líni og segir henni að sauma sér föt af, en segist ætla að sækja sér jólaá að skera. Þegar hann kemur með ána slátrar hann henni og segir stúlkunni að fara til að sjóða, en tekur stóra vínflösku og fer að drekka so hann sofnar út úr því. Þegar hann er sofnaður fer hún að glæða eldinn með mörvunum, en hann sofnar því fastara af bræsugufunni. Þegar bálið og svælan er orðin sem mest fer hún til dyra, kemst upp stigann, en nær honum ekki upp, hraðar sér því sem mest í burtu og heyrist að hólbúinn elta sig, nær þó náttmessu á jólanóttina hjá presti þeim er hún þekkti að átti mark á jólaá hólbúans. Hún segir svo frá ævintýri sínu, en eftir jólin lætur prestur fara til hólsins og stúlkuna til leiðarvísis. Fannst þá mikill auður og hólbúinn fram við stigann með brenndar fætur upp að öklum, dauður. En prestur skipti milli stúlkunnar og sveitarinnar öllum auð eftir hólbúann.