Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sesseljuvarða

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sesseljuvarða

Skammt fyrir utan Húsafell út með hlíðinni er varða ein og er hún þó nú líkari dys en vörðu. Hún heitir Sesseljuvarða af því að abbadís eða nunna frá Skálholti sem Sesselja hét lét hlaða hana. Svo bar til að hún fór þar vestur og upp í Borgarfjörð að líta eftir kirkjum og öðru fleiru. En þegar hún kom þar að sem varða þessi er nú sá hún fyrst kirkjuna á Húsafelli og bauð að hlaða þar vörðuna; enda stendur það heima að maður sér þaðan fyrst kirkjugarðinn á Húsafelli. Reið Sesselja síðan heim og gaf Húsafellskirkju vík eina við Arnarvatn hið mikla norður á heiðum, og fylgir sú vík jörðinni Húsafelli enn í dag.