Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sigurður Íslandströll
Sigurður Íslandströll
Sigurður þessi var Vigfússon. Fyrst eftir að hann kom úr siglingu var hann skólameistari á Hólum (1724-1742), en seinna varð hann sýslumaður í Dalasýslu (1746-1753); bjó hann þá í Stóraskógi og dó þar 1753. Hann var afburðamaður á afl og vöxt og því var hann kallaður Íslandströll.
Það er haft eitt meðal annars til merkis um krafta Sigurðar að þegar smiðjan á Hólum brann einu sinni, en í henni var eirketill mikill sem kallaður var Grettisketill af því hann átti að hafa verið tekinn úr Drangey eftir dráp Grettis, og þekjan var fallin niður öðrumegin fór Sigurður upp á vegginn og greip til ketilhöldunnar annari hendi og kippti katlinum undan þekjunni upp á vegginn. En þegar að var gáð var hálf önnur tunna af steinkolum í katlinum.
Eitt sinn fór Sigurður kynnisferð frá Hólum norður Hjaltadalsheiði til Schevings klausturhaldara á Möðruvöllum. Þegar hann fór þaðan fylgdi Scheving honum aftur undir heiðina. Þeir fóru þar af baki við stein einn mikinn; þá segir Sigurður: „Saa god (það var máltæki hans) loftar þú ekki þessum steini.“ Scheving segir: „Það er ekki víst þú getir það heldur.“ „Þú reynir fyrst,“ segir Sigurður. Scheving gerði svo og tókst honum að lyfta steininum. Varð þá Sigurði bilt við því það ætlaði hann að Scheving mundi ekki geta þó sterkur væri. Hleypur hann þá að og þrífur til steinsins af öllu afli, en steinninn varð léttari í höndum hans en hann ætlaði svo hann rak hann upp í ennið á sér og sprengdi þar fyrir.
Ein sögn er það um Sigurð að þegar hann var nýkominn úr siglingu átti hann eitt sinn leið yfir Tvídægru; það var um sumartíma. Með honum var drengur einn ungur og óharðnaður. Sigurður hafði sverð við hlið eins og venja var fyrirmanna á þeirri tíð. Þegar hann sótti á heiðina komu að honum þrír stigamenn, allir vopnaðir með lagvopnum og létu ófriðlega. Þegar þeir nálguðust fór Sigurður af baki og bjó sig til að verjast þeim. Drengurinn sem með honum var skalf af hræðslu, og skipaði Sigurður honum upp undir kápu sína upp á herðar sér og lætur hann krækja höndunum fram yfir axlirnar á sér undir kápunni; skipar hann honum að halda sér fast svo hann detti ekki þó hann hreyfi sig. Drengur gerir nú svo sem fyrir hann var lagt og veit ekkert hvað gerist, en það heyrir hann að fátt verður um kveðjur með Sigurði og stigamönnum og það þykist hann skynja að þeir veita honum aðför. Finnur drengurinn það að Sigurður tekur þrívegis snögg viðbrögð og segir honum síðan að skríða niður undan kápunni. Sá drengur þá að stigamennirnir liggja þar allir í dauðateygjunum og fossar blóðið úr þeim öllum á sama stað hjá viðbeininu. Reif svo Sigurður upp mosa sem stigamennirnir voru fallnir og huldi með hræ þeirra og fór svo leiðar sinnar. Sigurður hafði lært að skylmast erlendis og kom sú list bæði honum og fylgdarmanni hans að góðu liði í þetta sinn.
Það ætla menn að Sigurður hafi verið grafinn fram undan kirkjudyrum á Kvennabrekku í Dölum og er það til marks um það að árið 1846 þegar mislingasóttin gekk var þar jarðað lík á sama stað því leiðið var sokkið og sást ekki, fannst þar kista með látúnsplötu á lokinu og voru höggnir á hana stafirnir S. V. Þá var prestur á Kvennabrekku séra Benedikt Þórðarson sem nú er á Brjánslæk og sem saga þessi er tekin eftir; hann mældi hliðfjöl eina úr kistunni og var hún á efri brún 3 ½ alin dönsk að lengd.