Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Skúlaskeið

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Skúlaskeið

Maður hét Skúli; hann var dæmdur líflaus á alþingi, en gat flúið þaðan. Elti hann þá mikill sægur af fjandmönnum hans; en hesturinn hans var svo góður að hann varð langt á undan þeim öllum. Hann reið upp Hofmannaflöt og Tröllaháls, til Hallbjarnarvarða og norður á Kaldadal. Þar nam hann litla stund staðar, hellti víni af ferðapelanum sínum í steinþró og kallaði þeim hæðnisorðum til þerra sem eltu hann að hann vildi launa þeim með þessu svo fjölmenna fylgd. Síðan hleypti hann klárnum með flugaferð á einhvern hinn illgrýttasta óveg sem verið hefur á landinu og þorði enginn hinna að fara þar á eftir honum. Af því dregur þessi vegur nafn og heitir enn í dag Skúlaskeið. Þegar Skúli kom heim til sín féll hesturinn dauður niður af þreytu og mæði; gerði hann hestinum það þá til virðingar að hann hélt erfisdrykkju eftir hann og lét taka gröf að klárnum og grafa hann.