Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Skjöldólfur og Hákon

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Skjöldólfur og Hákon

Á þeim dögum er Ísland byggðist komu tveir menn göfugir af Norvegi er hétu Hákon og Skjöldólfur; komu þeir í Austfjörðu. Var þá Hérað mikið byggt, gengu því allt norður að Smjörvatnsheiði unz þeir komu að á mikilli er kom innan djúpan og þröngvan dal; kölluðu þeir ána Jökulsá, dalinn Jökuldal. Héldu þeir nú upp með ánni vestan megin í dalnum unz þeir komu undir mikið fjall og fagrar hlíðar; þar staðnæmdist Skjöldólfur og byggði þar bæ er síðan heitir á Skjöldólfsstöðum og stendur hann utan Gilsáar. Hákon hélt nú upp fyrir Gilsá lengra upp dalinn og byggði þar bæ er síðan heita Hákonarstaðir og nam land ofan Gilsáar. Bráðum óx þeim fé og gjörðust þeir stórbændur miklir og stórbokkar; einkum er sagt Hákon hafi gjörzt uppvöðslumaður mikill og talið til lands hjá Skjöldólfi og segir sagan að þar hafi ávallt verið kali á milli sem varð að fullum fjandskap; kom svo máli þeirra seinast að þeir lögðu fund með sér norður í heiði. Varð fundur þeirra hjá vatni einu sem heitir Stórhólmavatn og lauk þeim fundi svoleiðis að þeir börðust og féll þar Skjöldólfur fyr Hákoni og var heygður þar í hólmanum í vatninu og stendur haugur hans þar enn í dag og sér langt til.