Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Skrokkhóll

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Skrokkhóll

Á holtahrygg þeim sem liggur vestur milli Lækjarbotna og Lúnanholts á Landi stendur hóll sem Skrokkhóll heitir, stór ummáls, kollóttur. Segja sumir að það sé haugur Þorsteins lúnans, en það getur ekki verið því hóllinn er stór sem holt og berg eitt innan, og sér á nípur (nef) hér og hvar. En verið getur að undir hólnum séu legstaðir fornmanna. Nokkuð er það hann kvað vera umgirtur af gömlu garðlagi næstum eða alveg allt um kring. Oftar en einu sinni hafa menn grafið í hann hér og hvar og ekki orðið varir við neitt nema bergið í hólnum.

Nafnið kvað hann hafa fengið á seinni tímum af því að eftir mikil harðindi stóðu einu sinni undir honum átján, aðrir segja þrjátíu, hrossskrokkar helfrosnir. Nokkrir segja að leiði eða haugur Þorsteins sé þar í túnjaðri skemmst frá bænum Lúnansholti. Það er ávalur kringlóttur bali utan í litlu valllendisbarði, en mýrarlaut er fyri neðan. Aðrir halda það sé gamall og uppgróinn öskuhaugur, og verður ekki varið að því er það líkara en fornmannahaug. Sagt er að kona Þorsteins liggi í þúfu sem er þar austur frá túninu.