Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Smalarnir frá Snorrastöðum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Smalarnir frá Snorrastöðum

Smalar tveir frá Snorrastöðum og Ytrigörðum í Kolbeinsstaðahrepp tóku ráð sín saman og lögðust báðir út í hellri nokkrum í Eldborgarhrauni út undan Eldborg, og sést enn fyrir rúmi þeirra af grjóthleðslu sem þar er. Gistu þeir þar á þriðja ár; vatnsból sitt höfðu þeir í tjörn einni fyrir norðan Eldborgargötu. Seinasta sumarið sem þeir voru í útlegðinni var stúlka að smala frá Ytrigörðum út í hrauni og sér hún mann sem er að sækja vatn. Sleppir hann því er hann sér stúlkuna og fer að elta hana og hættir ekki fyrr en hann kemur heim undir tún á Ytrigörðum; missir hann þá af henni og snýr við það aftur.

Á áliðnu enu sama sumri var önnur stúlka frá Snorrastöðum að leita kúa út í hrauni og sér hún þá eldsloga þar út í hrauninu; gengur hún þangað og sér þá hvar tveir menn eru að gjöra til eða slátra stórgrip. Urðu þeir þá jafnskjótt varir við hana og veittu henni eftirför, en hún hljóp út í brunann í hrauninu og fleygir sér ofan í gjá eina svo að þeir misstu við það sjónar á henni, en hún heyrir að annar þeirra segir í því er hann stökkur yfir gjána: „Hún hefir vissulega drepið sig.“ Hverfa þeir við það heim til sín. En seinna um nóttina klifrast hún upp úr gjánni og fer heim, en um morguninn eftir er gjörð leit í hraunið og fundust þá híbýli þeirra og þeir sjálfir nokkru seinna út í Hafursfelli; vóru þeir þá handteknir og því næst af teknir eða hengdir í Steinboganum sem er lækur einn er svo nefnist skammt fyrir norðan Hítarnes, og eru þeir dysjaðir þar.