Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Solveig Árnadóttir í Skógum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Solveig Árnadóttir í Skógum

Kona Ámunda († 1774) lögréttumanns í Skógum ytri Þormóðssonar var Solveig Árnadóttir Eyjólfssonar sýslumanns í Rangárþingi Halldórssonar 1592 og Solveigar Árnadóttir á Hlíðarenda Gíslasonar.[1]

Solveig Árnadóttir er nafnkennd örlætis- og rausnarkona og er nafn hennar enn í fersku minni hjá fróðum mönnum hér undir Fjöllunum. En með því það er aldrei ofgjört að halda á lofti minningu góðra manna – ekki síður en sumra atgjörvismanna – þá set ég hér eina frásögu sem dæmi upp á örlæti hennar, eina af þeim mörgu:

Ámundi var á alþingi eitt vor því hann var lögréttumaður. Þá kom fátæklingur einn utan úr Eyvindarhólasókn fótgangandi til hennar að Skógum sem hafði misst kúna sína, þá einu sem hann átti. Þegar Solveig heyrði þetta lét hún sækja eina kúna út í hagann og hest til að setja hana aftan í, fekk honum það og sagði hann Ámundi sinn gæfi honum það; það var alltaf orðtak hennar þegar hún gaf. Maðurinn varð grátfeginn gjöfinni, fór áleiðis út eftir og mætti Ámunda í Skógaá. Þakkaði maðurinn honum fyrir og sagði honum ummæli Solveigar. Varð honum það þá að orði sem síðan er að orðtæki haft: „Flest vill Solveig mér til sæmdar gjöra.“

  1. Ámundi virðist hafa dáið um öld fyrr en hér segir. Sólveig eldri var kona Eyjólfs sýslumanns (d. 1597).