Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sterka stúlkan tólf ára

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Eitt sinn sendi Sigurður sál. landþingsskrifari á Hlíðarenda[1] mann vestur á Breiðafjörð til einhverra sérlegra erindisgjörða. Um nafn sendimannsins er ei getið nema að það hafi vel frískur maður verið. Maðurinn komst vestur með góðu og út í ey þá er hann var til sendur, að kvöldi dags og hafði þar góðar viðtökur. En vegna þess að maðurinn var ferðamóður, en vel um hann búið, sefur hann lengi og vaknar ei fyr en allir eru rónir til fiska um morguninn. Þegar hann verður þess var þyki[r] hönum bágt að komast ei til lands og tapa so góðu ferðaveðri. Konan segir að hann verði so búið að hafa nema ef hann geti komizt til lands með dóttur sinni tólf ára gamalli; hún kunni að komast aftur með bátkænuna til eyjarinnar á undan kaldanum. Maðurinn er ánægður ef hann kemst í land hvörnig sem so fer, og býst til ferðar; og nú gengur hann og stúlkan til skipanaustanna. Þar standa hákallalifrarílát mörg og er víða stórir lýsispollar þar í. Stúlkan tekur þar ausu eina sem tekur hér um bil hálfan pott eður vel það. Hún tekur hana fulla úr einum lýsispollinum og drekkur allt úr. Síðan býður hún samferðmanni sínum upp á sama, en hann vill ekki þiggja. Því næst setja þau fram bát og fara á stað og taka til ára. Ekki hafa þau lengi róið áður hún segir: „Dálítið verðum við að róa ef við eigum að komast til lands.“ Þetta þykir manninum lítilfjörlegt að tólf ára stúlka ámæli sér, jafnfrískum manni, og herðir sig slíkt sem hann getur. Það hafði hann sagt síðar er hann frá skýrði að alltaf mundi hún hafa getað betur því oft hefði hún ei haft nema aðra höndina á ár sinni til lands. Þegar þau eru á land komin spyr hann hana hvað valda muni hennar miklu kröftum jafnungrar. Hún kvaðst ei sterk mega heita, en ef nokkuð væri, „þá kemur það af því að ég hef oft sopið á hráu hákallslýsi föður míns og til þess hefur hann hvatt mig“. Síðan heilsast þau, en hún sezt til ára og þókti hönum hún allhraustlega róa tveim árum frá landi.


  1. Sigurður Sigurðsson (1718-1780) alþingisskrifari (frá 1743 til æviloka) bjó á Hlíðarenda frá 1752 til æviloka. Sbr. Glímu-Oddur á Hlíðarenda.