Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Straumönd

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Straumönd

Maður hét Jón Björnsson; hann var lengi Grímseyjarfari og formaður á skipi því sem hét Stórirauður. Nú var hann fyrir nokkru hættur milliferðum. Skip eitt hét Straumönd. Það var eitt vor[1] að skip þetta átti að fara skreiðarferð til Grímseyjar; var þá Jón fenginn til að vera fyrir skipinu. Héldu þeir nú skipinu til Grímseyjar og settu það upp í Sandvík utarlega á eynni. Nú gaf þeim ekki landleiði í nokkra daga.

Í Grenivík var kvenmaður sem Margrét hét († 1843, 76 ára). Hún gekk einn dag út í Bása.[2] Á leiðinni til baka gekk hún suður bakkann rétt fyrir ofan Sandvíkina, heldur svo leiðar sinnar heim í Grenivík. Þegar hún er heim komin fyrir litlu segir hún: „Mér þókti það nokkuð undarlegt sem þeir voru að gjöra, landmennirnir. Þeir stóðu allir með axir og hamra og voru að berja hana Straumönd utan og hún Guðrún Benediktsdóttir með þeim.“ Þetta þókti fleirum undarlegt og var farið um kvöldið að grennslast um hvað skipverjar hefðu verið að gera við Straumönd. Kom það þá fyrir að skipverjar höfðu verið um daginn suður á bæjum og ekki komið út í Sandvík.

Litlu seinna var beinstætt norðanleiði og hlaða nú landmenn skip sitt. Hlóðu þeir svo ekki var uppi nema eitt borð, og fiskhlaðinn var seilingarhár af bita. Jón Björnsson hafði falið öðrum umsjón á hleðslunni; kom hann nú að, þykir ofhlaðið og skipar að létta nokkuð hleðslunni, en það varð nokkuð tregt um það. Segir þá Jón: „Já, ég held ég megi þá segja eins og Flosi: Farið er fært feigum og gömlum.“ Nú sigla þeir á leið til lands, og fór með þeim kvenmaður einn úr Grímsey, að nafni Guðrún Benediktsdóttir. Í sama bili fer eyjarskip til lands. Formaður þess hét Bjarni. Einn háseti Bjarna hét Þorleifur; hann hafði verið formaður, en var nú orðinn gamall († 25. maí 1831, 82 ára). Þegar þeir komu inn úr Gáttinni, sem er fiskimið við Grímsey, var farið að hvessa og ganga í sjóinn; eru þeir þá skammt frá Straumönd. Sér þá Þorleifur hvar einn násjór[3] kemur, með rauðan hring í miðju, og segir þá Þorleifur: „Gáðu nú að þér, Bjarni, nú drepur hann okkur.“ „Fuþþ, ekki þarf það nú að vera, gáiði að seglinu,“ svarar Bjarni og sneri skipinu upp í. „Ó, drottinn minn, fallega fór nú, Bjarni minn,“ segir þá Þorleifur. Svo kom annar og þriðji násjórinn, en Bjarni sneri upp í þá alla, og þá sáu þeir að Straumönd liðaðist í sundur og fórust allir mennirnir.

Kona Jóns Björnssonar hét Álfheiður. Hún lagði sig til svefns heima hjá sér (í Eyjafirði) þetta sama kvöld, vaknar upp og segir: „Hann liggur þá á mararbotni hann Jón minn.“ Og lýkur svo þessari sögu.

  1. Frásagnarformið það var eitt vor, það var einn góðan veðurdag, er mjög algengt í Norðurlandi og að minni meining íslenzku eiginlegt; þó sumir kalli það dönskukennt held ég það aé misskilningur. „Der var en Mand“ kemur af: „Það var einn maður sem etc“, en ekki vice versa [Hdr.].
  2. Grenivík er syðsti bær á eynni, Básar yzti bærinn; næsti bær fyrir sunnan Bása er Sandvík, rétt hjá samnefndri vík [Hdr.].
  3. Það er sagt að násjóar hafi ætíð rauðan hring í miðju og séu ætíð þrír (sbr. [Allrahanda nr.] 74 = 206 [þ. e. Enn frá Málmey, III. bd., 482. bls.] og „sjaldan rís ein bára stök“). [Hdr.]