Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sveinn Gíslason

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Sveinn hét son Gísla bónda Sigurðssonar á Skaftholti. Hann var svo fljótur á fæti og ómæðinn að hann hafði einu sinni hlaupið uppi tóu. Annað sinn var hann í fjallreið með öðrum mönnum og eltu þeir sauði tvo, stygga mjög. Regn var mikið og riðu menn í síðhempum og voru votir. Sauðirnir hlupu að Dalsá við hlaupið. Þar er áin nálægt einn faðmur á breidd og berg báðum megin, en hyldýpi undir og harður straumur. Menn fóru þá af baki og vildu ná sauðunum við ána og líklega hábinda þá. Sauðirnir stukku á hlaupið og fór annar ofan í og var úti með hann. Hinn komst yfir. Sveinn hljóp eftir í síðhempunni og komst yfir og um leið og hann kom á innri barminn greip hann um hækilbein sauðarins og hélt honum. Menn sóktu hann aftur á vaðinu, því verra er að hlaupa fram yfir, því lítið hærra er að framan. Ekki vita menn til að aðrir hafi hlaupið þar yfir.

Bróðir Sveins var Gestur faðir Sveins smiðs, sem nú er á Seltjarnarnesi eða Reykjavík. Gestur hvarf milli Gaukshöfða og Bringu. Fannst þar hestur hans við Þjórsá hjá götunni daginn eftir. Hann kom frá stóðrekstri um vorið. Sveinn bróðir hans var þá dauður fyrir löngu barnlaus (úr sótt?), varð ekki gamall.