Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Viðburðasögur/Sviði og Vífill

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sviði og Vífill

Eitt með dýpstu fiskimiðum á Faxaflóa er nefnt Svið. Er þangað sóttur sjór af öllum Innnesjum sem að Flóanum liggja, Akranesi, Seltjarnarnesi, Álftanesi, Hafnarfirði, Hraunum og jafnvel af Vatnsleysuströnd. Sviðið hefur jafnan verið eitthvert fiskisælasta djúpmið á flóa þessum og er til þess saga sú sem nú skal greina.

Sviðholt er bær nefndur; hann stendur hér um bil á miðju Álftanesi. Það er talin landnámsjörð þó hennar sé ekki getið í Landnámu. Þar byggði sá maður fyrst er Sviði hét og kallaði bæinn eftir sér Sviðholt. Bær heitir Vífilsstaðir og er landnámsjörð; þar gaf Ingólfur Arnarson í Reykjavík Vífil húskarli sínum bústað; en Vífill gaf bænum aftur nafn af sér og bjó þar síðan. Vífilsstaðir er efstur bær og austastur upp með Garðahrauni að norðan og lengst frá sjó af öllum bæjum í Garðasókn á Álftanesi og hér um bil hálfa aðra mílu frá Sviðholti. Það er mælt að þeir Vífill og Sviði hafi róið saman tveir einir á áttæringi og hafi Vífill, þó hann ætti margfalt lengri skipgötu en Sviði sem bjó á sjávarbakkanum að kalla, ávallt farið heim og heiman í hvert sinn sem þeir réru. Sumir segja að Sviði hafi verið formaðurinn, en aðrir að Vífill hafi verið það og þykir mega marka það af því sem nú skal greina að Vífill hafi verið formaður: Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt sem Vífilfell heitir og liggur þjóðvegur ofan fyrir norðan það þegar farið er Hellisskarð að austan eða Lágaskarð; en rétt vestan undir fellinu liggur Ólafsskarðsvegurinn á þjóðveginn. Vífilfell er hæst af fjöllum þeim sem verða á vinstri hönd þegar riðið er yfir Hellisheiði suður í Reykjavík, og dregst það mjög að sér ofan. Þó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum en til sjávar gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið til að gá til veðurs áður en hann fór að róa og réri ekki ef hann sá nokkra skýská á lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum. En ef honum leizt róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og réri með Sviða, og þykir þetta benda til þess að Vífill hafi álitið það skyldu sína sem formaður að gá að útliti lofts áður en róið væri.

Einhverju sinni kom þeim lagsmönnum Vífil og Sviða ásamt um að þeir skyldu búa til mið þar sem þeir yrðu bezt fiskvarir. Er þá sagt að Sviði hafi kastað heiman að frá sér langlegg einum og kom hann niður fjórar vikur sjávar frá landi, og heitir þar nú Sviðsbrúnin vestri. Vífill kastaði og öðrum langlegg heiman að frá sér og kom hann niður viku sjávar grynnra eða nær landi; dró hann af því ekki eins langt út og Sviði að vegamunur er svo mikill milli Sviðholts og Vífilsstaða á landi. Þar heitir nú Sviðsbrún (hin grynnri) sem leggur Vífils kom niður. Var þannig vika sjávar milli leggjanna, eins langt og nú er talið að Sviðið nái yfir frá austri til vesturs. Allt svæðið milli leggjanna kölluðu þeir Svið og mæltu svo um að þar skyldi jafnan fiskvart verða ef ekki væri dauður sjór í Faxaflóa. Á þenna hátt mynduðust Sviðsbrúnirnar sem nú er sagt; en áður jafndýpkaði einlægt út frá landinu og munar það miklu hversu grynnra er á Sviðinu öllu austur og vestur jafnt en í Djúpinu fyrir innan Sviðið eða austan það; því þar er venjulegast þrjátíu til fjörutíu faðma djúp, þar sem djúpið er á Sviðinu í beinni stefnu vestur ekki meira en tuttugu faðma. En því er hér um bil jafndýpi á Sviðinu miðreitis austur og vestur, þó dýpra sé bæði þegar dregur suður og norður eftir því, að Sviða þótti illt að eiga við misdýpið milli Sviðsbrúnanna og kastaði því út sjóvettling sínum, og fyllti hann út í bilið milli brúnanna svo alls staðar varð jafndjúpt að kalla á öllu Sviðinu. Það segja og sumir menn að Sviði hafi átt að kasta út kefli með með þeim fyrirmælum að þar skyldi aldrei fiskilaust verða er keflið fyndist. En keflið fannst nokkru síðar vestur á Sviði þar sem það er grynnst og ætla menn það hafi borið þar yfir sem þumallinn á vettling Sviða var undir á mararbotni; þar heitir nú Mið á Sviðinu og er þar aðeins fimmtán faðma djúp, og þykja fyrirmæli Sviða hafa rætzt á því miði til þessa. Af því Sviðið ber nafn af Sviða, en ekki Vífil, halda sumir að hann hafi verið formaðurinn.

Þeir Vífill og Sviði réru jafnan á þetta mið er þeim þótti sjóveður og lágu þá úti ef þeir fengu ekki upp á áttæringinn með dægri, og fóru aldrei þangað fýluferð.